Þýski Tiger-skriðdrekinn er oft sagður einn besti skriðdrekinn sem framleiddur var á árum seinni heimsstyrjaldar. Fyrstu eintökin komu úr verksmiðjunum árið 1942, en Þýskaland hafði sumarið áður ráðist inn í Sovétríkin og gríðarstórir herir stórveldanna tveggja börðust upp á líf og dauða á austurvígstöðvunum.
Nýi Tiger-skriðdrekinn var flókin maskína og Þriðja ríkið þurfti að þjálfa fjölda ungra manna í að stýra þessu hertæki. Nýliðar voru þjálfaðir í sérstökum skriðdrekaþjálfunarbúðum í Paderborn í Norður-Þýskaland. Hans Christern ofursti var yfirmaður búðanna og ákvað að útbúinn skyldi sérstakur þjálfunarbæklingur fyrir nýliðana. Verkið fól hann undirmanni sínum Josef von Glatter-Götz.
Lautinant Glatter-Götz lét alvarleika stríðsins ekki á sig fá og vildi gera bæklinginn skemmtilegan og upplífgandi. Hann fékk tvo teiknara til liðs við sig og úr varð lítil bók — Tigerfibel — stútfull af „svölu“ þýsku hermannaslangri, lélegum ljóðum, gríni, skopmyndum og síðast en ekki síst teikningum af fáklæddri stúlku sem hlaut nafnið Elvira. Í bæklingnum sést Elvira yfirleitt nakin eða í rómantískum aðstæðum með skriðdrekaliðum.
Hér að neðan má sjá nokkrar vel valdar síður úr Tigerfibel. Bæklingurinn reyndist svo vinsæll meðal þýskra hermanna að annar eins var útbúinn fyrir Panther-skriðdreka ári síðar.
Heimild: Tiger I Information Center