Ítalskt kort frá sextándu öld sýnir stærðar eyju skammt fyrir sunnan Ísland, sem merkt var Frísland. Það var upphafið að löngum misskilningi kortagerðarmanna víða um Evrópu. Nær öll landakort frá 1560-1660 sýna eyjuna, sem var auðvitað ekki til.

 

Ítalinn Nicolo Zeno sagðist hafa fundið landakort í Feneyjum og gaf það út undir eigin nafni árið 1558 (sjá að ofan). Zeno sagði frá forfeðrum sínu, Zeno bræðrum, er siglt hefðu um norðurhöf hundrað árum áður og gengið á land á ýmsum eyjum er hétu Frísland, Íkaría, Estótíland og Drogio. Gekk Zeno svo langt að fullyrða að feneyskir frændur sínir hefðu uppgötvað Ameríku á undan Genóamanninum Kristófer Kólumbusi.

 

Kort Zenos var á næstu árum fyrirmynd nokkurra virtra feneyskra kortagerðarmanna. Í kjölfarið teiknaði Gerard Mercator frá Duisborg Frísland inn á heimskortið sitt. Árið 1573 voru löndin ímynduðu komin inn á kort flæmska kortagerðarmannsins Abrahams Ortelíusar af Norður-Atlantshafinu.

 

Ortelius_Abraham_Septentrionalivm_regionvm_descrip

Hér sjáum við hluta af korti Ortelíusar. Fyrir sunnan Ísland er stór eyja, Frísland. Skoðið þetta magnaða kort í heild sinni hér.

 

Ortelíus var einn áhrifamesti kortagerðarmaður Evrópu á sextándu öld en hann er skráður í sögubækurnar fyrir að draga upp fyrsta heimskort sögunnar. Þá varð ekki aftur snúið og misskilningurinn um Frísland kom fram á næstum öllum kortum Evrópumanna næstu öldina. Frísland sést jafnvel enn á kortum á átjándu öld.

 

Iceland – Freezeland?

Eyjan ber ólíkar myndir heitisins Frísland eftir tungumálum, stað og tíma og má þar nefna Frischlant, Friesland, Freezeland, Frislandia og Fixland. Talið er að menn hafi gjarnan ruglað Íslandi saman við Frísland og þaðan sé enska myndin Freezeland komin.

 

Kortin sem sýndu Fríslandin leiddu til víðtæks misskilnings á legu Grænlands og annarra norðlægra eyja í Norður-Ameríku. Þannig hélt enski landkönnuðurinn Martin Frobischer að hann væri kominn til Fríslands þegar hann steig á land í Grænlandi árið 1576. Frobischer lýsti Frísland breska eign og endurnefndi eyjuna til heiðurs Elísabetu fyrstu Englandsdrottningar.

 

mercator

Kort Gerards Mercator sýnir útlínur Íslands á nokkuð vísindalegan hátt. En landið sunnan þess er skáldskapur og vitleysa. Skoðið þetta flotta kort hér í fullri stærð. Athugið miðju norðurpólsins sem Mercator taldi vera einhvers konar niðurfall hafsins.

 

Þrátt fyrir að Færeyjar væru sýndar á sömu kortum er sýndu Frísland urðu menn síðar sammála um að Frísland hlyti að vísa til Færeyja. Enda höfðu menn einnig ruglast á Fríslandi og Færeyjum, rétt eins og Íslandi og Grænlandi.

 

En hvernig varð þessi stóri misskilningur til? Var það Zeno-bræðrum að kenna, afkomendum þeirra, kortagerðarmönnunum sem hermdu eftir, könnuðum síðar meir? Flestum á sinn hátt?

 

Endum þetta spjall á visku Jedi-meistarans Obi Wan Kenobi. Hvor er meira fífl? Fíflið eða hitt fíflið sem eltir það?

 

Vídjó