Porfirio Rubirosa, ríkiserindreki frá Dóminíska lýðveldinu, er ekki meðal sögufrægustu manna 20. aldar. Í dag er hann sennilega þekktastur innan matar-og drykkjarmenningar en það mun væntanlega verið það síðasta sem hann bjóst við sjálfur.
Því er vafalaust að þakka karlrembum eins og Ian Fleming, sem var mikill aðdáandi Rubirosa. Talið er að sú hlið James Bond sem snýr að viðhorfi persónunnar til kvenna sé einmitt byggð á Rubirosa. Þessi mikli flagari átti sér einnig uppáhaldsdrykk, vodka-martini vitaskuld, og bætti hann alltaf við pöntun sína, að hann vildi fá drykkinn ,,hristan, ekki hrærðan.“
Þá hefur sú flökkusaga löngum gengið að Rubirosa hafi verið einn besti elskhugi allra tíma, en auk þess var hann víst heppinn með lögun og stærð manndóms síns. Margir kannast til að mynda við risapiparstauka sem eru oft brúkaðir á veitingastöðum. Í París eru slíkir staukar enn þann dag í dag kallaðir ,,Rubirosas,“ til heiðurs þessum 20. aldar Casanova – sem bjó lengst af í París á sinni fullorðinsævi.