Claus Pilgaard er orðinn að költ-hetju í Danmörku. Hann hefur starfað sem tónlistarmaður og skemmtikrafur um árabil en fyrri störf hans hafa minnst með nýtilkomnar vinsældir að gera.

 

Claus er nefnilega chili-fíkill.


 
Í byrjun ágústmánaðar 2013 prófaði hann að setja myndskeið af sjálfum sér á veraldarvefinn, þar sem hann gerði sér lítið fyrir og borðaði heilan habanero-pipar. Myndskeiðið má sjá hér:

 

Vídjó

 

Danir kunnu vel að meta fífldirfsku Pilgaards, sem hafði þá tekið sér listamannsnafnið Chili-Klaus. Hann var skyndilega orðinn að stjörnu og þá dugði lítið annað en að hamra járnið á meðan það var heitt. Hann fór að dæla frá sér atriðum af svipuðum meiði og það sem við sáum að ofan, og alltaf gekk hann lengra og lengra í chili-fíkn sinni. Hér má til dæmis sjá hann dúndra í (vafalaust) sterkasta te sem hefur nokkurn tímann verið drukkið.

 

Vídjó

 

Og hér fær hann Allan Simonsen, einn besta knattspyrnumann Dana fyrr og síðar, til að smakka chili með sér. Eins og sjá má fór chili-smakkið næstum með Simonsen í gröfina. Enda smakka þeir ýmsar útgáfur af Ghost-chili, sem skorar vel á heila milljón á Scoville-kvarðanum!

 

Vídjó

 

Á myndbandavefnum youtube er hægt að skoða fjölmörg atriði með Chili-Klaus þar sem hann ofbýður gestum sínum og sjálfum sér. Svo er auðvitað hægt að fylgjast með honum á facebook, en þar hefur hann þegar tryggt sér yfir 180 þúsund aðdáendur. Það er sterkt.