Staffa er eyja við vesturströnd Skotlands og tilheyrir Hebrides-eyjaklasanum, sem á íslensku ganga undir nafninu Suðureyjar. Eyjunni hefur verið lýst sem „einum frægasta lítið heimsótta stað heims“.

 

Víkingar höfðu mikil umsvif á þessum eyjum á víkingaöld og þær bera margar norræn nöfn. Nafn Staffa er norrænt og mun vera komið af orðinu Stafey. Nafnið vísar til mikilla stuðlabergsmyndanna á eyjunni. Hellirinn Fingal’s Cave er frægasta kennileiti eyjarinnar. Hann hlaut á nítjándu gífurlega frægð fyrir undravert stuðlaberg. Felix Mendelssohn samdi tónverk um hellinn og Turner málaði hann.

 

Staffa_from_the_air

Loftmynd af Staffa.

 

Staffa er gömul eldfjallaeyja og stuðlabergið myndaðist við kólnun storkubergs eftir eldgos fyrir um 55 milljónum ára.

 

Enginn hefur búið á eyjunni síðan á 18. öld þegar ein fjölskylda hafðist þar við um skamman tíma. Enda er eyjan lítil  og veðurskilyrði óhagstæð.

 

Scotland-Staffa-Fingals-Cave-1900

Mynd af Fingalshelli frá um 1900.

 

En eyjan er, líkt og áður segir, frægust fyrir hinn magnaða Fingalshelli, sem er gríðarstór og alsettur stuðlabergi. Hin frábæra teikning efst í greininni er eftir enska listamanninn John Cleveley sem kom við á eyjunni þegar hann ferðaðist til Íslands með Joseph Banks sem var heimsfrægur landkönnuður og einn þekktasti Íslandsvinurinn um aldamótin 1800.

 

Hellirinn hlaut gífurlega frægð á meðal menntamanna í Evrópu á nítjándu öld. Ensku stórskáldin William Wordsworth, John Keats og Alfred Tennyson ferðuðust allir til Staffa í leit að innblástri. Málarinn J. M. W. Turner gerði það líka og málaði verkið „Staffa, Fingal’s Cave“ árið 1832. Sjálf Viktoría Bretadrottning kom einnig til eyjarinnar. Verk Turners sýnir hellinn úr suðurátt í stormasömu veðri þar sem gufuskip siglir hjá.

 

„Staffa, Fingal's Cave“ eftir Turner.

„Staffa, Fingal’s Cave“ eftir Turner.

 

Þýska tónskáldið Felix Mendelssohn var á Staffa árið 1829 og samdi í kjölfarið tónverkið Hebrides sem einnig er þekkt undir nafninu Fingalshellir. Enda mun verkið fjalla fyrst og fremst um hann:

 

Vídjó

 

Misskilningur Jules Verne um Ísland
Lemúrinn hefur fjallað um teikningar við bókina Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir Jules Verne. Teiknarinn Édouard Riou hafði ekki til Íslands komið frekar en rithöfundurinn Verne þegar þessa þekkta bók kom út. Því skolaðist margt til í Íslandslýsingum þeirra þó margt væri vel gert, enda notuðust báðir við víðfrægar og virtar ferðabækur um Ísland.

 

Ein mistökin sem þeir félagar gerðu var að taka lýsingu ferðamanns á stuðlabergi á skosku eyjunni Staffa of hátíðlega.  Lýsing birtist af Fingalshelli á Staffa með eftirfarandi texta í bókinni Bref rörande en resa til Island, 1777 eftir Uno von Troil, sem var einnig samferðamaður áðurnefnds Joseph Banks:

 

Hve stórkostlegar eru ekki þær lýsingar, sem við eigum af súlnagöngum fornaldar, og hve undrandi verðum við ekki að virða fyrir okkur súlur þær sem prýða tígulegustu byggingar veraldar? En hver sá, sem þær hefur séð og síðan lítur snilli náttúrunnar, súlurnar á Staffa, hlýtur að viðurkenna, að þær bera jafn mikið af súlunum í Louvre, Sankti Péturskirkjunni í Rómaborg og öllu því, sem aldirnar hafa leift af súlnagöngunum í Palmyra og Paestum, eins og allt annað, sem þessi móðir listanna hefur gert, og skarar fram úr öllu sem snilli auðæfi og smekkvísi Grikkja megnaði að skapa. (Haraldur Sigurðsson þýddi)

 

Verne og Riou misskildu þessa lýsingu og héldu að stuðlaberg væri raunverulega eins og grískar súlur. Þessi teikning Riou sýnir það glögglega:

 

Stapi á Snæfellsnesi í bók Jules Verne.

Stapi á Snæfellsnesi í bók Jules Verne.