Hér sést söngatriðið „Ich wollt ich wär ein Huhn“ úr kvikmyndinni Glückskinder (ísl. Lukkubörn) frá árinu 1936. Myndin var gerð þremur árum eftir að stjórn nasista komst til valda í Þýskalandi. Lemúrinn hefur áður skrifað um af hverju Þjóðverjar voru kallaðir Húnar, og ef til vill kynnu einhverjar lesendur halda að hér væri eitthvað svipað á ferðinni. En nei, Huhn á þýsku er „kjúklingur“, og heitir lagið því ,,Ég vildi að ég væri kjúklingur“.
Söngmyndinni Glückskinder var leikstýrt af Paul nokkrum Martin, sem hafði verið sérlega sendur af nasistum til Bandaríkjanna til þess að læra fræðin á bak við galdra Hollywoods. Hann kom aftur með handrit að þýskri endurgerð af myndinni „It Happened One Night“ með Clark Gable og Claudette Colbert, sem var svo snarlega sett í framleiðslu af áróðursmálaráðuneyti Göbbels. Söngvarinn er þýska stórstjarnan Willy Fritsch, átrúnaðargoð þýskra unglinga, sem flytur hér texta ásamt Lilian Harvey, Paul Kemp og Oskar Sima. Hann syngur m.a. um að vilja vera kjúklingur og að vera Clark Gable. Lagið var samið af Peter Kreuder.