Þessi furðu­lega mynd af Reykjavík birt­ist í bók­inni Half Hours in the Far North árið 1875, alþýð­legu yfir­lits­riti um nyrstu svæði jarðar. Smellið á mynd­ina til að sjá stærri útgáfu.

 

Reykjavík var ef til vill ekki nota­leg­asti bær Evrópu á þessum árum en er þetta ekki yfir­drifið? Umhverfið á þessum guð­s­volaða stað lík­ist Mordor í Hringadóttinssögu eða ein­hverju öðru hel­víti. Og auð­vitað er ljóst að lista­mað­ur­inn hefur aldrei til Íslands né Reykjavíkur komið.

 

Raunar var svo að myndskreyt­ingar af þessu tagi, sem sýndu Ísland eins og hálf­gert hroll­vekju­land, hættu­legan, dimman og bölv­aðan stað, voru mjög útbreiddar á nítj­ándu öld.

 

Sumarliði R. Ísleifs­son fjall­aði um þess mál í grein­inni…við hlið hennar blikn­uðu hinar dásam­leg­ustu hallir Babýlónar og Forn-​​Grikkja“, sem birt­ist í tíma­rit­inu Ný saga árið 1995. Í grein­inni rann­sak­aði Sumarliði myndskreyt­ingar franska lista­manns­ins Édou­ard Riou í víð­frægri skáld­sögu landa síns Jules Verne.

 

Leyndardómar Snæfellsjökuls (Voyage au centre de la Terre) kom út árið 1864 og fjall­aði, eins og frægt er, um mikla svað­il­för til Íslands. Sumarliði skoð­aði tengsl skrifa Verne og teikn­inga Riou í sam­hengi við ferða­bækur um Ísland, sem urðu til­tölu­lega vin­sæl rit á nítj­ándu öld eftir að evr­ópsku ferða­fólki fór að fjölga á Íslandi. Báðir virð­ast steypa ýmsum lýs­ingum á land­inu saman svo úr verður bjöguð mynd og ýkt. Enda heim­sótti hvor­ugur Ísland um ævina.

 

Það er fróð­legt að skoða þessa mynd­rænu sýn Evrópumanna á Íslandi á nítj­ándu öld. Það var lík­lega erfitt að ímynda sér jafn fram­andi stað og Ísland var á þessum tíma án þess að hafa komið þangað né séð ljós­myndir þaðan.

 

 

Sumarliði lýsir þess­ari glæsi­legu mynd svona:

 

Mikilfenglegt fannst Harry og Hardwigg pró­fessor um að lit­ast við Stapa á Snæfellsnesi þar sem réðu ríkjum „blágrýtis­veggir, und­ar­legir að lögun.“ Þar mátti víða sjá „dásam­lega nátt­úru­feg­urð“ og var ekki hæg­ara að bera þetta saman við annað en snilld­ar­verk húsa­meist­ara forn­ald­ar­innar, enda „var hér svo tröllaukna húsa­smíði að sjá, að við hlið hennar blikn­uðu hinar dásam­leg­ustu hallir Babýlonar og Forn-​​Grikkja.“ Kvað höf­undur kletta­vegg­inn við fjörð­inn vera gerðan úr lóð­réttum basaltsúlum, um 30 feta háum, og báru þær uppi láréttar súlur sem mynd­uðu eins konar þak. Sumar súl­urnar voru þó fallnar og líkt­ust engu fremur en rústum fornra mustera.“ Myndin [eftir Rouen] á að sýna umhverfi Stapa á Snæfellsnesi og er mjög í sam­ræmi við skrif­lega lýs­ingu höf­undar sem hefur verið rakin hér að framan.

 

Síðan rekur Sumarliði hvers vegna lík­legt er að þessar lýs­ingar eigi upp­runa sinn í ferða­lýs­ingum á stuðla­bergi á skosku eyj­unni Staffa.

 


Sumarliði heldur áfram:

[Á þess­ari mynd] er sýnt lítið þorp við vatn. Húskofi er til hægri og nokkrir karlar eru á vappi við girð­ingu sem liggur niður að litlu vatni. Fjær er húsa­þyrp­ing og virð­ist kirkja vera fyrir miðju. Á mynd­inni má þekkja ýmis kenni­leiti. Lengst til hægri er hús Lærða skól­ans í Reykjavík en dóm­kirkjan fyrir miðju myndar og þar í milli núver­andi stjórn­ar­ráðs­hús, „lít­ill kofi í sam­an­burði við ráð­húsið í Hamborg en virt­ist sem höll í sam­an­burði við önnur íslenzk hús.“

 

Dæmigert íslenskt hús er vænt­an­lega að sjá fremst til hægri á mynd­inni. Þessi yfir­lits­mynd er gerð eftir ákveð­inni fyr­ir­mynd þó að teikn­ar­inn hafi ekki fylgt henni nákvæmlega.

 

Hefur hann haft til hlið­sjónar mynd af Reykjavík sem birt­ist í bók Charles Edmonds, Voyage dans les mers du Nord (París, 1857) þar sem skýrt var frá för Napóleons prins til Íslands. Eru mynd­irnar svo líkar að vart fer milli mála.

 

Af orðum höf­undar má ráða að hann hafði ekki háar hug­myndir um húsa­kynni íslensks almenn­ings, enda væru íslensk hús þannig að allt virt­ist vanta annað en þökin og inn­an­húss væri oft­ast óbæri­legur daunn „af þurrk­uðum fiski, súrsuðu kjöti og súrri mjólk“, auk reykjar­svælu frá eld­stó sem var kynt með fiski­beinum og mykju. Sökum yls­ins spratt þó gott gras á þök­unum og var það „slegið og notað til fóð­urs“, enda óvíða ann­ars staðar nokkur „gróður, engin tré og á allar hliðar hraunið.“

 

Lemúrinn hvetur les­endur til að lesa grein Sumarliða um þessar myndir til enda. En um þessa myndskreyt­ingu Riou skrifar hann:

[Á mynd­inni], „Gata í Reykjavík“, sjáum við nán­ari útlistun á húsa­kosti almenn­ings. Kofinn er vissu­lega lág­reistur og grósku­legt er á þakinu.

 

Þar til hægri standa staurar upp í loftið og eins konar snúrur á milli þeirra. Þetta eiga vafa­laust að vera skreið­ar­hjallar. Ekki er gott að átta sig á hvað konur í for­grunni hafa fyrir stafni; þá athuga­semd gerði sögu­maður um íslenskar konur að þær væru yfir­leitt „fremur fríðar sýnum, en bera alvöru­gef­inn sorgarsvip…“

 

Umhverfið er heldur ekki sér­lega upp­lífg­andi! Karlarnir fjær eru lík­lega eitt– hvað að bar­dúsa við fisk, enda var það þeirra höf­uð­starfi að sögn höf­undar. Hélt hann því fram að þeir væru yfir­leitt „hraustir og þunglama­legir, bjart­hærðir eins og Þjóð­verjar, en íhug­ulir útlits … Stundum hlógu þeir tryll­ings­lega en aldrei brostu þeir.“

 

Fleiri myndir Riou í bók Jules Verne:

 

 

 

 

Að end­ingu skulum við skoða fleiri Íslands­myndir úr bók­inni Half Hours in the Far North, sem nefnd var í upp­hafi greinar: