Mahlzeit er með pizzur á heilanum. Í færslu dagsins ræsum við Delorean-bifreiðina og ferðumst til ársins 1984, nánar tiltekið á síður Tímans – málgagns Framsóknarflokksins. Undir lok Þorrans, eða þann 15. febrúar, birtist í blaðinu metnaðarfull umfjöllun um pizzugerð. Sannast þar með að hinir þjóðlegu meðlimir Framsóknar hafa ekki slegið höndinni á móti framandi réttum frá suðrinu, mögulega búnir að fá nóg af súrmeti í þetta skipti. Hver veit?

 

Í öllu falli má finna fjölmargar útfærslur af pizzum í þessari umfjöllun (skrifuð af þeim B.St. og K.L.) og eru margar þeirra einkar forvitnilegar. Greinilegt er að hin byltingakennda sósa, Pizza Pronto, var ekki enn komin á markað – því eina sósan sem er notuð er einfaldlega tómatpúra – þykk, óblönduð og gómsæt. Reyndar er rétt að taka fram, fyrir yngri lesendur, að tómatpúra á pizzur þótti ekkert nema sjálfsagt langt fram á 10. áratuginn. Ef púruna vantaði var gripið til Libby’s tómatsósu, sem þá var einungis til í glerflöskum og svo þykk að enginn mannlegur kraftur gat kreist út síðasta desilítra flöskunnar.

 

 

Eins og áður segir eru margar útfærslurnar forvitnilegar, og í raun alls ekki frumstæðar. Tillaga númer tvö, Sveppa-lauk pizza, sýnir í raun mikla frumkvöðlahugsun. Í uppskriftinni má finna sinnep, medisterpylsu og blaðlauk – eitthvað sem fæstum myndi detta í hug að setja á pizzur nú til dags.

 

 

Þá má sjá að Tíminn var farinn að stinga upp á Focaccia-brauði til neyslu, en kalla það reyndar öðru nafni; Ólífupizza.

 

 

 

Flatbaka eða pizza

Nokkrum vikum eftir þessa metnaðarfullu umfjöllun um pizzur fengu höfundarnir skömm í hattinn. Í mars 1984 var Eiður Svanberg Guðnason reyndar þingmaður Vesturlands fyrir Alþýðuflokkinn og Molaskrif í fjarlægri framtíð. Gísli Kristjánsson hjá Morgunblaðinu var hins vegar ekki á þingi, heldur sá hann um þáttinn „Orð í belg um íslenskt mál.“ Hann hikaði ekki við að skammast í B.St. og K.L. enda hafði íslensk málnefnd samþykkt hið eina rétta og sanna heiti hins ítalska lostætis, flatbaka skal það vera!