Wikipedia á íslensku hefur verið til í 10 ár. Í tilefni þess voru á dögunum birtar fjölmargar ljósmyndir frá einum frægasta mótmælafundi Íslandssögunnar. Árið 1949 samþykkti ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Ákvörðunin var mjög umdeild á sínum tíma, og fjöldi manns safnaðist saman við Austurvöll þann 30. mars í mótmælaskyni. Eins og frægt er, kom til harðvítugra átaka milli andstæðinga samningsins, lögreglu og stuðningsmanna aðildar.
Ljósmyndirnar sem við sjáum hér voru teknar 30. og 31. mars 1949. Þeim hefur verið hlaðið á vef Wikimedia Commons. Myndirnar voru teknar af óþekktum lögreglumönnum og fengnar annars vegar frá Þjóðskjalasafninu og hins vegar Lögreglunni á Suðurnesjum.
Talið er að um 8–10 þúsund manns hafi verið á Austurvelli þennan dag. Átökin voru hörð og þeim lauk ekki fyrr en lögreglan dreifði táragasi um þetta annars friðsæla torg í hjarta Reykjavíkur.
Skrif dagblaðanna í kjölfar atburðanna bera glöggt vitni um andstæðurnar í íslenskum stjórnmálum á þeim tíma. Þjóðviljinn sagði að ákvörðun Alþingis hefði verið tekin „í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu“ og kallaði þá sem samþykktu aðild að NATO Bandaríkjaleppa. Morgunblaðið sparaði heldur ekki stóru orðin og sagði að „trylltur skríll hefði ráðist á Alþingi“.