Eins og margar aðrar dýrategundir eiga lemúrar um sárt að binda vegna yfirgangs mannsins. Nýlegar tilkynningar frá IUCN, sem eru alþjóðleg samtök um varðveislu náttúrunnar, eru sláandi. Samtökin segja að lemúrar séu þær dýrategundir í heiminum sem eru í hvað mestri útrýmingarhættu.

 

Lemúrar deila fjórðu stærstu eyju heims, Madagaskar í Indlandshafi, með um það bil 22 milljónum manna. Eyjan er ekki nema tæplega sex sinnum stærri en Ísland.

 

Lemúrar leika aðalhlutverkið í stórkostlegri þáttaröð í þremur hlutum frá BBC um lífríkið á Madagaskar. David Attenborough var sögumaður í þáttunum en þeir voru frumsýndir árið 2011.

Lemúrar búa hvergi annars staðar en á Madagaskar ef frá eru talin þau dýr er lifa í dýragörðum og rannsóknarstöðvum í heiminum.

 

Madagaskar var hluti af ofurálfunni Gondwanalandi í fyrndinni. Í darraðadansi jarðflekanna brotnaði sú mikla álfa upp og tvístraðist í allar áttir. Madagaskar einangraðist sem eyja fyrir um 88 milljónum ára.

 

Vegna einangrunarinnar þróaðist eitt sérstæðasta lífríki heims á eyjunni en 90 prósent tegundanna í Madagaskar lifa hvergi annars staðar. Líffræðilegur fjölbreytileiki er gífurlega mikill á eyjunni en hún telst til heitra reitra (biodiversity hotspot) í þeim efnum, líkt og til dæmis Mið-Ameríka, regnskógar Brasilíu, Indónesía og strendur Miðjarðarhafsins.

 

Madagaskar var ein síðasta landspilda jarðar sem numin var af mönnum en landnám mannsins þar hófst ekki fyrr en í kringum Krists burð þegar fámennir hópar manna frá Borneó í Indónesíu sigldu alla leið þangað á kanóum.

 

Um árið 1000, á sama tíma og kristnitakan varð á Íslandi, bættist við mikill fjöldi innflytjenda af þjóðflokki Bantúa sem sigldu yfir Mósambíksund.

 

Árið 1993 var íbúafjöldi í Madagaskar um 10 til 12 milljónir. Manntal árið 2011 ber vitni um gífurlega fjölgun manna á eyjunni, þeir telja nú rúmlega 22 milljónir. Þessi mikli fjöldi manna hefur stuðlað að síauknu skógarhöggi og átroðslu á viðkvæm svæði þar sem lemúrar og aðrar lífverur þurfa einfaldlega að víkja og deyja.

 

Lífverurnar á Madagaskar eru nokkurs konar Róbinson Krúsó-karakterar í sögu lífsins á jörðinni, algjörlega einangraðir strandaglópar sem hafa þurft að fara eigin leiðir.

 

Lemúrar er ætt um 100 dýra­teg­unda af ýmsum stærðum og gerðum. Þær eru nú allar taldar í útrýmingarhættu. Að minnsta kosti 17 tegundir lemúra hafa orðið útdauðar síðan menn námu land á Madagaskar. Þær voru allar stærri að vexti en eftirlifandi lemúrategundir.

 

Vitaskuld reyna margir að beita sér fyrir verndun lemúra. Hægt er að lesa sér til um það hjá eftirtöldum samtökum:

Lemur Conservation Foundation 

Conservation International

WWF

 

Nokkrar tegundir lemúra sem eru í bráðri hættu

 

 

Alatroa-bambuslemúrinn (Hapalemur alaotrensis) er einnig þekktur sem bandró. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta tegund bambuslemúra sem býr í nágrenni Alatroa-vatns, stærsta stöðuvatns á Madagaskar. Ólíkt öðrum bambuslemúrum borða þessi ekki bambus, heldur reyrstilka sem vaxa við vatnið. Þeir geta því einungis búið á um 100 ferkílómetra svæði af votlendi við Alatroa-vatns. Mennskir íbúar í nágrenni vatnins líta hinsvegar einnig hýru auga til votlendisins og breyta því í hrísgrjónaakra sem ógnar afkomu lemúranna. Samkvæmt mati frá árinu 2002 voru um 2500 Alatroa-bambuslemúrar eftir og fór þeim óðum fækkandi.

 

 

 

Bláeygði lemúrinn (Eulemur flavifrons) er tegund af brúnlemúrum og einn af afar fáum prímötum sem geta haft blá augu. Bláeygðu lemúrarnir búa í frumskógum á afar afmörkuðu svæði á norðvesturhluta Madagaskar. Skógarhögg ógnar tilvist þeirra, og einnig kemur fyrir að manneskjur veiði þá sér til matar eða til að hafa sem gæludýr.

 

 

Svarthvíti kragalemúrinn (Varecia variegata) er óumdeilanlega með glæsilegustu lemúrategundunum. Þeir eru líka þeir Vídjóhávaðasömustu’));“>

. Þeir búa í regnskógum á austurhluta Madagaskar og kunna best við sig uppi í trjám. Ólíkt flestum lemúrum eignast þeir ekki aðeins einn unga í einu, oftast tvo eða þrjá, og byggja fyrir þá sérstök hreiður. Skógarhögg og sviðuræktun ógna tilvist þeirra, og kjöt þeirra þykir einnig sérstakt lostæti. IUCN áætlar að svarthvítum kragalemúrum hafi fækkað um 80% síðustu þrjá áratugi.

 

 

Einar mestu sorgarfregnir af IUCN-ráðstefnunni í ár er að indrinn (indri indri) sé í bráðri útrýmingarhættu. Indrar eru stærsta lemúrategundin. Þeir eru goðsagnakenndar verur og í madagaskri þjóðtrú er fjöldi sagna um indra sem bjarga mönnum sem týnast í skóginum og indra sem breytast í menn eða öfugt. Að veiða indra hefur vegna þessa verið mjög illa séð á Madagaskar, en það hefur breyst undanfarin ár og feldur þeirra og kjöt er nú mjög eftirsótt.