Lögmál sem kennt er við stjórnmálafræðinginn Wallace Stanley Stayre segir að deilur í fræðasamfélaginu séu iðulega bitrustu og grimmustu deilurnar sökum þess hve lítið liggi að veði.
Við látum það milli mála liggja hvort lögmál Stayres varpi einhverju ljósi á hatrið sem þýski heimspekingurinn Arthur Schopenhauer (1788–1860) bar í garð starfsbróður síns Georgs W. F. Hegel (1770–1831), en heimspekingarnir tveir störfuðu báðir um tíma við háskólana í Jena og Berlín, og lifðu og hrærðust á mótunarárum þýskrar hughyggju.
Árið 1818 sendi Schopenhauer frá sér heimspekilegt stórvirki sitt, Die Welt als Wille und Vorstellung (ísl. Veröldin sem vilji og hugmynd), en þetta sama ár hlaut Hegel, sem var átján árum eldri, heiðursstöðu við Haskólann í Berlín. Tveimur árum síðar fékk Schopenhauer dósentstöðu við Berlínarháskóla og ákvað að halda fyrirlestra sína á sama tíma og fyrirlestrar Hegels. Hegel var þá rísandi stjarna í fræðaheiminum og ungir menn þyrptust til þess að heyra vísidóm meistarans. Fyrir vikið mættu einunigs fimm nemendur til Schopenhauers, sem tók þessu afar illa og sagði í kjölfarið varanlega skilið við háskólaumhverfið.
Í bók sinni um grundvöll siðferðis, Über die Grundlage der Moral (1837), og svo í seinni útgáfunni af Die Welt als Wille und Vorstellung (1844), lætur Schopenhauer eftirfarandi orð falla um látinn starfsbróður sinn:
,,Ef ég segði að hin svokallaða heimspeki þessa náunga, Hegels, væri ein stór þvæla sem yrði framtíðarkynslóðum aðhlátursefni, að hún væri gervispeki sem lamaði hugvitið, kæfði alla raunverulega hugsun og með svívirðilegri misnotkun tungumálsins setti í hennar stað innantóma, merkingarsnauða, hugsunarlausa þvælu … og forheimskandi orðgjálfur, þá hefði ég vissulega á réttu að standa.“
,,[Hegel var] … klaufskur og viðurstyggilegur svindlari og illmenni, sem ruglaði og eyðilagði hugsanagang heillar kynslóðar.“
,,[Hegel] … var ómerkilegur, heimskur, viðurstyggilegur og viðbjóðslegur svindlari sem sendi frá sér gjörsamlega geðbilaða þvæluspeki, en hún var í kjölfarið kynnt erlendis með miklu pompi og prakt af tækifærissinnuðum fylgismönnum hans, líkt og um tímalausa visku væri að ræða.“
,,Vitleysan og merkingarleysan fann sér skjól í torskiljanlegri framsetningu og málnotkun. Fichte var fyrstur til þess að nýta sér þessa tækni; Schelling var í besta falli hans jafnoki, og innan skamms tók fram úr þeim stórflokkur metnaðarfullra skríbenta sem skorti bæði vitsmuni og heiðarleika. En hápunktur þeirrar ósvífni að festa á blað tóma þvælu, að binda saman merkingarlaust orðgjálfur, svo sem áður þekktist einungis á geðsjúkrahælum, náðist að lokum í Hegel, en hann var forsprakki óforskammaðrar dulspeki … sem mun lengi standa sem minnisvarði um heimsku Þjóðverja.“
(Þýðing höfundar)
Þetta kann að vera harðasti dómur sem einn heimspekingur hefur fest á blað um annan í sögu vestrænnar heimspeki.
Nánar má lesa um líf og speki Arthurs Schopenhauer í eftirfarandi grein eftir Jóhann Hannesson prófessor í Lesbók Morgunblaðsins frá árinu 1965.