Fyrsta handboltalið Fram í kvennaflokki. Myndin er tekin á Akranesi árið 1944 eftir 7-0 tap gegn Skagastúlkum.

 

Borgarskjalasafn Reykjavíkur er mikill fróðleiksbrunnur. Það annast ekki bara skjalavörslu fyrir yfirvöld í Reykjavík heldur safnar það einnig ýmsum bréfum og ljósmyndum úr einkasöfnum er tengjast sögu höfuðborgarinnar og íbúum hennar. Lemúrinn rakst á þessa ljósmynd á Facebook-síðu safnsins. Eftirfarandi texti fylgir myndinni þar:

 

„Hér hafði liðið verið að keppa á Skaganum árið 1944 og unnu Skagastúlkur með sjö mörkum gegn engu. Á myndinni eru frá vinstri: Karl Guðmundsson þjálfari, Guðný Þórðardóttir, Helga Eiríksdóttir, Guðbjörg Óskarsdóttir, Hjördís Guðmundsdóttir (nú Nielsen), Ragna Böðvarsdóttir, Ingibjörg Eiríksdóttir, Rebekka St. Magnúsdóttir og Þráinn Sigurðsson formaður Fram.

 

Borist hafa nánari upplýsingar frá Hjördísi Nielsen:

 

„Við töpuðum þessum leik og fórum heim med rófuna milli lappana á skipinu Laxfossi sem fór á milli Akranesar og Reykjavíkur (Laxfoss sem strandaði seinna). Stóra stelpan til hægri er Rebekka Ásgeirsdóttir, alltaf kölluð Stella Stalín því maður hennar var mikill kommúnisti.

 

Vinstri við hana er Ingibjörg Eiriksdóttir kölluð Bíbí. Næsta man ég ekki, svo er ég (Hjördis Guðmundsdóttir nú Nielsen) i miðjunni, alltaf kölluð Dísa. Vinstri við mig man ég ekki alveg, en gæti verið Dídí ?? Vinstra megin við hana er Helga Eiríksdóttir systir Bíbíar. Vinstra megin við Helgu er Guðný (?), gift formanni Fram sem stendur yst til hægri.

 

Yst til vinstri er þjálfari okkar en ég man ekki nafnið hans. Stella, Helga, Bíbí og ég vorum bestu vinkonur og vorum yfirleitt saman.“

 

Nafnalisti er leiðréttur skv. upplýsingum frá Hjördís og Stefáni Pálssyni. Ef einhver hefur frekari upplýsingar sem tengjast myndunum væri skemmtilegt að fá þær sendar.“