Í litlu, kirfilega læstu herbergi í iðrum Konunglega bókasafnsins í Stokkhólmi er geymd gömul bók sveipuð í hvítt klæði. Þessi gamla bók er ekki bara merkilegust af þeim tugmilljónum bóka á safninu heldur líka með þeim stærri. Codex gigas þýðir einfaldlega risabókin, nafn með rentu því þetta langstærsta miðaldahandrit Evrópu er risastórt: 92 sentimetra langt, 50 sentimetra vítt, 22 sentimetra þykkt og vegur um 75 kíló.
Handritið er einnig þekkt undir nafninu Djöflabiblían. Það vísar til frægustu myndskreytingarinnar í handritinu, teikningu af kölska sjálfum, hyrntum með klærnar úti, sem þekur heila síðu. Svo stórar og áberandi djöflamyndir eru næsta óþekktar í öðrum miðaldahandritum.
En djöflanafnið vísar einnig til þjóðsögu sem fylgir bókinni — sagan segir munkur nokkur hafi selt djöflinum sálu sína til þess að geta skrifað hana á einni nóttu. Handritið er vissulega eftir aðeins einn skrifara, en án aðkomu djöfulsins hefur verkið líklega tekið að minnsta kosti fimm ára þrotlausa vinnu. Þrátt fyrir stærðina er hún skrifuð með örsmáu letri og ríkulega myndskreytt.
Bókin er 310 síður úr asna- eða kálfskinni. Í henni er ekki einungis öll Biblían heldur einnig ýmis annar fróðleikur; alfræðiorðabók Ísidórs frá Sevilla, saga Gyðinganna eftir Jósefos Flavíos, læknisfræðirit Hippókratesar, saga Tékklands, dagatal kristinna hátíðisdaga og loks töfra- og særingaþulur.
Djöflabiblían er talin hafa verið skrifuð í munkaklaustri einhverstaðar í Bóhemíu í byrjun þrettándu aldar. Fyrstu aldir ævi sinnar ferðaðist bókin milli bóhemskra klaustra, þar til árið 1594 eignaðist Rúdólf II keisari þýska ríkisins handritið og geymdi það í höllu sinni í Prag. Þaðan tóku Svíar það sem herfang í lok þrjátíu ára stríðsins árið 1648, og síðan hefur handritið næsta óslitið verið geymt í Konunglega bókasafninu í Stokkhómi.
Skuggalegar þjóðsögur loða enn við Djöflabiblíuna — meðal annars að sænskur bókavörður hafi misst vitið eftir að hafa lokast inni yfir nótt í sama herbergi og bókin.
Á vefsíðu Konunglega bókasafnsins má fletta rafrænt í bókinni og lesa meira um sögu hennar. Hér að neðan fylgja nokkur dæmi um myndskreytingar í bókinni: