Eyjarskeggjar eins og Íslendingar eru með innbyggt kerfi í líkamanum sem lætur þá sperra eyrun í hvert skipti sem nafn litla landsins þeirra ber á góma í veröldinni. Kerfið fór í gang hjá mér fyrir skemmstu þegar ég sat fyrir framan sjónvarpið mitt og flakkaði á milli stöðva á kaplinum.
Ég lenti á stöð þar sem bíómynd var að byrja og kynnirinn sagði: „Nú hefst bíómynd um ísöld sem hefst í Bandaríkjunum eftir að eldfjall á Íslandi gýs.“ Eðlisávísunin sagði til sín og ég límdist við skjáinn.
Ýmsar Íslandstengdar kvikmyndaminningar komu í hugann. Árið 1997 sá ég stórmyndina epísku Volcano sem fjallar um eldgos í Los Angeles. Eftir mikinn æsing datt gatnamálafræðingnum Tommy Lee Jones snjallræði í hug: „Let’s do what they did in Iceland!“ og skipaði svo slökkviliðinu að sprauta vatni á logandi kvikuna – rétt eins og í Vestmannaeyjum forðum daga.
Bíógestirnir í Regnboganum klöppuðu tryllingslega og æptu í sæluvímu þjóðernisstoltsins – sem er ekki óvenjulegt fyrir Ísland nema vegna þess við klöppum helst aldrei í bíó.
En myndin sem ég sá núna heitir 2012: Ice Age.
„2012 – var það ekki stórslysamyndin kolklikkaða með John Cusack?“ hugsaði ég. „Og New York í klakaböndum – þetta minnir allsvakalega á Day After Tomorrow eftir sama leikstjóra, Roland Emmerich.“
Ég var gjörsamlega ruglaður í ríminu. Fletti myndinni upp á IMDb. Einkunn 2,3. Það var og. Líklega versta einkunn sem ég hef séð á hinum alvitra kvikmyndagagnagrunni.
Söguþráðurinn: Eftir mikið eldgos á Íslandi hefur heill jökull fengið vængi og flýgur á ógnarhraða í átt til Bandaríkjanna. Ísöldin nálgast og New York breytist í frystikistu sem sómakær fjölskylda þarf að komast upp úr sem fyrst.
Var þetta brandari? Grín á kostnað hinna mörgu hallærislegu stórslysamynda sem framleiddar eru á færibandi í Hollywood? Nei, 2012: Ice Age kemur úr smiðju kvikmyndaversins The Asylum sem framleiðir B-myndir sem rata beint á vídeóleigur og í sjónvarp.
Vistfræðilegur sess The Asylum í frumskógum Hollywood er að búa til myndir sem svipar mjög til stórmynda (blockbusters). Til dæmis sendi verið frá sér myndina The Da Vinci Treasure árið 2006. Sama ár kom náttúrulega út blokkbösterinn The Da Vinci Code.
Jafnvel þó myndir The Asylum séu ömurlegar græðir fyrirtækið á gistilífi (eða sníkjulífi eftir atvikum) við stórmyndina og fær tekjur þegar saklaust fólk leigir myndir þeirra óvart í stað stórmyndarinnar sem það ætlaði að sjá. Þetta fyrirbæri hefur verið nefnt „mockbusters“ í bandarísku pressunni, gervistórmyndir.
Af öðrum myndum The Asylum má nefna Snakes on a Train, Pirates of Treasure Island, The Terminators og hina ótrúlegu Titanic 2.