Heimssýning var haldin á eyjunni Djurgården í Stokkhólmi árið 1897. Þessi handlitaða ljósmynd sýnir sýningarsvæðið — sérbyggðan sýningarskálann fyrir miðju og Djurgårdsbrúna sem einnig byggð var sérstaklega fyrir sýninguna og stendur enn. Takið eftir að litarinn hefur litað sænska fánann vitlaust.
Á heimssýningunni voru sýndar margar spennandi tækninýjungar eins og röntgengeislar, hljóðupptökutækni Edisons og kvikmyndavél hinna frönsku Lumière-bræðra, cinématographe. (Lemúrinn hefur áður fjallað um heimsókn Lumière-bræðra til Jerúsalem árið 1896.)
Innfæddir notfærðu sér að sjálfsögðu þessa nýju tækni og í sambandi við sýninguna var tekin upp fyrsta sænska kvikmyndin: Konungurinn af Síam stígur á land við Logårdströppurnar.
Það var ljósmyndarinn Ernest Florman (1862-1952) sem, þann 13. júlí 1897, tók upp þegar Chulalongkorn mikli, konungur af Síam, heilsaði Óskari II Svíakonungi fyrir utan konungshöllina í Stokkhólmi.
Kvikmyndin var síðan sýnd á heimssýningargestum nokkrum dögum síðar. Meðal áhorfenda var Óskar II sjálfur sem þótti að sögn mjög til þess koma að sjá sjálfan sig á hvíta tjaldinu.
Síðar á árinu 1897 tók Ernest Florman svo upp fyrstu leiknu sænsku kvikmyndina, stutta grínmynd sem nefndist Byrakstugan. Sú mynd hefur ekki varðveist en löngu síðar lýsti leikstjórinn söguþráði hennar svo:
„Þrír leikendur: rakarinn, aðstoðarmaðurinn og sveitalegi kúnninn. Rakarinn þvær kúnnanum illa og kæruleysislega og dregur fram leðurreim sem hann bindur utanum hálsinn á kúnnanum eins og snöru. Og svo brýnir hann rakhnífinn á reiminni og höfuðið á kúnnanum rykkist hingað og þangað … Kúnninn fær skrámu, stekkur upp og sparkar í þvottabalann svo að sápulöðrið fer út um allt. Almenn slagsmál.“