Í nokkra daga í ársbyrjun 2011 var torg nokkuð í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, miðpunktur alheimsins.
Vafalaust hefur dágóður hluti ferðamanna til Egyptalands farið um hið risastóra Tahrír-torg á leið sinni til egypska þjóðminjasafnsins, sem þar stendur innan um hótel og opinberar byggingar.
En umheiminum þótti torgið þó ekki sérstaklega merkilegt fyrr en þar söfnuðust hugrakkir mótmælendur og kröfðust afsagnar Hosnís Múbaraks forseta.
En saga Tahrír-torgs hófst rúmum 150 árum fyrr.
Ismaíl, khedívi (konungur) Egyptalands frá 1863 til 1879, gekk í skóla í París eins og aðalsmanni sæmdi. Þar varð piltur vitni af hinni viðamiklu endurbyggingu borgarinnar undir stjórn Haussmann baróns, þegar miðaldaborgin fékk að víkja fyrir breiðgötum og torgum.
Kannski vildi khedívinn eignast sína eigin París á Nílarbökkum. Því þegar hann tók við valdataumum var eitt af hans fyrstu verkum að fyrirskipa byggingu nýs og glæsilegs hverfi að evrópskri fyrirmynd, beint vestur af hinni aldagömlu höfuðborg Fatímída.
Ismaíl nefndi nýja hverfið að sjálfsögðu eftir sjálfum sér, og fékk það nafnið Ismaílía. Aðaltorg hverfisins fékk líka nafn hans, Maydan al-Ismailia, Ismaílía-torg.
Ismaílía-torg var stórt og mikið en fyrstu áratugina var þar heldur lítið við að vera. Það var í raun í útjaðri borgarinnar og helstu byggingarnar sem við torgið stóðu voru stórir hermannaskálar. Skálarnir höfðu upphaflega verið ætlaðir egypska hernum, en breski herinn tók þá snarlega yfir þegar hann kom til Kaíró árið 1882.
Um aldamót tuttugustu aldar byrjaði líf að kvikna á Ismaílía-torgi, og það færðist í áttina að því torgi sem við könnumst við í dag. Bygging egypska þjóðminjasafnsins, í norðurhluta torgsins, reis árið 1902. Fagurrautt safnið, beint við hliðina á hermannaskálum breska heimsveldisins, hlýtur að hafa verið ansi áberandi tákn um kraft og þrautseigju egypskrar menningar og sögu.
En Kaíróbúar byrjuðu líka fljótt að notafæra sér stærð torgsins til þess að mótmæla — gegn Bretum og síðar gegn konungsveldinu. Eftir byltinguna 1919, og sjálfstæði Egypta frá Bretum, byrjuðu borgarbúar að kalla Ismaílía-torg öðru nafni í daglegu tali — þeir kölluðu það Maydan al-Tahrir, Frelsunartorg.
Það varð síðan opinbert nafn torgsins eftir byltinguna árið 1952.
Seint á fimmta áratugnum lét Farúk, þáverandi konungur, reisa risastóran granítstall mitt í hringtorginu í miðju Tahrírs. Stallurinn var ætlaður styttu af afa konungs, mannsins sem torgið var upphaflega skírt í höfuðið á, Ismaíl khedíva. En styttan var búin til í útlöndum og var mun lengur í smíðum en stallurinn. Þegar hún kom loks til Egyptalands síðla sumars árið 1952 var það of seint — egypsku konungsættinni hafði þá verið steypt af stóli.
Tómur fótstallurinn stóð þrátt fyrir það óhreyfður í áratugi, eins og risavaxið minnismerki um örlög konungsveldisins. Þegar Gamal Abdúl Nasser lést árið 1970 vildu einhverjir loks taka stallinn í notkun og reisa þar styttu af hinum fallna forseta, en slík stytta leit heldur aldrei dagsins ljós. Stallurinn var loks fjarlægður á áttunda áratugnum þegar jarðlestarstöð var byggð við torgið.
Bygging ægilega stjórnsýslukastalans sem gnæfir yfir suðurhluta torgsins og er kallaður Mogamma hófst líka í lok fimmta áratugarins, á síðustu árum konungsveldisins. Þessi risavaxna bygging var heldur ekki tilbúin fyrr en eftir byltinguna, en reyndist henta fullkomlega í hið mikla skrifræði sem fylgdi nýjum stjórnvöldum. Fáir borgarbúar hafa sloppið við heimsókn þangað að sækja um leyfi eða fylla út öll möguleg eyðublöð.
Þegar Nasser settist í forsetastól var Tahrír-torg orðið næstum aldargamalt. Kaíróborg hafði vaxið gífurlega á ævi þess og torgið var ekki lengur í útjaðri heldur í miðbænum. Ný stjórnvöld undirstrikuðu mikilvægi torgsins með því að láta byggja fleiri opinberar byggingar í kringum það — breski herinn hafði loks látið sig hverfa í lok fimmta áratugarins svo að nóg var pláss til nýbygginga.
Þar á meðal var bygging Arababandalagsins og svo höfuðstöðvar flokks Nassers sjálfs, Arabíska sósíalistabandalagsins — byggingin sem síðar féll í skaut Þjóðarlýðræðisflokks Hosní Múbaraks, en varð svo byltingareldinum að bráð í ársbyrjun 2011.