Sumarið 1925 kom til Íslands þýskt gufuskip á skemmtireisu um norðurhjara með 400 farþega. Um borð var merkur þýskur ljósmyndari og myndir hans úr Íslandsferðinni eru geymdar á þjóðskjalasafni Þýskalands.
Gufuskipið SS München kom til Reykjavíkur þann 21. júlí 1925. Ísland var fyrsti viðkomustaður á rúmlega mánaðarlangri skemmtiferð. Skipið sigldi svo í kringum landið, og hafði viðkomu á Jan Mayen, Svalbarða og í Norður-Noregi áður en komið var aftur til Þýskalands þann 12. ágúst.
Farþegar skipsins voru fjögur hundruð og samkvæmt frétt Vísis um komu skipsins voru meðal þeirra „meðlimir Íslandsvinafélagsins þýska, þar á meðal framkvæmdastj. hinnar nýstofnuðu Berlínardeildar félagsins, hr. kaupmaður Emil Deckert.“ Einnig var um borð ljósmyndarinn Richard Fleischhut sem tók ljósmyndirnar sem hér birtast.
SS München hafði tveggja daga dvöl á Ísland. Fyrri daginn skoðuðu skipverjar sig um í Reykjavík, fylgdust með glímu á Austurvelli, og hlýddu síðan á skemmtidagskrá í Nýja Bíó þar sem karlakór og flokkur kvenna í þjóðbúningum söng. Síðari daginn var svo farið til Þingvalla.