Þegar Hollendingur að nafni André Kuipers lagði af stað í ferðalag tók hann með sér myndavél, eins og við gerum flest, og setti svo ferðamyndirnar á netið, eins og nú er orðið alvanalegt.
Einn höfuðmunur er þó á okkur flestum og André Kuipers — hann er geimfari að atvinnu, og ferð hans var heitið um borð í Alþjóðlegu geimstöðina, 380 kílómetra yfir yfirborði jarðar. Myndir hans eru því teknar úr sjónarhorni nokkuð ólíku því sem við jarðarbúar tökum okkar túristamyndir.
Myndirnar sýna meðal annars ljósadýrð Nílardalsins, mynstur í söndum Sahara-eyðimerkurinnar, lofsteinagíga og snæviþakt hrjósturlendi á norðurhjara. Þær eru teknar á síðustu fjórum mánuðum, Kuipers fór út í geim í lok desember og mun snúa aftur niður á Jörðina í júní næstkomandi.
Skoðið einnig myndir hans innan úr geimstöðinni, af daglegu lífi geimfaranna sem þar búa: Geimostur og aðrar skyndimyndir af daglegu lífi á sportbaug um Jörðu.
Hér að ofan er Richat-myndunin í Máritaníu, sem er talið hafa orðið til vegna veðrunar. Hún er oft kölluð „auga Sahara“ og er eftirlæti geimfara sem sjá undrið úr geimnum.