Hér sjást starfsmenn Ford bílafyrirtækisins í samstöðugöngu árið 1917, skömmu eftir að Bandaríkin drógust inn í fyrri heimsstyrjöldina. Á skiltinu fyrir miðju stendur „Helvíti er of gott fyrir Húnann“. Hvað er eiginlega í gangi? Af hverju er verið að bölva þessum forna þjóðflokki?
Á tímum fyrri heimsstyrjaldar talaði fólk í Bretland og Bandaríkjunum sjaldnast bara um Þjóðverja sem Þjóðverja. Á áróðursmyndum fékk andstæðingurinn hin ýmsu nöfn og hét ýmist Fritz, Heinie, Jerry, Kraut, Bosh eða hreinlega Húninn.
Hver er sagan á bak við öll þessi nöfn?
Fritz er þýska gælunafnið fyrir þá sem heita Friedrich, en það var þá mjög algengt þýskt nafn, eins konar þýskur meðal-Jón. Auk þess var það nafn Friðriks mikla, herskáa prússakonungs 18. aldar.
Heinie kom til Evrópu með kanadískum hermönnum, og er afbökun á Heinrich, sem er annað algengt þýskt nafn.
Jerry átti upptök sín hjá breskum hermönnum, og kann að vera dregið af German. Önnur tilgáta segir þetta tengt lögun þýskra hermannahjálma, sem voru sagðir líkjast hlandkoppum — jerries í bresku slangri þessa tíma.
Kraut er bandarískt að uppruna, og að sjálfsögðu dregið af hinum sívinsæla þýska rétti sauerkraut, sem þótti einkenna matarmenningu Þjóðverja.
Bosh, oft skrifað Bosche, Bosch eða Boche, kemur frá gömlu frönsku heiti yfir Þjóðverja, boche. Tête de boche (kálhaus, að vera þrjóskur) varð að Alleboche, frá Allemande (Þýskaland) + boche (þrjóskur), og var svo loks stytt í einfalt boche. Enn til dagsins í dag þykir Frökkum þrjóska eitt af þjóðareinkennum nágranna sinna til austurs.
En af hverju skyldu Þjóðverjar hafa verið kenndir við Húna, reiðskyttuþjóðflokkinn ógurlega sem herjaði á íbúa Austur- og Mið-Evrópu á 5. öld undir forystu Atla húnakonungs?
Einhverjir kynnu að halda að hér væri á ferðinni einhvers konar vísun í bandalag Þjóðverja við Austurríska-ungverska keisaradæmið, enda er Ungverjaland — Húngaría — eina landið í Evrópu sem kennt er við Húna (þótt fólkið sem þar búi sé faktískt Magýarar). Svo er hins vegar ekki. Þetta er Ungverjalandi með öllu óskylt.
Tvær skýringar hafa verið lagðar fram og þykja báðar geyma einhvern sannleik. Önnur þeirra rekur húnaheitið til herklæða þýskra hermanna. Beltissylgjur Þjóðverja báru skjaldarmerki með áletruninni GOTT MIT UNS. Áróðursmeistarar Bretlands eru sagðir hafa að yfirlögðu ráði túlkað UNS sem HUNS, og farið lengra með samanburðinn, þar sem þýsku Pickelhaube hjálmarnir þóttu líkjast oddhjálmum Húna til forna. Húnanafngiftin var í framhaldi notuð til þess að mála Þjóðverja sem grimma, ómennska og ósíðaða villimenn.
Síðari skýringin rekur þetta til ræðu Vilhjálms II þýskalandskeisara frá síðasta ári 19. aldar. Árið 1900 átti Boxarauppreisninsér stað í Kína, en þar hélt þýska Hohenzollern-keisaradæmið úti hafnarnýlendum, m.a. í Tsingtao. Af þessu tilefni ákvað keisarinn að senda prússneska hermenn til Asíu til þess að berja uppreisnina niður. Í júlímánuði sama árs flutti hann eftirfarandi kveðjuræðu við höfnina í Bremerhaven:
Þegar þér mætið óvininum skal hann bíða ósigur! Enga miskunn! Engir skulu teknir fanga! Hver sá sem kemst í ykkar hendur skal mæta endalokum sínum. Líkt og fyrir þúsund árum, þegar Húnarnir undir Atla konungi sköpuðu sér orðspor sem enn í dag gerir þá mikilfenglega í sögu og frásögn, skulið þér kynna Kína fyrir Þjóðverjanum svo rækilega að enginn Kínverji mun dirfast mæta augum Þjóðverja með vanþóknun.
Mörgum í Þýskalandi var brugðið, ekki síst sitjandi ríkisstjórn landsins. Þarna hafði keisarinn talað af sér, því upprunalega ræðan sem honum hafði verið fengin var engan veginn svo herská. Síðarmeir var þessi óheppilega ræða Vilhjálms keisara notuð í áróðursskyni af bandamönnum, og þótti sýna villimennsku, óbilgirni og vígmóð Þjóðverja.
Húnanafngiftin umrædda varð síðar efni í skotgrafagrín árið 1989 í bresku þáttunum Blackadder Goes Forth með Rowan Atkinson og Hugh Laurie, en viðkomandi brot úr þáttunum má sjá hér að neðan: