Matreiðslumenn vestanhafs halda vart vatni vegna nýjustu tískuafurðarinnar í bransanum, Meyer-sítrónunni. Þetta sérstaka eintak sitrus-ávaxta kemur upprunalega frá Kína, en bragð Meyer-sítrónunnar er talið vera einhvers staðar á milli venjulegrar sítrónu annars vegar og appelsínu eða mandarínu hins vegar. Í Kína er vinsælt að geyma Meyer-sítrónutré í heimahúsum, þar sem þau eru jafnan höfð til skrauts – en síður til að neyta ávaxtanna sjálfra.
Það kann að skjóta skökku við að kínverskur ávöxtur skuli hafa svo vestrænt nafn. Meyer-sítrónan var nefnd í höfuð Franks Nicholas Meyer, en það var hann sem flutti græðlinga af trénu til Bandaríkjanna í byrjun 20. aldar. Meyer þessi átti reyndar magnaða ævi. Hann fæddist í Amsterdam í Hollandi árið 1875 og fluttist ekki til Bandaríkjanna fyrr en árið 1901. Nokkrum árum síðar fékk hann starf hjá landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna, og starfaði þá sem landkönnuður með sérstaka áherslu á plöntulíf og vistfræði, svona nokkurs konar Indiana Jones þeirra garðyrkjumanna. Á meðan ævin entist náði hann að fjölga nytjaplöntum í Bandaríkjunum um 2500 plöntur, flestar þeirra ættaðar frá Asíu. Hann lést aðeins 43 ára að aldri, en ekki er vitað nákvæmlega hvernig andlát hans bar að. Eina sem er vitað er að hann var að sigla niður Jangtse-fljótið þann 28. maí árið 1918 – mögulega að undirbúa heimför til Bandaríkjanna – en svo virðist sem fljótið hafi skyndilega gleypt hann.
Ávöxturinn nýtur mikilla vinsælda nú um stundir, og spurning hvort hann verði næsta sprengja í matreiðsluheiminum. Reyndar munaði litlu að plöntusjúkdómur hefði gert út af við Meyer-sítrónuna í Bandaríkjunum á 6. áratug síðustu aldar, en sem betur fer tókst að einangra ósýkt tré og bjarga þar með stofninum. Meyer-sítrónurnar eru sérstaklega vinsælar í Kaliforníu og hafa verið áberandi í nýjustu matreiðslubókum hinnar ódrepandi Mörthu Stewart.