Bítskáldið Jack Kerouac var fæddur hinn 12. mars 1922 í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum og lést aðeins 47 ára gamall í Flórída árið 1969.
Hann ólst upp á frönskumælandi heimili og lærði ekki ensku fyrr en um sex ára aldur.
Kerouac var einn af forsprökkum bítskáldanna sem stunduðu tilraunastarfsemi í skáldskap um miðja síðustu öld, nokkurs konar jazztónlist í orðum þar sem spuni var mikið notaður.
Hann skrifaði frægustu skáldsögu sína, hina sjálfsævisögulegu On the Road á þremur vikum í apríl 1951, en hún fjallar um ferðalag Sal Paradise og Dean Moriarty um Bandaríkin. Brasilíski leikstjórinn Walter Salles hefur kvikmyndað bókina og er myndin væntanleg á þessu ári.
Hér fyrir ofan sjáum við heimildarmynd um skáldið, sem heitir Jack Kerouac: King of the Beats, og er frá 1985. Leikstjóri er John Antonelli og sögumaður leikarinn Peter Coyote. Rætt er við ýmsa vini og samtíðarmenn Kerouacs, þar á meðal skáldbræður hans, Allen Ginsberg og William Burroughs.
Via Open Culture.