Kínverskur matur hefur notið mikilla vinsælda á Íslandi á undanförnum áratugum. Hvort þær vinsældir megi rekja til heimsóknar herra Ding, og umfjöllunar Agnesar Bragadóttur um þá heimsókn, skal hins vegar ósagt látið.
Það var í öllu falli á haustmánuðum ársins 1983 sem „matreiðslusnillingurinn Ding“ kom til Íslands, bæði til að elda fyrir gesti Esjubergs – en jafnframt til að halda matreiðslunámskeið í kínverskri matarlist.
Þá skrifaði fréttahaukurinn Agnes Bragadóttir fyrir Tímann, flokksrit Framsóknarflokksins. Þar sá hún um vikulegan þátt; „Eldhúskrókinn,“ þar sem birtust matartengdar greinar í fylgiblaði sunnudagsútgáfu Tímans. Agnes ræddi við Ding, fyrir réttum 28 árum, sem sagði um íslensku nemendur sína:
Þeir hafa verið mjög námfúsir og duglegir, enda held ég að þeir vilji endilega fá nokkuð góða hugmynd um það hvernig á að matreiða kínverskan mat, á kínverskan hátt, en úr íslensku hráefni og við íslenskar aðstæður auðvitað. Þið eldið til dæmis á rafmagnseldavélum, en í Kína er yfirleitt eldað við gasloga.
Ding var svo vænn að gefa Agnesi, og lesendum Tímans, uppskrift að rækjurétti sem hefur væntanlega talist einkar framandi árið 1983.
Að lokum má svo sjá þetta myndskeið af Agnesi Bragadóttur, þar sem hún kynnir til leiks stórsöngvarann Herbert Guðmundsson í sjónvarpsþætti árið 1986.