Sumar sögur þykja með svo miklum ólíkindum að þær hafa fengið goðsagnakenndan blæ. Sagan af Belle Gunness er ein þeirra.

 

Norska sveitastúlkan Brynhild Paulsdatter Størset (f. 1859) unni lífinu í sveitinni í Selbu-héraði, nærri Þrándheimi, þangað til dag nokkurn árið 1877.

 

Þennan örlagaríka dag ákvað Brynhild, þá 18 ára og ófrísk af sínu fyrsta barni, að fara á dansleik. Má gera sér í hugarlund að eftirvæntingin hafi verið mikil hjá stúlkunni ungu enda voru dansleikir sem þessir helsta skemmtunin í sveitinni.

 

ung-belle

Brynhild, ung að árum.

 

Fögnuðurinn breyttist aftur á móti í harmleik þegar annálaður óþokki úr sveitinni sparkaði í kvið Brynhild með þeim afleiðingum að hún missti fóstrið. Eins og nærri má geta varð hún aldrei söm eftir þetta.

 

Þegar Brynhild var 22 ára ákvað hún að flytja til Ameríku. Við komuna þangað breytti hún nafni sínu í Belle. „Nýtt land, nýtt nafn, ný tækifæri”, hafði hún eflaust hugsað með sér.

 

Í Ameríku kynntist Belle samlanda sínum Mads Ditlev Sörenson og féllu þau hugi saman. Voru þau gift þremur árum síðar.

 

Hjónin ungu settust að í Chicago borg og ráku þar sælgætisverslun. Reksturinn gekk illa og greip Gunness því til örþrifaráða. Það var ekki ár liðið frá því að þau opnuðu verslunina þegar brann til kaldra kola. Notuðu hjónakornin tryggingarféð til þess að reisa sér nýtt heimili annars staðar.

 

Þau Mads og Belle eignuðust fjögur börn. Tvö þeirra létust úr ristilbólgu. Bæði börnin voru líftryggð en enginn grunur lék á því að Belle væri viðriðin dauða þeirra.

 

bg4

Höfuð Ole Budsberg sem Belle eitraði fyrir.

 

Fjölskylduharmleiknum lauk ekki hér. Árið 1900 lést Mads skyndilega en læknum bar ekki saman um dánarorsökina. Læknirinn sem fyrst heimsótti heimili þeirra úrskurðaði að banameinið hefði verið striknín-eitrun á meðan heimilislæknirinn taldi hann hafa látist vegna hjartagalla.

 

Þar sem enginn sérstakur grunur lék á því að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað var ákveðið að engin krufning skyldi fara fram. Það verður að þykja sérststakt í ljósi þess að Belle fékk greidda tvöfalda líftryggingu en dauða Mads bar á þeim degi er líftryggingar hans sköruðust.

 

Fyrir peningana keypti Belle býli í La Porte í Indiana fylki og flutti þangað ásamt börnum sínum þremur og fósturdóttur. Þegar hér var komið við sögu var Belle orðin vel stæð fjárhagslega og því vænlegt kvonfang.

 

edwardbass_gunness-farm

Býlið hennar Belle Gunness.

 

Belle giftist í annað sinn árið 1902 og sá „heppni” var ekkill að nafni Peter Gunness. Hjónaband þeirra varð ekki langlíft því Gunness lést aðeins nokkrum mánuðum síðar af völdum höfuðáverka. Að sögn Belle fékk hann hakkavél í höfuðið sem dottið hafði ofan af hárri hillu.

 

Í þetta sinn virtist fátt benda til annars en að Belle væri sek um morð. Dánarstjórinn úrskurðaði að Gunness hafði verið myrtur og einnig átti fósturdóttir hennar, Jennie Olsen, að hafa sagt skólafélögum sínum að Belle hafi myrt föður hennar.

 

Einhvern veginn tókst Belle að sannfæra dánarstjórann um að hún hafði ekkert með dauða eiginmanns síns að gera. Hún var því hreinsuð af öllum ásökunum. Nokkrum mánuðum síðar tilkynnti Belle nágrönnum sínum að hún hafði sent Jennie í burtu til Kaliforníu.

 

jennie-olsen

Jennie Olsen, fósturdóttir Belle.

 

Eftir dauða Peter Gunness setti Belle auglýsingu í blöðin. Í henni var óskað eftir félagsskap vel efnaðra manna í von um þau gætu sameinað auðævi sín í gegnum hjónaband.

 

Næstum allir þeir sem þáðu boð Belle hurfu sporlaust!

 

Belle var hávaxin kona, en samkvæmt opinberum gögnum vó hún um 91 kg og var 1.83 cm á hæð. Á þeim tíma sem vonbiðlarnir sóttu hana heim pantaði hún fjöldan allan af stórum koffortum. Er haft eftir manninum sem keyrði koffortin heim til hennar að þegar hún hafi lyft þeim upp, hafi þau virst sem kassar fullir af sykurpúðum í höndum hennar.

 

Árið 1908 virtist sem að lukkudísirnar hafi loksins yfirgefið Belle. Hingað til höfðu fáir spurt um afdrif þeirra sem heimsóttu Belle en þegar Andrew Helgelein, nágranni Belle hvarf, óskaði bróðir hans eftir því að fá að leita hans á landareign Belle.

 

Til þess kom þó aldrei.

 

Þannig vildi til að nokkrum dögum áður hafði Belle rekið vinnumann sinn, Ray Lampshere, eftir að hann hafði játað ást sína á henni. Að því loknu fór hún fyrir dómara og ásakaði Lampshere um að hafa hótað henni og börnum hennar lífláti. Því næst lét Belle útbúa nýja erfðaskrá þar sem kveðið var á um að börn hennar myndu erfa allt eftir hana.

 

bg5

Lík Andrews Helgelein.

 

Þann 28. apríl 1908 vaknaði nýr vinnumaður Belle við brunalykt í herbergi sínu. Kviknað hafði í húsinu. Fyrstu viðbrögð vinnumannsins var að kalla nöfn Belle og dætra hennar en þegar honum var ekki ansað ákvað hann að yfirgefa húsið.

 

Eftir að búið var að ráða niðurlögum eldsins fundust í rústunum fjögur lík. Þrjú þeirra voru af börnum Belle en fjórða líkið var af höfuðlausri konu. Við frekari rannsókn kom síðar í ljós að líkið tilheyrði ekki Belle.

 

belle-gunness-22

Kjallari býlisins eftir brunann.

 

Ljóst var af öllum ummerkjum að um íkveikju var að ræða.

 

Aftur á móti undirbjó ekkert rannsakendur fyrir það sem þeir uppgötvuðu næst.

 

Í svínastíunni á jörðinni fundust nefnilega niðurgrafin lík 40 karlmanna og tveggja kvenna auk fósturdóttur Belle. Flest þessara líka tilheyrðu vonbiðlum Belle.

 

Í dag eru flestir þeirrar skoðunar að Belle hafi sviðsett dauða sinn. Niðustaða réttarhaldanna varð aftur á móti sú að Ray Lampshere var fundin sekur um að hafa valdið íkveikjunni. Hafði þar mest um að segja vitnisburður unglingspilts sem sagðist hafa séð hann hlaupa frá vettvangi glæpsins.

 

edwardbass_bellethefilm_crimescene

Grafið eftir líkum í svínastíunni.

 

Lampshere játaði síðar, á dánarbeði sínu, að hafa aðstoðað Belle að brytja niður lík fórnarlamba hennar og grafið þau niður í svínastíunni.

 

Lík Belle Gunness fannst aldrei.

 

download-1

Ray Lampshere, vinnumaðurinn sem aðstoðaði Belle við að brytja niður lík.

 

Eins og við mátti búast spruttu upp ýmsar sögusagnir um afdrif Belle Gunness. Ein sú langlífasta þeirra var á þá leið að Belle hafi keypt sér hús í Mississippi og lifað þar sem eftir var ævi sinnar á þeim auðæfum sem vonbiðlar hennar létu henni í té. Staðreyndin er aftur á móti sú að enginn veit hvað varð um morðóðu ekkjuna.