Þegar Aéro-Club de France tilkynnti um 10,000 franka verðlaun fyrir hönnun á fallhlíf sem myndi ekki vega meira en 25 kíló, var austurrísk-ættaði klæðskerinn Franz Reichelt eflaust ansi vongóður um möguleika sína. Hann hafði þegar hannað frumgerð að fallhlíf sem hann hafði prufukeyrt með því að henda dúkku fram af svölum á fimmtu hæð hússins þar sem hann bjó.

Vandamálið fólst í því að þegar hann lagaði hönnun sína að raunverulegum aðstæðum flugmanna vó fullgerð fallhlífin heil 70 kíló. Hann hafði þegar kynnt forstöðumönnum Aéro-Club de France fyrir hönnun sinni, en þeir ráðlögðu honum eindregið frá frekari þróun fallhlífarinnar, vegna þess að hún væri allt of veikbyggð. Þrátt fyrir það hélt Reichelt ótrauður áfram og að lokum hafði hann hannað fallhlíf sem var ekki nema um 9 kíló að þyngd.

Aftur á móti virkaði fallhlífin ekki sem skyldi, dúkkurnar skullu hver á fætur annarri niður á gangstéttina fyrir utan heimili Reichelts, nágrönnum hans eflaust til mikillar skemmtunar. Að lokum komst Reichelt að þeirri niðurstöðu að fallhlífin þyrfti meiri tíma til að opnast og til þess yrði fallið að vera úr meiri hæð. Hann sótti því um leyfi til þess að framkvæma tilraun í Eiffel turninum, sem var loks veitt að því gefnu að dúkkur yrðu notaðar.

Margmennt var við fætur Eiffel turnsins þann 4. febrúar árið 1912 þegar bíl Reichelts lagði að, enda hafði fréttin um fallhlífatilraunina spurst út. Þangað voru einnig komnir fulltrúar allra helstu dagblaða Frakklands, enda vildi enginn missa af þessari nýstárlegu tilraun. Öllum brá þó heldur betur í brún þegar Reichelt birtist dúkkulaus, og sjálfur klæddur í fallhlífabúninginn. Þrátt fyrir áhyggjur fjölskyldu og vina og fortölur starfsfólks Eiffel-turnsins lét Reichelt ekki segjast, enda var hann með opinbert leyfi upp á gjörninginn. „Ég vil framkvæma tilraunina á sjálfum mér, án þess að nokkur brögð séu í tafli – til þess að sýna fram á virði uppfinningar minnar“.

Klæðskeranum fífldjarfa varð ekki haggað og að lokum gafst forstöðumaður turnsins upp. Reichelt kom sér fyrir á brúninni og hikaði í um 40 sekúndur áður en hann stökk.

Vídjó

Viðstöddum til mikillar skelfingar hrapaði hann lóðrétt niður eins og steinn, án þess að fallhlífin gerði nokkuð gagn. Hauskúpa, hendur og fætur hans mölbrotnuðu við fallið, auk þess að hann hryggbrotnaði. Lögregluþjónar og blaðamenn þustu að líflausum líkama Reichelt. Samkvæmt frásögn dagblaðsins Le Figaro voru augu hans enn opin – sjáöldrin útþanin af skelfingu.

Í dag er Franz Reichelt helst minnst sem tragí-kómískrar erkitýpu hins fífldjarfa ofurhuga sem blindast af ofsatrú á sjálfum sér og fer sér að voða á ótrúlegan hátt. Það er þó kaldhæðni örlaganna að þegar Reichelt lést var þegar búið að sækja um einkaleyfi fyrir fallhlíf í Bandaríkjunum, sem síðar átti eftir að vera notuð á farsælan hátt í fyrri heimsstyrjöldinni.