Lemúrinn óskar lesendum sínum gleðilegs ár og þakkar fyrir góðar viðtökur á liðnu ári. Eigum við ekki að skoða nokkrar skemmtilegar myndir sem birst hafa á Lemúrnum árið 2012? Hér eru eftirminnilegustu tvífaramyndir ársins. Efst sjáum við Rússakeisarann Ívan grimma á málverki Ilja Repíns og tvífara hans, ónefndan lemúr.
Forsetakosningar á Íslandi síðasta sumar voru fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum. Og hér eru frambjóðendur í kosningunum sem líkjast köttum.
Landsdómsmálið var annað stórt fréttamál á árinu. Atli Freyr Steinþórsson sendi Lemúrnum þessa mynd. Friðrik III Danakonungur og afkomandi hans, Markús Sigurbjörnsson, forseti Landsdóms.
Jakob Guðmundsson prestur sat á Alþingi á nítjándu öld. Því miður var engin Hollywood-mynd gerð um ævi hans á meðan stórleikarinn James Coburn var á lífi.
Jón Pétursson, alþingismaður og ritstjóri (1812-1896), og Karl Marx (1818-1883) voru tvífarar.
Theodor Herzl, faðir síonismans, og Xerxes I Persakonungur.
Var Helgi Thordersen (1794-1867), biskup yfir Íslandi og alþingismaður, forfaðir tónlistarmannsins Neil Young (1945-)? Young er frá Winnipeg í Kanada, „Íslendingaslóðum“. „Neil Young en islænding. Nej hold nu op,“ skrifaði danskur lesandi.
Írski leikarinn Cillian Murphy gæti leikið Grím Thomsen, skáld og alþingismann, í æsispennandi Hollywood-trylli um menn og málefni Íslands á nítjándu öld.
Guttormur og skröltormur. Guttormur Vigfússon alþingismaður og naglinn Danny Trejo eru nauðalíkir. Ætli það renni eitthvað íslenskt blóð í æðum mexíkóans grjótharða?
Kettir sem líta út eins og egypskir konungar. Efst er Múhameð Alí Pasja, khedífi Egyptalands 1805-1848, og neðst barnabarnabarnabarn hans Farúk I, konungur 1936-1952.
Síðast en ekki síst: Tvífari ársins
Hér sjáum við bresku kvenréttindakonuna Evelyn Manesta. Lögreglan í Bretlandi tók myndir úr launsátri af hinum „stórhættulegu“ súfragettum fyrir um 100 árum síðan. Þessi kona vildi ekki láta mynda sig og því hélt lögreglumaður henni fastri á meðan ljósmyndin var tekin. Síðan var átt við myndina og fantabrögð lögreglumannsins þurrkuð út.