Siggeir F. Ævarsson, kennari í Menntaskólanum í Kópavogi, er titlaður sem skeggfræðingur í símaskránni. Það er enginn fíflagangur. Því hann hefur rannsakað skeggvöxt Íslendinga og skrifaði lokaritgerðina Upphaf íslenskrar skeggtísku í sagnfræðinámi sínu í Háskóla Íslands. Hann notaði meðal annars aldargamlar ljósmyndir Sigfúsar Eymundssonar til að kanna 100 ára þróun skeggtísku á landinu.

 

Siggeir hefur hitt erlenda skeggfræðinga og á myndinni hér fyrir ofan stendur hann á milli heimsmeistarans í skeggvexti og fyrirliða bandaríska landsliðsins í sömu íþrótt.

 

Hann segir að Íslendingar hafi almennt verið vel skeggjaðir um aldamótin 1900 og fagnar því að skeggin séu komin aftur í tísku.

 

Hvers vegna ákvaðstu að skrifa BA ritgerð um skegg?

 

„Ég var búinn að vera að vandræðast með ritgerðarefni í þó nokkurn tíma, og var eiginlega búinn að ýta því á undan mér í þrjár annir að byrja að skrifa. Ég var í raun með annað efni, sem mér fannst ekki nógu spennandi (enda hafði ekkert gerst að viti í þrjár annir) þegar mér datt þetta allt í einu í hug.

 

Við vorum eitthvað að ræða þetta í tíma nokkrir félagar, svona meira í gríni en alvöru, og eftir tímann ákvað ég að gera bara alvöru úr þessu. Ég hafði samband við Önnu Agnarsdóttur, sem var þá að kenna mér áfanga um Frakkland á 18. öld og bar efnið undir hana. Henni fannst þetta mjög skemmtileg (og öðruvísi) hugmynd og hvatti mig til að tækla þetta. Það varð svo úr að hún varð leiðbeinandi minn með efnið.“

 

Íslenskur herramaður (til vinstri) um aldamótin 1900 skartar vel snyrtu Franz Jósefsskeggi, en sá skeggstíll er nefndur í höfuðið á Franz Jósef I. keisara Austurríkis-Ungverjalands (til hægri), sem var gríðarlega áhrifamikil tískufyrirmynd.

 

Þú ert titlaður skeggfræðingur í símaskránni, leita menn til þín til að fá skeggfræðileg álit?

 

„Ég þurfti að ýta á eftir því að fá þetta skráð, sennilega hafa þau hjá já.is haldið að einhver væri að fíflast. En nei, það hefur ekki enn gerst að menn hafi sett sig í samband við mig, það er meira að menn nefni þetta í gríni, til dæmis nemendur mínir í MK og þegar fólk sendir okkur jólakort.

 

Ég hef líka sjálfur sett mig í samband við erlenda skeggfræðinga, sem dæmi má nefna að ég hitti fyrirliða bandaríska skegglandsliðsins, Phil Olsen og heimsmeistarann í skeggvexti, Jack Passion, þegar þeir komu til landsins.

 

Þeir eru mjög spenntir fyrir Íslandi og íslenskri menningu, og hafa pressað á mig að koma á fót íslensku landsliði. Ég hef bara ekki haft tíma í það, svo ef einhver hefur áhuga ætti sá hinn sami endilega að setja sig í samband við mig eða beint við þá á síðunni http://beardteamusa.org/.

 

Svo var ég auðvitað valinn til að dæma mottumars í skólanum hjá okkur síðasta vor.“

 

„Hér er annar herramaður með Franz Jósef-stílinn. Hér hefur skeggið fengið að vaxa nokkuð óhindrað, og þó svo að hakan sé vel skafin teygja skegghárin sig upp á kinnar, og bartarnir eru gríðarlega síðir og ansi brúskmiklir. Yfirvaraskeggið hefur verið snyrt, sem bendir til þess að þessi lokaútkoma sé til komin af ráðnum hug. Líklega hefur útfærsla eins og þessi hafi verið vinsælli hjá mönnum sem höfðu eilítið minni tíma aflögu til skeggsnyrtingar og þeir hafi látið duga að raka hökuna til að halda nokkuð sterkum skeggsvip, en kinnarnar og bartarnir hafi fengið að sitja á hakanum.“ (Mynd: Sigfús Eymundsson)

 

Hverjar voru niðurstöður ritgerðarinnar í grófum dráttum?

 

„Að Íslendingar hafi almennt verið frekar skeggjaðir. Eiginleg skeggtíska barst í raun ekki til landsins fyrr en í kringum aldamótin 1900, og fyrir flestum þótti allt nostur við skegg lítið annað en töf frá bústörfum.

 

Eftir því sem menn höfðu meiri frítíma lögðu menn meiri metnað í að snyrta skegg sitt, og gátu leyft sér fleiri útfærslur en alskegg eða ekkert skegg. Annars hvet ég fólk eindregið til að skoða ritgerðina, hún er opin öllum á Skemmunni, og ég vil endilega að hróður skeggsins berist sem víðast.“

 

Risastórt íslenskt sveitaskegg. „Maðurinn skartar stóru og miklu alskeggi. Þetta er ekki hið dæmigerða aldamótaalskegg, flestar myndirnar úr safni Sigfúsar af alskeggjuðum mönnum sýna menn með nokkuð minna skegg og betur snyrt. Stór skegg vekja engu síður eftirtekt, og sitja kannski frekar eftir í minninu heldur en minni skegg og betur snyrt, þó þau séu í raun ekkert sérlega algeng. Þessi maður er engu að síður dæmigerður að því leyti að hann virðist vera kominn yfir miðjan aldur, en margir minnast þess sérstaklega að það hafi helst verið eldri menn sem báru alskegg.“

 

 

Þú notaðir ljósmyndir Sigfúsar Eymundssonar í rannsókninni, á hvaða tímabili voru þær teknar og hvernig var skeggtíska landsmanna þá?

 

„Myndirnar frá Sigfúsi voru teknar á nokkuð löngu tímabili, frá 1870-1910 ca. Vandinn við að nota þær sem heimildir er sá að þær eru ekkert merktar.

 

Engin leið er að segja til um hvenær þær voru teknar eða af hverjum. Ég skoðaði rúmlega 2.000 myndir úr safninu, eða um 20%. Í fullkomnum heimi hefði ég auðvitað skoðað allt safnið.

 

Í því úrtaki voru 34% karlmanna skeggjaðir, og þar af flestir með yfirvaraskegg, eða um 21%. Næst kom alskeggið og aðrir stílar ekki mjög áberandi. Það er erfitt að draga stórar ályktanir af þessum athugunum, til dæmis má vel vera að menn hafi sérstaklega lagað skeggið til fyrir myndatökur, en amk leyfðu þeir skegginu að standa, en rökuðu það ekki allt af sér sem ég vil túlka þannig að myndarlegt skegg hafi þótt prýði.“

 

Sagði skegg eitthvað til um stöðu manna? Voru skegg stöðutákn?

 

„Í gegnum söguna hefur skegg haft allskonar tengingar við stöðu manna í samfélaginu. Ég fann til dæmis í safninu myndir af Hannesi Hafstein, sem var með vandlega snyrt skegg. Jón Sigurðsson var alltaf með valdmannlegt skegg, og Matthías Jochumsson virðist hafa borið sína barta alla tíð.

 

Ég skoðaði skegg sem stöðutákn ekki sérstaklega, en maður sér það ef maður skoðar myndir af fyrirmennum sögunnar að þeir eru ansi oft með mikið skegg og vel snyrt. Þeir sem áttu peninga og tíma til að eyða virðast oftar hafa haft skegg sem einhver vinna lá að baki. Til dæmis sá ég að kennarar í MR voru gjarnan allir (þá meina ég ALLIR) með mjög voldug og vel snyrt skegg.“

 

 

„Tveir alskeggjaðir menn, af útlitinu að dæma líklega feðgar. Sá yngri, ef við gefum okkur að sá vinstra megin sé yngri, er kafloðinn í framan, með virkilega gróskumikið alskegg, sem hefur sennilega ekki verið algengt hjá ungum mönnum, ef ekki vegna tískuáhrifa, þá einfaldlega af líffræðilegum orsökum. En þó svo að fáir ungir menn hafi lagt í að safna alskeggi voru greinilega margir sem vildu safna skeggi og byrjuðu að safna mottu ungir að árum, þó svo að gróskan og þéttleikinn væri ekki alltaf til staðar.“ (Mynd: Sigfús Eymundsson)

 

Hverjar voru helstu fyrirmyndir Íslendinga í skeggtísku um 1900?

 

„Vandinn við þessa ritgerð, og ég gæti trúað að þetta eigi við um allar ritgerðir sem fjalla um jafn óræðan hlut og tísku, voru ritaðar heimildir. Það var afar erfitt að finna eitthvað sem hönd var á festandi sem sagði af eða á um það hvernig skeggtískan var fyrr á öldum. Það er ekki fyrr en eftir miðja síðustu öld sem ég fór að finna hluti t.d. í blöðum þar sem menn skrifuðu um skeggtísku.

Kristján IX. Danakonungur var fyrirmynd.

 

En ég rakst þó að minnsta kosti á tveimur stöðum á fullyrðingar þess efnis að Kristján IX. hafi verið Íslendingum fyrirmynd í skeggtísku, og miðað við myndirnar frá Sigfúsi voru nokkrir sem lögðu í sama skegg og hann.

 

Kannski mun ég einhvern daginn víkka ritgerðina út og bera saman íslenska skeggtísku við tísku í Kaupmannahöfn og London eða öðrum heimsborgum. En að svo komnu máli get ég því miður lítið fullyrt um fyrirmyndir að utan. Ég giskaði á í ritgerðinni að landfræðileg staða Íslands hefði gert það að verkum að fyrirmyndir að utan hefði verið fáar, og sennilega stenst það. En eftir því sem nær dregur okkur í tíma og samskipti við útlönd verða örari sést greinilega fylgni á milli tísku erlendis og hér heima.“

 

 

„Alskegg sem þetta má kalla hið dæmigerða aldamóta íslenska alskegg. Sennilega 2-3 mánaða vöxtur, temmilega snyrtur, en þó með nokkuð grófu yfirbragði. Síddin nokkuð jöfn sem gefur heildarsvipnum fágaðara yfirbragð. Útlit sem krefst ekki mikils viðhalds, nema helst að halda skegginu hreinu og einnig nauðsynlegt að draga í gegnum það greiðu öðru hvoru. Rakhnífurinn fær að hvíla sig en stöku sinnum hefur þurft að bregða skærunum á loft og snyrta til brúska hér og þar.“

 

Hvernig finnst þér skeggtískan á Íslandi í dag?

 

„Ég hef lengi verið mikill áhugamaður um skegg og skeggtísku, og mér finnst að allir sem á annaðborð hafa þokkalegan skeggvöxt eigi að láta skegg sitt vaxa, annað sé ónáttúra.

 

Mín tilfinning er sú að menn séu orðnir óhræddari við að láta skegg sitt vaxa frjálst núna en undanfarin ár. Þetta fer auðvitað í hringi eins og allt annað.

 

Skegg í Reykjavík nútímans. Myndir af síðunni Beards of Reykjavik, http://hellyeahbeardsofreykjavik.tumblr.com/.

 

Það er ákveðin pressa til dæmis frá vinnuveitendum um að menn raki sig, þú sérð til að mynda ekki marga skeggjaða bankamenn en tískustraumarnir eru að færast frá þessum þvingunum finnst mér.

 

Það sést ágætlega á módelunum hjá Kormáki og Skildi, en þeir eru flestir eins og skógarhöggsmenn. Það er einmitt annar vinkill á þessu, steríótýpur, ef maður er skeggjaður hlýtur maður að vera annaðhvort skógarhöggsmaður eða hryðjuverkamaður.“

 

„Þessi herramaður hér er með dæmigerða íslenska mottu, afar stóra og mikla, en engu að síður vel snyrta þó síð sé. Það er auðvitað persónubundið hvenær mönnum fer að þykja mottan of síð, en skeggbollarnir hafa hjálpað þeim sem höfðu hvað stærst yfirvaraskegg. Þessi mynd er þó sérstök fyrir þær sakir að þessi einstaklingur er ekki bara með mottu heldur líka síða og nokkuð gróskumikla barta, en slík skeggsnyrting krefst töluverðar vinnu og eilítils nosturs við raksturs hverju sinni, því hér þarf að skafa nákvæmlega meðfram börtunum, í stað þess að hægt sé að raka hratt og örugglega yfir allt andlitið að efri vörinni undanskilinni. Slíkt nostur útskýrir hvers vegna flestir létu mottuna eina duga þegar kom að vali á skeggtísku.“

 

 

„Eins og sést á þessari mynd er kragatískan ekki allra. Þessi aldni herramaður er með ansi gisinn skeggvöxt sem gerir það að verkum að kraginn er rytjulegur og gróf húðin ætti ef til vill betur heima undir alskeggi, enda dregur ramminn sem kraginn myndar mikla athygli að andlitinu sjálfu og hvert einasta lýti, hversu smálegt sem það kann að vera, verður þeim mun greinilegra.“