Fúin bókarskrudda, lítilfjörleg að sjá að utanverðu, hefur valdið gífurlegum heilabrotum fræðimanna í margar aldir.

 

Samt hefur ekki nokkur maður lesið bókina.

 

Hún er skrifuð á óskiljanlegu letri og óskiljanlegri tungu.

 

Furðulegar teikningar á síðum bókarinnar velta fáum steinum en þær sýna meðal annars naktar konur að baða sig í dularfullum kerum.

 

Í gegnum árin hafa ýmsar kenningar um handritið verið settar fram sem flakkað hefur mann frá manni í 400 ár og alls staðar vakið furðu og deilur – þrátt fyrir að enginn hafi ráðið dulmál þess, og hugsanlega einmitt þess vegna.

 

Ætli hún tengist þúsundþjalasmiðnum dularfulla, Leonardo Da Vinci?

 

Eða tengist hún einhverri leynireglu?

 

Geymir hún ægilegt leyndarmál?

 

Lykilinn að eilífri æsku?

 

Árið 1912 keypti Wilfrid Voynich, pólsk-bandarískur bókasafnari, 30 verðmæt handrit af fornri menntastofnun jesúíta í Róm. Meðal handritanna var bókin sem hér verður fjallað um og er nú kennd við Voynich.

 

Voynich-handritið liggur nú á skjalasafni fágætra bóka í Yale-háskóla í Connecticut-fylki í Bandaríkjunum.

 

Safnvörður þar segir að tilgáturnar um handritið séu nær óteljandi. Eftirlætiskenningin hans er að hér sé á ferð dagbók geimveru á táningsaldri sem gleymdi henni á ferðalagi með fjölskyldunni hér á jörðu.

 

Handritið hefur verið rannsakað ítarlega vestanhafs síðan Voynich kom með það. Lítið sem ekkert hefur hafst upp úr þeim rannsóknum, jafnvel þótt færustu dulmálsfræðingar hjá leynistofnunum Bandaríkjanna hafi lagt hönd á plóg. Jafnvel þó þar hafi komið við sögu hin alræmda Þjóðaröryggistofnun Bandaríkjanna, NSA, sem Edward Snowden hefur gert fræga.

 

Hér er hægt að lesa bókina, eða fletta henni öllu heldur og skoða:

 

 

Þetta er mikill hasar í kringum frekar litla bók. Hún er ekki nema jafnstór og lítil kilja.

 

Gullgerðarmenn og jesúítar koma við sögu á fyrstu árum hennar.
 

Voynich-handritið virðist fyrst dúkka upp í sögunni árið 1639. Heimildir geta þess að þá hafi eigandi þess verið lítt þekktur gullgerðarmaður í tékknesku borginni Prag, Georg Baresch að nafni.
 

Hann var ákaflega forvitinn um innihald bókarinnar en náði ekki að ráða dulmálið. Hann hafði heyrt jesúítans Aþanasíuar Kirchers getið sem var frægur vísindamaður af þýskum ættum og starfaði í Róm. Kircher hafði skrifað bækur um koptísku og þóttist hafa þýtt og ráðið egypsku híróglífurnar.

 

Aþanasíus Kircher.

Aþanasíus Kircher.

 

Baresch skrifaði Kircher bréf og bað hann að þýða hið dularfulla rit sem væri skrifað með óþekktu letri og fagurlega skreytt myndum af blómum, stjörnum og ýmsum furðum gullgerðarlistarinnar. Kircher svaraði og bað gullgerðarmanninn að senda sér handritið. Baresch vildi ekki láta það af hendi en lést skömmu síðar.

 

Besti vinur hins látna, Jan Marek Marci, tók þá bókina úr dánarbúinu og sendi Aþanasíusi Kircher í Róm. Marci var rektor háskólans í Prag og gamall vinur Kirchers. Síðan spyrst ekki meira til Voynichs-handritsins í langan tíma. Kircher virðist ekki hafa komist langt í rannsókn sinni á handritinu dularfulla því hvergi er minnst á það í neinum heimildum.

 

Handritið lá svo í 200 ár á bókasafni jesúítaskólans Collegio Romano eða allt þar til árið 1912, þegar Wilfrid Voynich fékk að kaupa það, eftir að eldfimt stjórnmálaástand á Ítalíu hafði gert fræðimönnum erfitt fyrir.

 

Hann lýsti þessu svona:

 

„Árið 1912 rakst ég á ótrúlegt safn dásamlega myndrænna handrita. Ritin höfðu legið grafin um áratuga skeið á botninum á kistum sem ég fann í eldfornum kastala í Suður-Evrópu. Þar höfðu þau augljóslega verið lögð í kjölfar þeirrar stjórnmálalegu óaldar er ríkti í Evrópu snemma á nítjándu öld. Þegar ég rýndi í gegnum handritin með það fyrir augum að bæta nokkrum þeirra í safn mitt, fangaði eitt þeirra athygli mína. Það var svo ljót tuska miðað við hin handritin, sem voru gulli og fögrum litum skreytt, að ég gat ekki annað en dustað rykið af því.“

 

Voynich var af pólskum ættum en fæddist í Litháen árið 1865 sem þá var hluti Rússneska keisaradæmisins. Hann lenti ungur í fangabúðum í Síberíu fyrir óhlýðni við keisarann. En svo flutti hann til London sem á þeim árum var aðsetur margra byltingarmanna frá ýmsum heimshornum. Voynich stofnaði fornbókaverslun. Í búðina fóru að rata ýmsir menn sem voru á stjórnmálalegum vergangi og fóru að rabba þar reglulega um byltingarmál. Einn þeirra sem hékk löngum stundum í verslun Voynich var sjálfur Karl Marx.

 

Voynich lést árið 1930 og seldi dánarbústjóri hans handritið fyrir 25.000 dollara. Kaupandinn var Hans P. Kraus, virtur fornbókasali í New York. Hann náði ekki að selja bókina eftir margar tilraunir og gaf Yale-háskóla hana árið 1969.

 

640px-F34r

 

Talið er að handritið hafi upphaflega verið 272 blaðsíður að lengd en nú eru 240 eftir. Ljóst er að textinn var skrifaður frá vinstri til hægri. Engin greinarmerki eru greinanleg. Fræðimenn segja að svo virðist sem skrifarinn hafi vel skilið merkingu þess sem hann skrifaði, því rithöndin er mjúk og flæðandi. Engin vísbending er því um að þurft hafi að ígrunda hvern einasta staf áður en hann var ritaður. Textinn samanstendur af yfir 170.000 táknum eða stöfum. Bil skipta textanum niður í 35.000 orð.

 

Út frá málfræðilegum forsendum má gera ráð fyrir að alvöru, náttúrulegt tungumál sé notað því orðin mynda ólíkir stafir með endurteknum reglubundnum stafsetningarreglum. Ákveðnir stafir virðast vera byggingareiningar orðanna, líkt og sérhljóðar í íslensku. Hins vegar er tungumál Voynich-handritsins gerólíkt evrópskum tungumálum því engin orð eru lengri en 10 stafir og fá styttri en þrír stafir.

 

Teikningar bókarinnar eru margar og forvitnilegar. Þær hjálpa þó ekki forvitnum „lesanda“ hennar um efni textans. Þó er með góðu móti hægt að segja að sex flokkar teikninga séu ráðandi: jurtir, stjörnufræði, líffræði, uppskriftir, lyf og kosmólógía.

 

Í jurtafræðikaflanum eru litskrúðugar myndir af dæmigerðum nytjajurtum Evrópu en þó er ekki hægt að greina nákvæmlega hvaða jurtategundir átt er við. Líffræðihlutinn sýnir naktar konur baða sig í kerum. Flókin kerfi röra og pípna liggja út frá kerunum.

 

Slímkennd dýr fljúga um blaðsíðurnar. Eru þetta marglyttur? Hvað er þetta við hliðina á þeim? Humar? Og allstaðar skrýtnar plöntur.

 

Voynich_Manuscript_(141)

 

Það er engu líkara en lesandinn – eða sá sem flettir bókinni réttara sagt því ekki les hann neitt – sé á LSD eða öðru ofskynjunarlyfi.

 

En hver var eiginlega höfundurinn?

 

Í bréfi Marcis rektors í Prag til Kirchers, sem hann lét fylgja með bókinni, taldi hann að höfundur hennar hafi verið enski fransiskumunkurinn og fræðingurinn Roger Bacon sem uppi var á 13. öld. Sagnfræðingar sem sérhæfðir eru í verkum Bacons hafna þeirri kenningu algerlega þegar þeir sjá Voynich-handritið. Algerlega ólíkt hans verkum.

 

Voynich_Manuscript_(170)

 

Áður þótti líklegast að Voynich gamli hefði búið handritið til sjálfur, falsað það í von um sölugróða. Sá möguleiki hefur verið útilokaður af mörgum í dag eftir tæknilegar rannsóknir vísindamanna á síðum handritsins. Auk þess er bent á að Voynich hafi aldrei reynt að selja bókina. En það eru auðvitað skiptar skoðanir á þessu. Kannski vildi kallinn bara gabba umheiminn með þessari bók og ef svo er hefur honum sannarlega tekist að hræra í mörgu heilabúinu í gegnum árin.

 

Óteljandi kenningar hafa verið settar fram um ýmsa mögulega höfunda Voynich-handritsins en flestar þeirra hafa verið afsannaðar. Margir leita aftur til Prag á 17. öld þar sem við heyrum fyrst af handritinu. En heimildir frá þeim tíma eru af skornum skammti. Margt bendir þó til að handritið sé eldra en frá þeim tíma og margir fræðingar giska á að það hafi verið skrifað á 15. öld.

 

En á hvaða tungumáli er það?

 

Við fyrstu skoðun álykta margir að texti handritsins sé á dulmáli. Tungumálið sé evrópskt tungumál sem dulmálið hylur. Þannig lögðu dulmálssérfræðingar í Bandaríkjunum um miðja síðustu öld upp með rannsóknir sínar.

 

Texti í bókinni. Skilur þú þetta?

Texti í bókinni. Skilur þú þetta?

 

Sérfræðingar frá leynistofnunum NSA og CIA rannsökuðu handritið gaumgæfilega en án árangurs. Sömu dulmálsfræðingar höfðu áður náð að ráða ýmis dulmál í síðari heimsstyrjöldinni svo gera má ráð fyrir að þeir hafi haft margt til brunns að bera. Eflaust með þeim færari í bransanum.

 

William Friedman, einn fremsti dulmálssérfræðingur tuttugustu aldar, rembdist við handritið í heil 30 ár. Án árangurs. Hann er frægastur fyrir að hafa verið einn af stofnendum NSA, áðurnefndrar Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

 

640px-Voynich_Manuscript_(119)

 

Önnur kenning leggur til að Voynich-textinn sé að mestu merkingarlaus, en með földum skilaboðum og setningum á földum stöðum. Slík tækni kallast steganógrafía. En engin slík tákn hafa fundist í handritinu, ekki einu sinni með smásjártækni.

 

Marga fræðimenn grunar að um austurasískt tungumál gæti verið að ræða. Lengd orða og bygging þeirra þykir minna á ýmis asísk tungumál á borð við taílensku, kínversku, tíbesku og víetnömsku. Evrópumenn fóru að ferðast nokkuð mikið til Austurlanda fjær á 15. og 16. öld svo kenningin er ekki sögulega óhugsandi. En fræðimenn í Austurlöndum hafa ekki kannast við margt í handritinu, hvorki tungumál né myndir og telja það ekki líkt neinu sem þeir vita af úr sínum rannsóknum.

 

Æj já. Þetta fer að verða þreytandi.

 

Margir benda á að fjölmargt í texta, teikningum og sögu Voynich-handritsins sé grunsamlegt. Enginn hefur náð nokkurri merkingu úr textanum í fjórar aldir og finnst sumum það benda til að það sé engin merking til staðar í handritinu.

 

Hins vegar ber að hafa í huga að handritið er gífurlega vandað, langt og mikið verk. Hver ætti að leggja slíka vinnu á sig fyrir einfalt gabb? Handritið hefur að geyma aragrúa smáatriða og ýmsa flókna þætti sem aðeins eru greinanlegir í smásjá og öðrum nútímatækjum.

 

Í hvaða tilgangi ætti sá sem gabbar að koma fyrir smáatriðum sem samtíðarmenn hans fyrir að minnsta kosti fjórum öldum höfðu ekki einu sinni tæki til að sjá? Til hvers að búa til gabb sem enginn sér? Og hver ætti að nenna að skrifa yfir 200 blaðsíður með gríðarlega flókinni, vandaðri og seinskrifaðri leturgerð? Ekki er öll vitleysan eins.

 

640px-Voynich_Manuscript_(32)

 

Að öllum kenningunum útlistuðum sér lesandinn að Voynich-handritið virðist vera þversögn. Bók sem enginn getur lesið, en virðist þó hafa verið skrifuð samviskusamlega. En til hvers er bók skrifuð sem enginn getur lesið?

 

Fyrir það eitt að vera dularfullt vekur handritið mikla athygli og áhuga. Hér er til dæmis þáttur National Geographic um það.

Vídjó

 

En snemma árs 2014 kom stórfrétt í Voynich-heiminum. Breskur málvísindamaður, prófessor Stephen Bax, segist hafa náð að ráða dulmál 10 orða í bókinni, hvorki meira né minna. Hann segist hafa lesið í handritið með gömul arabísk rit í huga. Og segist nú hafa fundið einhvern samhljóm með þeim. Bax segir að rannsókn sín sé á byrjunarstigi. Til að byrja með geti hann ekki sagst hafa fundið merkingu í bókinni. En hann segist nú alveg sannfærður um að Voynich-handritið sé ekki gabb.

 

Prófessor Bax er ekki eini fræðimaðurinn sem hellir sér yfir handritið um þessar mundir. Á síðasta ári gaf eðlisfræðingurinn Marcelo Montemurro út vandaða greinargerð þar sem hann færði rök fyrir því að bókin geymi raunverulega einhverja merkingu.

 

En hver sú merking er veit enginn ennþá.

 

Uppfært 15. maí 2019: Dr. Gerard Cheshire, fræðimaður hjá University of Bristol í Englandi, birti nýlega grein í fræðiritinu Romance Studies þar sem hann segist hafa ráðið dulmál Voynich-handritsins. Hann telur tungumálið vera útdautt prótó-rómanskt tungumál – þ.e.a.s. á tungumáli sem liggur á milli latínu og rómanskra tungumála nútímans svo sem ítölsku, spænsku og portúgölsku. Ritmálið er óvenjulegt, skrifar Cheshire, uppfullt af táknum sem við skiljum ekki í nútímanum. Voynich-handritið sé, samkvæmt því sjálfu, frá um 1445 og samið á virkiseyjunni Castello Aragonese við Ischia í Napólí-flóa á Ítalíu. Lesið meira: The Language and Writing System of MS408 (Voynich) Explained.