Sagan er rituð af sigurvegurunum. Eða svo segja menn.

 

Rússneski rithöfundurinn Kirill Eskov hefur túlkað Hringadróttinssögu Tolkiens sem einhliða frásögn sigurvegara. Árið 1999 gaf hann út Síðasta hringberann (rúss. Последний кольценосеu), skáldsögu sem greinir frá sömu atburðarás og Hringadróttinssaga, nema frá sjónarhorni íbúa Mordor.


 

Kápan á ,,Síðasta hringberanum“ eftir Kirill Eskov.

Í skáldsögu Eskovs er Mordor lýst sem friðsömu og framsæknu landi að stíga fyrstu skrefin í átt til iðnbyltingar. Þessi þróun ógnar herskáum heimsveldisáformum Gandálfs og álfanna. Samkvæmt Sarúman vinna þeir dag og nótt að „endanlegri lausn“ á Mordor-vandanum. Upplýsing og framsækni Mordor tekst á við íhaldssemi álfanna og fornar hefðir lénsskipulagsins.

 

Nasgúlarnir eru mordorskir vísindamenn og heimspekingar sem skiptast á að leiða Mordor í gegnum iðnvæðingarferlið. Hringinn smíðuðu þeir til þess að afvegaleiða Gandálf á meðan landið byggir upp her sér til varnar. Aragorn er leiksoppur álfanna, fyrirlitinn af þrjú þúsund ára gömlu eiginkonu sinni Arwen, sem notar hann miskunnarlaust til þess að auka áhrif sín í Gondor.

 

Eftir að hafa sigrað her Mordor-búa á vígvellinum ráðast álfarnir og bandamenn þeirra inn í landið, slátra þar óbreyttum borgurum, og þurrka út upplýstu menntastéttina. Hina sigruðu kalla álfarnir „orka“, en það er niðrandi orð þeirra um menn af erlendu bergi brotnu. Í framhaldinu segir skáldsagan síðan frá baráttu „orkanna“ gegn kúgunarvaldi álfa.

 

Þessi skáldsaga Eskovs vakti nýlega athygli þegar hún var þýdd yfir á ensku með leyfi höfundar og gefin út á netinu sem ókeypis rafbók. Hana má nálgast hér.