Franska bloggsíðan Old School Panini er fjársjóður fyrir áhugafólk um bæði sögu og fótbolta. Panini er ítalskt fyrirtæki sem gefur út fótboltaspjöld. Slík spjöld reynast góðar sögulegar heimildir, þó ekki sé nema einungis til að meta tísku og tíðaranda í fótbolta fyrri tíma.

 

Höfundar greinarinnar hafa legið yfir bloggsíðunni frönsku og ákváðu að skrifa þessa færslu í anda hennar. Því hér má sjá myndir af nokkrum af helstu fótboltahetjum Íslands, sumir birtast á fótboltaspjöldum en aðrir á venjulegum ljósmyndum.

 

 

Þórólfur Beck er af mörgum talinn einn albesti leikmaður sem Íslendingar hafa átt. Hann raðaði inn mörkum fyrir KR áður en hann hélt út í atvinnumennsku. Hann hóf ferilinn erlendis með St. Mirren í Skotlandi, en þangað fór hann árið 1961.

 

Ekki leið á löngu uns hann var talinn einn besti leikmaður Skotlands, og því kom ekki á óvart þegar stórliðið Glasgow Rangers keypti Þórólf árið 1964 og það fyrir metfé. Borgaði félagið 25 þúsund pund fyrir Þórólf, en slíkri upphæð hafði Rangers aldrei áður eytt í einn leikmann.

 

 

 

Guðmundur Torfason sleit barnskónum í Safamýrinni með Fram. Hann er sonur frjálsíþróttakappans Torfa Bryngeirssonar og þótti snemma efnilegur leikmaður með eindæmum. Hann þótti ekki sérstaklega snar í snúningum, en þeim mun öflugri með boltann í löppunum.

 

Hann var sparksérfræðingur og fór létt með að klína boltanum í sammann þegar hann fékk tækifæri úr aukaspyrnum. Guðmundur jafnaði markametið í efstu deild á Íslandi árið 1986, þar sem hann skoraði 19 mörk í 18 leikjum. Hann hóf atvinnumannaferilinn í Belgíu en átti sennilega mestri velgengni að fagna í Skotlandi, þar sem hann lék með St. Mirren – rétt eins og Þórólfur Beck. Með St. Mirren skoraði Guðmundur 26 mörk í 77 leikjum á árunum 1989-1992.

 

 

Hermann Gunnarsson er einn mesti markaskorari í sögu íslenskrar knattspyrnu. Hér má sjá Hermann í búningi austurríska liðsins SC Eisenstadt. Þar spilaði Hermann um haustið 1969 en náði ekki að festa sig í sessi í atvinnumennskunni.

 

Í grein Vísis frá 1. október árið 1969 kemur fram að þjálfari Eisenstadt hafi talið Hemma vera of feitan. Var honum skipað í megrun, og þurfti hann að losa sig við heil sjö kíló! Myndin er tekin af merku bloggi – In Memoriam SC Eisenstadt.

 

 

 

 

Þegar rýnt er í ferilskrá Jóhannesar Eðvaldssonar kemur ýmislegt í ljós, en hann átti langan feril í atvinnumennsku erlendis og lék meðal annars með Cape Town City í Höfðaborg í Suður-Afríku, FC Metz í Frakklandi og Hanover 96 í Þýskalandi.

 

Jóhannes átti hins vegar mestri velgengni að fagna í Skotlandi. Hann lék 188 leiki fyrir stórliðið Celtic frá Glasgow á árunum 1975-1980 og skoraði 36 mörk fyrir félagið, sem er ansi gott fyrir varnarmann. Áhangendur kölluðu Jóhannes alltaf „Big Shuggie“. Jóhannes, eða Búbbi eins og hann var kallaður á Íslandi, þótti alger sérfræðingur þegar kom að bakfallsspyrnum og sennilega var honum enginn fremri uns Amara Simba steig fram á sjónvarsviðið með Olympique Marseille undir lok 9. áratugar síðustu aldar. Það eru kannski ýkjur.

 

Á tímabilinu 1980-81 lék Jóhannes með bandaríska liðinu Tulsa Roughnecks frá Oklahoma:

 

Litli bróðir Jóhannesar er auðvitað Atli Eðvaldsson.  Hann hóf atvinnuferil sinn í þýska boltanum með stórliði Borussia Dortmund tímabilið 1980-1981. Þar skoraði hann 11 mörk í 30 leikjum.

 

 

Atli og Pétur Ormslev léku með Fortuna Düsseldorf í Þýskalandi frá 1981 til 1985. Atli skoraði 38 mörk í 122 leikjum fyrir félagið. Pétur lék 28 leiki fyrir Fortuna og skoraði 2 mörk.

 

Fortuna komst í efstu deild þýska boltans, Bundesliguna, á síðasta tímabili eftir mörg erfið ár í neðri deildum. Gengi liðsins hefur raunar verið ævintýralega óstöðugt: Á árunum 1997 til 2002 hrundi Fortuna Düsseldorf niður í fjórðu deild, en náði á árunum 2004 til 2012 fótfestu á ný.

 

 

 

 

FC Bayer 05 Uerdingen var stórlið í Bundesligunni á níunda áratugnum. Félagið heitir í KFC Uerdingen 05 í dag og leikur í fimmtu efstu deild þýska boltans. Atli Eðvaldsson lék með liðinu á árunum 1985 til 1988.

 

Með Atla hjá Uerdingen lék Lárus Guðmundsson. Hann lék sem framherji með liðinu og skoraði 17 mörk í 62 leikjum. Lárus lék einnig með Waterschei í Belgíu og 1. FC Kaiserslautern í Þýskalandi.

 

Atli hjá Uerdingen.

 

 

Lárus Guðmundsson og félagar í Uerdingen, 1985.

 

Arnór sló í gegn í Belgíu og lék með Lokeren frá 1978 til 1983. Þessi mynd er frá 1982 og er varðveitt á síðunni Old School Panini.

 

Arnór lék 139 leiki með belgíska stórliðinu Anderlecht árin 1983-1990 og skoraði 40 mörk.

 

Arnór Guðjohnsen þarf vart að kynna. Hann hóf feril sinn með Völsungi á Húsavík, eða þangað til hann fluttist til Reykjavíkur til að leika með Víkingum. Hann varð yngsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi þegar hann lék gegn Sviss í undankeppni Evrópukeppni landsliða í Bern árið 1979. Arnór var þá ekki nema 17 ára og 296 daga gamall. Ísland tapaði leiknum reyndar, 2-0, með mörkum frá þeim Hermann og Zappa. Ekki þó tónlistarmanninum Frank Zappa.

 

 

 

Við gátum ekki sleppt þessum glæsilegu myndum af Albert Guðmundssyni, fyrsta atvinnumanni Íslands í fótbolta. Myndin fyrir ofan var tekin árið 1946 þegar hann var á mála hjá enska stórliðinu Arsenal. En neðri myndin birtist árið 1947 þegar Albert hafði gengið til liðs við annað evrópskt risalið, AC Milan.

 

Tveir vængmenn í Milan: Íslendingurinn Guðmundsson og Englendingur Sloan árið 1947.

 

 

Sigurður Jónsson varð Íslandsmeistari með ÍA árið 1984 og var í kjölfarið keyptur til enska liðsins Sheffield Wednesday, aðeins 18 ára að aldri. Þá hafði hann þegar slegið met Arnórs Guðjohnsens sem yngsti leikmaður íslenska landsliðsins en Sigurður lék sinn fyrsta landsleik árið 1983, ekki nema 16 ára gutti! Leikurinn var gegn Möltu í undankeppni EM og fór fram á Laugardalsvellinum.

 

Hápunkturinn á ferli Sigurðar kom síðan skömmu eftir lágpunktinn. Í landsleik gegn Skotlandi árið 1985, sem fram fór á Laugardalsvellinum, mætti hinn ungi skagamaður Greame Souness. Sigurður gerði sér lítið fyrir og „klobbaði“ Souness, eitthvað sem hinn skoski kunni ekki að meta. „Don’t try that again, son“, sagði Souness. Sigurður lét sér ekki segjast og klobbaði Souness aftur, en að launum fékk hann fautabrot. Sigurður lá eftir óvígur og sat uppi með alvarleg meiðsli. Sannarlega lágpunktur.

 

Hápunkturinn var hins vegar skammt undan. Meðal áhorfenda í leiknum hafði verið poppsöngvarinn Rod Stewart. Hann ætlaði sér auðvitað að styðja Skota til sigurs en gramdist fautaskapur landa síns, Souness. Hann sýndi því mikið drenglyndi, og heimsótti Sigurð á spítalann skömmu eftir leik – og með kippu af bjór í farteskinu! Sigurður og Rod Stewart spjölluðu síðan um boltann og tilveruna, á meðan þeir gæddu sér á bjórnum – sem var nota bene bannaður á Íslandi á þessum árum. Sannarlega hápunktur.