Bandaríska söngkonan Nina Simone var þegar orðin lifandi goðsögn þegar tilkynnt var að hún yrði gestur Listahátíðar í Reykjavík árið 1992. Eftirvæntingin fyrir tónleika hennar, sem fóru fram í Háskólabíói þann 4. júní, var því mikil. Það þarf vart að taka fram, að það var uppselt á tónleikana.
Nina virtist hin ánægðasta á meðan dvöl hennar stóð á Íslandi, sem var alls ekkert sjálfsagt. Hún glímdi við ýmsa djöfla á sinni lífsleið og þurfti að yfirstíga ófáar hindranir til að ná eins langt og hún gerði. Árið 1992 var eftirminnilegt fyrir hana af öðrum ástæðum, en þá kom út ævisaga Simone, I Put A Spell On You, sem varð metsölubók. Á 9. áratugnum hafði Nina átt í nokkrum fjárhagsvandræðum, en þau vandræði hurfu undir lok hans þegar lagið „My Baby Just Cares For Me“ var notað í auglýsingu fyrir Chanel, ilmvatn nr. 5, og ennfremur með útgáfu ævisögunnar.
Það gerði henni kleift að flytjast til Suður-Frakklands árið 1993, til Aix-en-Provence nánar tiltekið, þar sem hún bjó síðustu 10 ár ævi sinnar. Nina Simone lést árið 2003 úr brjóstakrabbameini, 70 ára að aldri.
Hér má sjá hvernig íslenskir miðlar fjölluðu um hina yndislegu Ninu Simone.
Hér má svo að lokum heyra Ninu flytja hið frábæra lag „I Wish I Knew How It Would Feel To Be Free,“ þótt þessi upptaka sé reyndar ekki frá Háskólabíói.