Árið 1952 gaf þýskur aðalsmaður, Friedrich Christian prins af Schaumburg-Lippe, út æviminningar sínar. Í ævisögunni sagði hann frá fundi sem hann hafði átt vorið 1938 í Berlín með þremur Íslendingum. Á fundinum var prinsinum boðið að verða konungur Íslands eftir að landið hefði öðlast sjálfstæði.

 

Fundarstaðurinn var í sölum áróðursmálaráðuneytisins í Þýskalandi en þar var prinsinn starfsmaður í teymi Jósefs Göbbels.

 

Vorið 1938 sótti ég um lausn frá starfi mínu í ráðuneytinu. Ætlun mín var að hverfa úr þjónustu ríkisins til að starfa úti á landi. Hugur minn stóð til þess að verða héraðsráðsmaður. Ég hefði að öllum líkindum sent þessa lausnarbeiðni fyrr, ef okkur hefði ekki, um ári áður, boðist aðrir og einstæðir möguleikar. Þá voru í Berlín nokkrir góðir borgarar og föðurlandsvinir frá Íslandi. Á Íslandi höfðu menn sett sér það markmið að stofna sjálfstætt, óháð konungsríki. Ísland var þá í konungssambandi við Danmörku.

 

Friedrich Christian prins af Schaumburg-​​Lippe.

Friedrich Christian prins af Schaumburg-​​Lippe.

Guðfaðir minn, Kristján Danakonungur, var jafnframt konungur Íslands. Nú vildu Íslendingar fá sinn eigin konung, þrátt fyrir að margir væru sósíalistar. Konungsefnið átti að vera á besta aldri, eiga son og vera af einhverri áður ríkjandi þjóðhöfðingjaætt. Í þessum efnum var úrvalið áreiðanlega mest í Þýskalandi. Um þessi áform vissi ég ekkert þar til ég var, dag nokkurn, spurður að því í ráðuneytinu hvort ég væri fáanlegur til að takast þetta á hendur.

 

Því lengur sem ég og eiginkona mín hugleiddum þetta því betur leist okkur á hugmyndina og að því kom að ég gat skýrt hinum íslensku sendimönnum frá því með góðri samvisku, að ég tæki þessu boði þeirra. Þó setti ég það skilyrði fyrir jáyrði mínu, að áformin væru samþykkt af ríkisleiðtoga Þýskalands, Adolf Hitler.

 

Stuttu síðar skrapp Schaumburg Lippe prins í sumarbústað yfirmanns síns Göbbels í nágrenni Berlínar. Eitt kvöldið sátu þeir fyrir framan arininn, lögðu viðarbúta á eldinn og dreyptu á Curacao-líkjör. Og væntanleg konungstign prinsins barst í tal.

 

Sem vænta mátti var honum hugleikið boðið, sem ég hafði fengið, og var gaman að sjá hvernig hann brást við. Auðséð var hann að gladdist eins og barn af því, að starfsmanni hans hafði verið gert slíkt boð. Hann var ekki aðeins samþykkur heldur mjög áfram um að málið næði fram að ganga. Síðan sat hann lengi og gerði að gamni sínu:

 

Schaumburg prins, eruð þér búnir að semja fyrstu hásætisræðuna? Væri það ekki miskunnarverk að segja þessu vesæla, saklausa fólki hver þér eruð í raun og veru? Þarfnist þér ekki áróðursmálaráðherra? Ég kæmi kannski til greina?

 

Göbbels mælti með erindi prinsins og sendi það áfram. Ekkert svar barst hins vegar og árið eftir hófst síðari heimsstyrjöldin sem gerði útaf við þessi áform. Prinsinn taldi að Ribbentrop utanríkisráðherra hefði verið þeim andvígur.

 

„Þarfnist þér ekki áróðursmálaráðherra?“ spurði Göbbels og hló.

„Þarfnist þér ekki áróðursmálaráðherra?“ spurði Göbbels og hló.

 

Bókin Kóng við viljum hafa! Áform um stofnun konungdæmis á Íslandi eftir Örn Helgason sálfræðing kom út árið 1992. Í henni er fjallað um þetta furðulega mál.

 

Prinsinn nafngreinir Íslendingana, sem buðu honum krúnuna, ekki en allt bendir til að þeir hafi verið Jón Leifs tónskáld og rithöfundarnir Guðmundur Kamban og Kristján Albertsson. Hér er rætt um hugmyndir Jóns um konungsríkið Ísland.

 

Schaumburg-Lippe var af þeirri kynslóð aðalsmanna sem misst höfðu völd og sérstöðu eftir lok fyrra stríðs. Hann þurfti því að feta menntaveginn og vinna sig upp eins og allir aðrir. Hann gekk snemma í nasistaflokkinn og gerðist trúaður á stefnu Hitlers og félaga. Hann þekkti Hitler persónulega og til eru myndir af þeim saman. Í lok síðara stríðs var hann handtekinn af bandamönnum og var í haldi þeirra í nokkur ár en slapp við ákæru. Hann var notaður sem vitni í málaferlunum í Nurnberg gegn háttsettum nasistum.

 

Jón Leifs bauð prinsinum konungdóm. Mynd:

Jón Leifs bauð prinsinum konungdóm. Mynd: Willem van de Poll.

 

Í bók Arnar Helgasonar kemur fram að prinsinn hafi skrifað íslenskum ráðamönnum á næstu áratugum og minnt þá á boðið góða frá 1938. Hann hefði enn áhuga á djobbinu og ef það bjóðist ekki væri hann til í að vera sæmdur einhverri virðulegri nafnbót, til dæmis Graf von Reykjavik, greifi af Reykjavík. Prinsinn fékk nánast engin svör frá Íslandi. Sumarið 1973 sigldi hann svo loks til Íslands með skemmtiferðaskipi. Örn Helgason skrifar:

 

Svo er að sjá sem hann hafi þá enn vænst nokkurs af landsmönnum. Þær vonir hans brugðust þó með öllu. Prinsinn var enginn aufúsugestur á Íslandi. Ráðamenn, sem hann leitaði til, tóku honum fálega og vildu helst ekkert af honum vita. Aðrir báru við lasleika til að forðast prinsinn. Jafnvel blöðin, sem oftast hafa verið á öndverðum meiði, tóku sig saman um að geta ekki komu hans, og hefur þó margt smærra þótt fréttnæmt á Íslandi, því fáir erlendir menn hafa sýnt landi og þjóð meiri áhuga eða átt hingað alvarlegri erindi en hinn ættstóri þýski aðalsmaður.

 

prins

Efri myndin sýnir prinsinn í viðhafnarskrúða fjögurra ára gamlan. Sú neðri er úr persónuskilríkjum hans frá fangabúðum Bandarikjamanna í Regensburg eftir styrjöldina.

 

Schaumburg-Lippe prins lést árið 1983. Erfitt er að meta hver ætlun íslensku þremenninganna var þegar þeir buðu honum hina háu tign. Og óvíst er hvaða umboð þeir töldu sig hafa, sem var eflaust harla lítið. En stríðið sem hófst skömmu eftir fundinn í áróðursmálaráðuneytinu gerði út um öll áformin.

 

Skjaldarmerki Schaumburg-Lippe fjölskyldunnar. Hefði það orðið merki Íslands?

Skjaldarmerki Schaumburg-Lippe fjölskyldunnar. Hefði það orðið merki Íslands?

 

„Var Hitler einræðisherra?“. Bók eftir Friedrich Christian prins af Schaumburg-​​Lippe.

„Var Hitler einræðisherra?“. Bók eftir Friedrich Christian prins af Schaumburg-​​Lippe.