Kairó, höfuðborg Egyptalands, er risavaxin stórborg þar sem hátt í tuttugu milljón manns heyja daglega sína lífsbaráttu. Í kjölfarið safnast upp mikið rusl, og sorðhirðumennirnir sem keyra um götur Kairó á ruslabílum sínum ráða ekki við nema rúman helming af öllu ruslinu.
Þrátt fyrir það helst borgin sæmilega snyrtileg. Um restina af ruslinu, hinn helminginn, sjá Zabbaleen. Zabbaleen (‘ruslafólkið’) er einskonar þjóðflokkur sorphirðufólks, sem kynslóðum saman hefur séð um að hreinsa upp ruslið eftir aðra Kairóbúa. Og með betri árangri en venjulega sorphirðuþjónustan.
Zabbaleen eru rúmlega 60-70.000 manns í allt. Bækistöðvar þeirra eru nokkur hverfi í fátækustu bygðum Kairóborgar — það stærsta við rætur Mokattamfjalls í suðausturhluta Kairó. Þar búa 20.000 Zabbaleen í hverfi sem kallað er ‘Ruslaborgin’ í höfuðið á íbúunum. Þar flokka þau ruslið, endurvinna, og búa svo að segja innanum ruslflóðið. Yfirleitt eru það karlarnir sem sjá um að þræða götur Kairó á ösnum eða trukkum og safna ruslapokum af heimilum. Svo þegar heim er komið taka konurnar við og flokka. Og loks svínin.
Zabbaleen eru kristnir Koptar og finnst, ólíkt múslímunum sem skipa stærstan hluta íbúa Kairó, ekkert athugavert við að halda svín. Svínin slafra í sig allt lífræna ruslið.
Ólífræna ruslið er selt áfram, eða endurunnið. ‘Ruslafólkið’ hefur komið sér upp flóknu og afkastamiklu endurvinnslukerfi miðað við aðstæður. Þau geta sjálf endurunnið pappír, plast og jafnvel ál og búið til úr því muni sem þau síðan selja.
Svona tekst þeim að endurvinna meira en 80% af öllu rusli sem þau safna. Það er miklu hærra hlutfall en þekkist jafnvel meðal ríkustu og endurvinnsluglöðustu þjóða á Vesturlöndum.
Zabbaleen sáu lengi um alla sorphirðu Kairó — ‘venjulegir’ sorphirðumenn komu ekki til sögunnar fyrr en 1980.
Í myndbandinu hér að neðan er meðal annars viðtal við konu sem berst fyrir mannréttindum Zabbaleena. Hún varar fólk við því að ‘rómantísera’ starf þeirra. Vissulega sé merkilegt og aðdáunarvert hversu vel þeim tekst að nýta rusl annarra. En árangurinn sé dýrkeyptur. Lífsbaráttan er hörð, fordómar miklir og engum er hollt að eyða ævinni innan um fjöll af úrgangi.