Árið 1995 framkvæmdi NASA, geimvísindastofnun Bandaríkjanna, nokkrar vísindatilraunir á eitrunaráhrifum ýmissa efna á köngulær. Litlu magni af viðkomandi efni var sprautað inn í dauða flugu og köngulóin fékk síðan að snæða á henni.
Að því loknu var köngulóin sett í afmarkað rými, þar sem hún spann vef, og síðan var reynt að ráða fram úr áhrifum efnisins á út frá eiginleikum vefsins.
Samkvæmt rannsóknargreininni frá 1995 var það markmið þessarar furðulegu rannsóknar að athuga hvort eiturlyfjaprufur á köngulær gætu að einhverju leyti komið í stað tilrauna á stærri dýrum. Ekki er vitað til þess að tilraunirnar hafi reynst á nokkurn hátt gagnlegar eða leitt af sér frekari uppgötvanir.
Heimild: Noever, R., J. Cronise, og R. A. Relwani. 1995. Using spider-web patterns to determine toxicity [Kóngulóarvefir notaðir til þess að ákvarða eituráhrif]. NASA Tech Briefs 19(4):82. Birtist í New Scientist, 27. apríl 1995.