„El Negro de Banyoles (ísl. Svertinginn frá Banyoles)“ var uppstoppað lík af afrískum manni sem var til sýninga á náttúrugripasafni Francesc Darder í spænska bænum Banyoles í Katalóníu á árunum 1916 til 1997. 

 

Við vitum ekki hvað hann hét. En hann var líklega meðlimur Batlhaping-ættbálksins sem bjó forðum þar sem fljótin Vaal og Orange mætast, þar sem nú eru landamæri Suður-Afríku og Botswana. Hann var ungur maður, aðeins 27 ára gamall. Hann náði líklega um 135 cm hæð, var af ætt búskmanna. Hann lést líklega úr lungnasjúkdómi sem hann hafði sýkst af vegna sníkjudýra. Dánarárið var 1830.

 

En þegar maðurinn lést, stálu hinir frönsku Verreaux-bræður líkinu af honum. Þeir voru á ferðalagi um suðurhluta Afríku. Þeir voru víðfrægir uppstopparar og komu heim til Frakklands seinna sama ár með ýmis afrísk uppstoppuð dýr á borð við gíraffa, apa, fugla og fiska. Ekkert vakti þó jafn mikla athygli og hið uppstoppaða lík af búskmanninum, sem vakti mikla hrifningu og óhug Parísarbúa.

 

Kort af Afríku frá 1830, frá sama tíma og líkinu af manninum var stolið. Evrópumenn skiptu álfunni með sér og stálu öllu steini léttara, jafnvel líkamsleifum látinna. Smellið á kortið til að sjá það í stærri útgáfu.

 

Á þessum tíma var nýlendustefnan í algleymi. Stórþjóðir Evrópu stunduðu kerfisbundna rányrkju á náttúrugæðum Afríku og komu skelfilega fram við Afríkumenn. Afrískir þrælar voru seldir víða um heim en árið 1830 voru til að mynda milljónir svartra þræla við störf í Nýja heiminum.

 

Evrópumenn töldu svarta menn óæðri hvítum og lærðir menn skrifuðu fræðigreinar um meinta heimsku þeirra og villimennsku. Menn af kynþáttum á borð við hina lágvöxnu búskmenn voru fluttir til Evrópu og sýndir líkt og sirkusdýr á furðusýningum.

 

Hið uppstoppaða lík var sýnt á ýmsum sýningum í Frakklandi á nítjándu öld. Árið 1887 keypti katalónski náttúrufræðingurinn Francesc Darder líkið og flutti til Spánar. Þar var líkið til sýningar á heimssýningunni í Barcelona árið 1888. Því næst, árið 1916, fór líkið uppstoppaða, ásamt ýmsum uppstoppuðum dýrum, á safn sem kennt var við Darder og stofnað var til minningar um náttúrufræðinginn í þorpinu Banyoles.

 

Þar hlaut líkið nafnið „El negro“ sem festist síðan við það. Löngu síðar varð líkið tákn fyrir rányrkju Spánverja á nýlendutímanum og þrælahald þeirra á afrísku fólki. Mörgum fannst siðlaust að stilla líki af manni upp sem sýningargrip.

 

Úr kvikmyndinni VÉNUS NOIRE frá 2010 sem fjallar um líf Söru Baartmann, konu frá Suður-Afríku sem sýnd var á furðusýningum í Evrópu á fyrri hluta nítjándu aldar undir nafninu „hottintottinn Venus“.

 

Þessar vangaveltur komu þó ekki til fyrr en á tíunda áratug tuttugustu aldar en þá hafði El Negro verið til sýninga á safninu í Banyoles í um 75 ár án nokkurra athugasemda og deilna.

 

Árið 1991 skrifaði hins vegar Alphonse Arcelin, spænskur læknir sem á ættir að rekja til Haítí, bæjarstjóra Banyoles bréf og bað hann um að fjarlægja líkið uppstoppaða umsvifalaust af Darder-safninu. Fjölmiðlar fjölluðu um bréf Arcelins sem hlaut gífurlega athygli.

 

Yfirmaður UNESCO (Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna), Federico Mayor Zaragoza blandaði sér inn í málið og studdi málstað læknisins. Þegar Kofi Annan varð aðalritari Sameinuðu þjóðanna, árið 1997, hitti hann bæjarstjórann í Banyoles og bað hann um að líkið yrði fjarlægt. Þá höfðu margar ríkisstjórnir í Afríku lýst miklum stuðningi við baráttu Arcelin og málið fór að líkjast milliríkjadeilu.

 

Eftir töluverðan þrýsting frá Sameinuðu þjóðunum og Einingarsamtökum Afríku, var líkið af búskmanninum fjarlægt af safninu í Banyoles og loksins flutt aftur til Afríku árið 2000, eftir að hafa verið sýningargripur í 170 ár. Þar var það grafið í Tsolofelo-þjóðgarðinum í nágrenni Gaborone í Botswana.

 

Alphonse Arcelin. Hann lést árið 2009.