Aswan-stíflan á Níl var verkfræðilegt stórvirki sem færði Egyptalandi óneitanlega aukna velsæld. Áratugalangri smíði stíflunnar lauk árið 1970, og uppistöðulónið var nefnt eftir leiðtoganum mikla sem fyrirskipaði byggingu stíflunnar: Nasser-vatn. Það er enn meðal stærstu manngerðu vötnum á jörðinni og þekur 5.250 ferkílómetra — svipað og Norður-Þingeyjarsýsla, eða sextíu Þingvallavötn.

 

Landið sem fór undir vatn var ættjörð Núbíumanna, þjóðar sem búið hefur á þessum slóðum í þúsundir ára. Tugir þorpa voru á svæðinu og allir íbúar þeirra voru neyddir til að flytja. Alls voru rúmlega 120.000 Núbíumenn reknir af heimilum sínum og komið fyrir í sértilgerðum þorpum báðu megin við landamæri Egyptalands og Súdan.

 

Fólki var smalað upp í stóra báta og farið með þau út í óvissuna. Nýju þorpin sem höfðu verið sérstaklega smíðuð fyrir flóttafólkið voru lengst út í eyðimörkinni, tugum kílómetra frá næstu vatnsuppsprettu. Núbíumenn voru vanir að búa á hinum frjósömu bökkum Nílar og rækta döðlur. Fjöldi fólks dó úr vannæringu eftir flutningana. Fólki var skikkað niður í þorp án tillits til fjölskyldutengsla.

 

Núbíumönnum smalað upp í báta.

 

Formaður hins egypska Menningararfsfélags Núbíumanna, Sharaf Abdel Karim, hafði þetta að segja við dagblaðið Al-Masry Al-Youm í tilefni fimmtíu ára afmælis stíflunnar í fyrra:

 

„Við vorum flutt úr paradís á Nílarbökkum. Þeir fjársjóðir eru nú allir sokknir. Auk þess að missa land okkar misstum við menningararf okkar, gildi, minningar, lífsmáta og umfram allt nánd okkar við vatnið, uppsprettu lífsins.“

 

Stórbrotið landslag við aðrar flúðir Nílar. Þær eru nú á botni Nasser-vatns.

 

„Sex mánuðum síðar fórum við heim til þess að sjá hvað hefði gerst. Vatnið hafði stigið og þakti heimili okkar, pálmatrén, moskurnar. Allt var hálfsokkið. Það var sorglegasta sjón lífs míns.“

 

Þar að auki voru á svæðinu fjöldi ómetanlegra fornminja um menningu bæði Núbíumanna og Forn-Egypta. Því allra mikilvægasta var bjargað — meðal annars voru risastóru faróastytturnar við Abu Simbel-hofin voru bútaðar niður og fluttar. Annað var fært að gjöf löndum sem hjálpuð til við stíflusmíðina — núbísk hof er nú að finna á söfnum í New York, Amsterdam og Torino, og í almenningsgarði í Madrid. Restin var látin sökkva.

 

Faróarnir í Abu Simbel forða sér undan vatnsflæminu.

 

Hluti Núbíu var nú þegar á vatnsbotni. Bretar höfðu fyrstir byggt stíflu við Aswan, upp úr aldamótum 1900. Sú stífla var miklu minni í smíðum og reyndist illa. Þeim var auk þess nokkuð sama þótt að fornminjar væri í vegi uppistöðulónsins. Hið fræga Philae-hof stóð hálft upp úr lóninu. Því var síðan bjargað við byggingu seinni stíflunnar, og fært á eyju í Níl þar sem það stendur nú. En fimmtíu ár undir vatni höfðu þá unnið ómetanlegar skemmdir á hofinu.

 

Philae-hofið hálfsokkið í vatn eftir byggingu fyrstu Aswan-stíflunnar.

Vídjó

Gamlar myndir af Núbíu, Aswan og nágrenni fyrir byggingu stíflunnar miklu, við tónlist Núbíumannsins Hamza el Din.