Á meðan geimkúrekinn James Tiberius Kirk þaut hraðar en ljósið um Alphafjórðunginn, barðist við Klingona og geimskrímsli, leitaði að heila Spock og tældi þokkadísir frá öðrum plánetum var þýskur geimkúreki iðinn við svipaða hluti. Lemúrinn kynnir: Geimskipið Óríon.

 

„Það sem hljómar eins og ævintýri í dag gæti orðið veruleiki morgundagsins. Þetta eru ævintýri dagsins handan morgundagsins. Það eru ekki lengur til þjóðríki, aðeins mannkyn og nýlendur þess í geimnum.

 

Við höfum komið okkur fyrir á fjarlægum stjörnum og höfum numið sjávarbotninn. Á hraða, sem er óhugsandi í dag, ferðast geimskip morgundagsins um Vetrarbrautina.

 

Eitt þessara geimskipa er Óríon, lítill hluti af gríðarstóru öryggiskerfi sem verndar Jörðina frá ógnum utan úr geimnum. Sláumst í för með Óríon og áhöfn þess í eftirlitsför á jaðri eilífðarinnar.“

 

Vídjó

 

Svona hljómar inngangurinn að þýsku sjónvarpsþáttunum Geimgæslan: Hin mikilfenglegu ævintýri geimskipsins Óríon eða Raumpatrouille – Die Phantastischen Abenteuer des Raumschiffes Orion eins og þeir heita á sínu ylhýra frummáli eða einfaldlega Geimskipið Óríon.

 

Kynningin á sögusviðinu í innganginum hljómar líkt og léleg þýðing á inngangi upprunalegu Star Trek-þáttanna eða í versta falli eins og staðbundin uppfærsla á Star Trek fyrir þýskt sjónvarp.

 

Það verður þó að teljast ólíklegt að nokkur tengsl séu þar á milli þar sem Geimskipið Óríón var frumsýnt í þýsku  sjónvarpi þann 17. september 1966 en Star Trek hóf göngu sína í bandarísku sjónvarpi þann 8. sama mánaðar og barst ekki til Þýskalands fyrr en árið 1972.

 

Cliff Allister McLane majór í geimgæslunni.

 

Undir stjórn Cliff Allister McLane (Dietmar Schönherr) majórs berst áhöfn Óríons fyrir friði í geimnum. Undirmenn McLanes eru meðal annarra flagarinn Mario de Monti, tölvu- og vopnasérfræðingur, Atan Shubashi leiðsögumaður og eigandi eins af 367  púðluhundum sem eftir eru í heiminum, Hasso Sigbjörnson vélstjóri, Helga Legrelle fjarskiptastjóri og Tamara Jagellovsk, fulltrúi leyniþjónustunnar um borð.

 

Líkt og Star Trek gefa nöfn áhafnarinnar endalok þjóðríkisins á Jörðinni til kynna. En ólíkt kúrekanum Kirk var kúrekinn McLane nokkuð þýskur, tal Scotty og Chekov áttu að gefa uppruna þeirra til kynna, Uhura var vissulega blökkukona og Sulu átti greinilega ættir sínar að rekja til Asíu.

 

Ætli höfundar Óríons hafi viljað meina að þýskan hafi einfaldlega orðið ofan á og kynþættir hefðu einfaldlega runnið saman í einn? Eða er sænskuskotin þýska einfaldlega ekki jafn sjónvarpsvæn og enska með austur-evrópskum eða skoskum hreim?

Friedrich G. Beckhaus sem Atan Shubashi.

 

Friedrich G. Beckhaus sem lék Atan Shubashi ætti að vera íslenskum sjónvarpsáhorfendum vel kunnur því hann birtist í fjórum Derrick þáttum á árunum 1974-1986 – í hvert skipti sem ný persóna.

 

Samkvæmt IMDb.com komu 25 manns bæði að Derrick og Óríon.

 

Vegna mikils kostnaðar voru aðeins framleiddir sjö þættir af Geimskipinu Óríon en með reglulegum endursýningum hafa þættirnir öðlast tryggan hóp aðdáenda.

 

Árið 2003 var gefin út kvikmynd sem var bókstaflega byggð á þáttunum. Kvikmyndagerðarmaður tók sig til og klippti brot af því besta úrþáttunum, bætti við nýjum skotum og lét það mynda eina heildstæða frásögn, aðdáendum þáttanna til mikils ama.

 

Vídjó

Þjóðríki heyra sögunni til. Hæfasta tungumálið til að lifa til framtíðar verður þýska og svona verður dansað jafnt sem í geimnum sem og á hafsbotni.

 

Gangi spádómar höfunda Óríons eftir verða aðeins 367 púðluhundar eftir í heiminum í framtíðinni.