Ríkisfréttastofa Sádi-Arabíu birti nýlega þessa mynd af konungi landsins og bræðrum hans. Hér má sjá einhverja valdamestu menn í þessu forríka og íhaldsama konungsríki.

 

Stofnandi og fyrsti konungur Sádi-Arabíu, Abdul Aziz bin Saud, átti óteljandi syni. Saud lést árið 1953 en synirnir skrimta enn og fara saman með öll völd í ríkinu. Þessi mynd er tekin þann 19. október síðastliðinn, þegar Abdullah konungur var að ná sér eftir aðgerð á baki. Auðvitað komu bræður hans að vitja hans á sjúkrabeðinu — hver öðrum hressari.

 

Abdullah konungur er fæddur árið 1924 og því 87 ára. Hann hefur setið á konungsstól síðan 2005. Honum á vinstri hönd er elstur eftirlifandi sona Sauds, Bandar bin Abdul Aziz, 88 ára. Hann þykir einrænn og vildi ekki setjast sjálfur á konungsstól, en er þó mjög áhrifamikill milli ‘yngri’ bræðra sinna.

 

Mishaal bin Abdul Aziz prins er 85 ára, og forseti ‘Hollusturáðsins’ sem sér um að velja nýja krónprinsa úr sonahópnum þegar einhver fellur frá. Slíkt er ekki óvænt þegar meðalaldur prinsanna er svo svimandi hár — nú fyrir tveimur vikum féll krónprinsinn Sultan frá, án þess að hafa fengið að setjast á konungsstól. Hann var 81 árs.

 

Í hjólastólnum situr hinn áttræði Mutaib bin Abdul Aziz, sem gegnt hefur ýmsums valda- og ráðherrastöðum í konungsríkinu, en býr nú í Bandaríkjunum — hann á eina hæð í skýjakljúfi Donalds Trumps í Manhattan.

 

Loks lengst til hægri er unglambið í hópnum, hinn nýkrýndi krónprins og innanríkisráðherra Nayef bin Abdul Aziz. Hann er 78 ára, með sykursýki og beinþynningu en þó hinn hressasti í þessum föngulega hóp.

 

Athygli vekur að þrátt fyrir háan aldur eru prinsarnir allir með kolbikasvart hár og skegg.