Videotækin tilheyra nú fortíðinni og liggja á öskuhaugum. Myndgæði myndbandstækninnar voru ekkert sérstök og því ríkir ekki mikill söknuður eftir tækjunum og VHS-spólunum. Eitt er þó saknaðarefni: Á öld videospólunnar var miklu algengara að taka upp sjónvarpsefni og geyma það á spólum. Lemúrinn var ákaflega ánægður þegar hann rataði á myndskeiðið hér fyrir neðan frá YouTube-notandanum Saegrjot, því með því ferðumst við í tímavél til ársins 1991.

 

Vídjó

target=“_blank“>Smellið hér til að horfa á fréttir sjónvarps 30. apríl 1991 en þar var sagt frá myndun nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi.

 

 

Sjónvarpsgrafíkin frá 1991 vekur minningar.

 

Kvöldfréttir Sjónvarps hinn 30. apríl 1991 fjölluðu um nýmyndaða ríkisstjórn Íslands, sem fékk nafnið Viðeyjarstjórnin. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokks, og Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokks, höfðu hist í Viðey og fékk sá fyrrnefndi forsætisráðherrastólinn og sá síðarnefndi utanríkisráðuneytið. Davíð hélt sínu embætti til ársins 2004 og varð því þaulsetnasti forsætisráðherra Íslandssögunnar.

 

HEIÐURSMANNASAMKOMULAGIÐ Í VIÐEY

Steindór Grétar Jónsson gerði ítarlega rannsókn á myndun Viðeyjarstjórnarinnar í BA-ritgerð sinni við Háskóla Íslands, en hún ber titilinn Heiðursmannasamkomulagið í Viðey, Orsök og aðdragandi myndunar Viðeyjarstjórnar 1991. Hér eru nokkrar línur úr niðurstöðum ritgerðarinnar:

 

„Koma Davíðs Oddssonar í formannsstól skipti máli við að brjóta upp félagsskap félagshyggjuflokkanna. Hann var óskrifað blað í landsmálunum. Í kosningabaráttunni var Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndur fyrir stefnuleysi, en sveigjanleiki í málefnasamningum kom honum einmitt til góðs við myndun ríkisstjórnar.

 

Davíð kom inn á sjónarsvið landsmálanna með ferskar áherslur í Evrópumálum sem hugnuðust alþýðuflokksmönnum. Hann boðaði þeim uppstokkun á landbúnaðarkerfinu og breytingar á hinu alræmda fiskveiðistjórnunarkerfi.

Hann studdi álver og aðhald í ríkisfjármálum. Jón Baldvin taldi sig þarna hafa fundið góðan samstarfsmann til að takast á við þau verkefni sem honum þótti brýnust. Hann taldi að á milli þeirra ríkti gagnkvæmt traust, en þegar fram liðu stundir runnu á hann tvær grímur.“