„LEIÐARVÍSIR ÍSAFOLDAR

18. Við fótakulda.

Einu sinni voru tveir menn á ferð saman. Þeir komu að kvöldi á gistingastað og fóru að þvo sjer um hendurnar. Þá segir annar þeirra:

 

„Það er nú reyndar mesta heimska og óþarfi, að vera sí og æ að þvo sjer um hendurnar; aldrei þvær maður sjer um fæturna“.

 

Ýkjur eru nú það, að maður þvoi sjer aldrei um fæturnar; en hitt er vist, að fótaþvottur er langt of lítið tíðkaður. Það mun þykja gott, ef menn þvo sjer um fætur einu sinni í viku; sumir gera það ekki nema 1—2 á ári eða aldrei.

 

Það vill til, að þeir sem stunda útivinnu, verða opt og- tíðum votir i fætur hinseginn.

 

Að þvo sjer sjaldan eða aldrei um fætur, er bæði mesti óþrifnaður og óhollusta.

 

Í stígvjelum eru fæturnir inni klemmdir og í loptleysu að kalla má; en það er mjög óholt fyrir alla parta líkamans, ef eigi kemst hæfileg loptbreyting að hörundinu.

 

Þess vegna eru ullarföt, svo holl; ullin er svo gljúp, að loptið kemst svo liðugt gegn um hana.

 

Að sama skapi og af sömu orsök eru skinnföt eða skinnklæði óholl.

 

Vilji maður fara vel með fæturna á sjer og einkanlega verjast fótakulda og fótraka, þá á maður að þvo sjer um fæturna á hverju kvöldi úr köldu vatni og nudda þá vel; það hreinsar burtu ryk og svita, er safnazt hefir fyrir liðlangan daginn, og þá fær loptið greiðan gang að loptsmugunum í hörundinu.

 

Í öðru lagí á maður að hafa sokkaskipti á hverjum degi, viðra sokkana, sem maður fer úr, úti (eða í hjalli) allan daginn úthverfa, og dusta úr þeim, og má svo fara í þá aptur daginn eptir. Með því móti haldast sokkarnir furðulengi hreinir, og er þetta miklu betra en að vera allt af að þvo þá, því þá hættir þeim svo við að hlaupa.

 

— Loks á maður aldrei að vera í sömu skóm eða stígvjelum úti og inni.

 

Þessar reglur mun flestum duga, ef rækilega er eptir þeim farið.“

 

-Ísafold, janúar 1889.

 

Í blaðinu voru einnig leiðbeiningar um góða sjónhirðu:

 

19.

Til að varðveita góða sjón þarf að varast að lesa þreyttur eða veikur (t. d. í apturbata); birtuna á að bera að hliðinni, en hvorki framan að nje aptan; maður á aldrei að lesa liggjandi; mjög óvarlegt er líka að lesa nema við allgóða birtu, þó að maður þykist sjá til í hálfdimmu.

 

Rúsínan í pylsuendanum var svo þessi brandari:

 

„Hitt og þetta.

SVO SEGIR HÚN ALLT HITT!

 

Kunningjar tveir kvæntir höfðu verið í samdrykkju seint um kvöld og urðu samferða heim á leið.

 

Annar fer að inna eitthvað eptir því við hinn, nokkuð svona áhyggjufullur, hvað hann segi við konuna sína, þegar hann komi svona seint heim.

 

„Jeg segi bara gott kvöld“, svarar hann, „svo segir hún allt hitt“.“

 

Krókódílslöppina myndaði MyAngelG (CC).