Flestir rokkunnendur hafa eflaust einhvern tíman heyrt sögur af rokkhljómsveit sem var svo illa haldin af stjörnustælum að hún gerði kröfu um að baksviðs yrði boðið upp á sælgætistegundina M&M þar sem búið væri að flokka öll brún M&M frá og henda þeim. Sumir gætu haldið að þetta væri bara flökkusaga, en í raun er þetta ekkert svo galin krafa miðað við margar af þeim kröfum sem hljómsveitir og listamenn hafa sett fram í gegnum tíðina.
Þannig hefur Prince stundum gert þá kröfu að allt leirtau sé pakkað inní sellófan þangað til að hann mætir á svæðið, Madonna hefur beðið um að allar klósettsetur baksviðs séu nýjar og sagan segir að Marilyn Manson verði alltaf að hafa tvo hluti baksviðs. Haribo hlaupbangsa og sköllótta og tannlausa gleðikonu. En hvaðan kemur sagan af M&M-inu? Í bestu kvikmynd allra tíma, Wayne’s World 2, segir hinn geðþekki og dagfarsprúði rótari, Del Preston, söguna þannig að Ozzy Osbourne hafi sett þessa kröfu fram.
Sannleikurinn er þó sá að Ozzy, þrátt fyrir vera uppspretta ýmissa stórkostlegra ævintýra, á ekkert í þessari sögu. Heiðurinn að henni eiga rokkararnir í Van Halen. Krafan um ekkert brúnt M&M var sett inní hnausþykkan tónleikasamning þeirra, en ekki bara til þess að vera með stæla, heldur til þess að tryggja að hann yrði lesinn með fullri athygli.
Hún kom þarna eins og skrattinn úr sauðaleggnum, innan um mikilvæg atriði um til dæmis burðarþol sviðsins og rafmagnstengingar. Þegar hljómsveitin mætti á svæðið byrjuðu þeir alltaf á að athuga M&M skálina. Ef í henni leyndist brúnt M&M vissu þeir að samningurinn hafði verið lesinn með hangandi hendi og tóku til óskiptra málanna við að yfirfara öll öryggisatriði.
Nánast undantekningalaust komust þeir að því að ekki hafði verið gengið nógu vel frá uppsetningu sviðsins og fundu jafnvel hluti sem hefðu getað orðið þeim að fjörtjóni. Sviðið hefði að öllum líkindum hrunið, þeir hefðu getað fengið raflost og þar fram eftir götunum. Sem sagt, engin brúnlituð M&M voru í raun snilldarleg aðferð til að tryggja öryggi hljómsveitarmeðlima. Svo er aldrei að vita nema Eddie Van Halen eða David Lee Roth hafi í raun og veru líka hatað brúnt M&M.
Góð saga á aldrei að þurfa að gjalda fyrir sannleikann, og David Lee Roth sjálfum fannst þessi saga ansi góð og hér útskýrir hann með sínum eigin orðum hvernig þetta kom allt saman til: