Vídjó

Lloyd Kelly: Hvernig drepur maður vél?

Dennis Holvig: Vél? Hún er of þung til að hægt sé að hengja hana og of stór fyrir gasklefann.

 

Sjónvarpsmyndin Killdozer kom út árið 1974. Hún fjallaði um byggingaverkamenn á lítilli eyju úti fyrir ströndum Afríku sem reisa flugbraut.

 

Líf þeirra tekur miklum stakkaskiptum þegar loftsteinn lendir skyndilega á eyjunni. Verkstjórinn skoðar loftsteininn sem gefur frá sér furðulegt rop. Þegar jarðýta er notuð til þess að reyna að færa loftsteininn til birtist blátt ljós sem flýgur inn í vinnutækið.

 

Eftir það er jarðýtan andsetin af kvalasjúkum geimverum. Ýtan brýtur allt og bramlar og reynir að murka lífið úr vesalings byggingaverkamönnunum. Hugmyndina um geimveruandsetnu jarðýtuna átti vísindaskáldið Theodore Sturgeon en hann skrifaði smásögu um hana árið 1944.