Skoska stofnunin RCAHMS fann nýlega í skókassa í Edinborg nær tvö hundruð ómetanlegar ljósmyndir á viðkvæmum glerplötum. Þær voru allar teknar í Indlandi fyrir um hundrað árum síðan, þegar það mikla ríki var nýlenda Breta.

 

Þar sem myndirnar fundust ekki fyrr en nýlega er enn óljóst hvar margar þeirra voru teknar og hvert fólkið er sem prýðir þær.

 

Fáni bresku nýlendunnar á Indlandi.

Ljósmyndir sem þessar gefa nútímamönnum tækifæri til að ímynda sér lífið á þessum stöðum fyrir hundrað árum síðan. Lemúrinn hefur áður fjallað um svipaðan ljósmyndafund, þó þessi sem hér birtist sé miklu stærri.

 

British Raj – það var nafnið á hinu geysilega víðáttumikla nýlenduveldi Breta á Indlandi, Pakistan, Bangladesh og Búrma frá 1858 til 1947.

 

Eftir því sem áratugarnir líða og nýjar kynslóðir spretta upp verður þessi tími alltaf fjarlægari og óskiljanlegri. Hvernig gat fólk frá litlu eyríki í Evrópu stjórnað hundruðum milljóna manna um allan heim?

 

Árið 1922 voru íbúar Breska heimsveldisins 458 milljónir, sem var einn fimmti mannkyns á þeim tíma. Flatarmál veldisins var rúmlega 33,7 milljón ferkílómetrar, tæplega fjórðungur af öllu landrými jarðar.