Austurríski rithöfundurinn Stefan Zweig þurfti að flýja Evrópu á fjórða áratugnum vegna ofsókna nasista, en hann var gyðingur. Zweig settist að í Brasilíu og framdi sjálfsmorð þar ásamt konu sinni – eins og rakið er hér.
Hann heillaðist af Brasilíu og sendi árið 1941 frá sér bókina Brasilía – Land framtíðarinnar, sem vakti mikla athygli, enda var Zweig einn frægasti rithöfundur heims á þeim tíma.
Tímaritið Frjáls verslun birti kafla úr þessari bók árið 1944. Í honum fjallar Zweig um töfradrykkinn kaffi sem Brasilíumenn framleiða í gríðarmiklum mæli. „Hvar sem komið var, var ilmur þess jafn indæll, sterkur og fjörgandi, þessi svarti eldur örvaði skilningarvitin og skerpti hugsunina,“ skrifar hann um kaffið í ótrúlega fróðlegri og auðlesinni frásögn sinni.
Suðrið gróf upp þetta tölublað af tímaritinu og birtir kafla Stefans Zweig hér í heild sinni:
Í HEIMSÓKN HJÁ KAFFI KONUNGI
eftir Stefan Zweig
Einn af hinum mörgu vingjarnlegu siðum þessa gestrisna lands er sá, að sjálfsagt þykir að bjóða hverjum gesti, sem að garði ber, kaffi, á hvaða tíma dags sem hann kemur — ljúffengt, svart kaffi í litlum bollum.
Það er ekki drukkið á sama hátt og í Evrópu — eða réttara sagt það er alls ekki drukkið, heldur er því skolað niður í einum sopa eins og sterkum, áfengum drykk. Og það er mjög heitt, svo heitt, að hundur myndi hlaupa ýlfrandi burtu, ef fáeinir dropar af því lækju ofan á hann, eins og Brazilíumenn segja.
Erfitt mun að gera sér í hugarlund, hve marga slíka kaffibolla Brazilíumaður drekkur til jafnaðar á dag. Ég get þess til, að það séu milli tíu og tuttugu. Og jafn erfitt er að segja um, í hvaða borg það sé ljúffengast.
Í sérhverjum bæ er það fullyrt með hómerskri ákefð, að þar sé kaffitilbúningur fullkomnari og betri en nokkurs staðar annars.
Ég hef drukkið það með hlutlausu hugarfari og ánægju í litlu kaffihúsunum í Ríó, þar sem bollinn kostar tvö hundruð reis (óendanlega lítið fé miðað við verðlag í Norður-Ameríku), ég hef drukkið það í sjálfri heimaborg kaffisins, Santos, og meira að segja í Instituto do Café í Sao Paulo, þar sem tilbúningur þess er orðinn að hálfgildings vísindum og þar sem ég var leystur út með poka af kaffi, er ég horfði á, hvernig það var lagað, og auk þess kaffivél, svo að ég gæti æft mig í þessari list sjálfur.
Hvar sem komið var, var ilmur þess jafn indæll, sterkur og fjörgandi, þessi svarti eldur örvaði skilningarvitin og skerpti hugsunina. Kaffi konungur væri hið rétta nafn á þessum svarta burgeis, sem enn ræður ríkjum fjárhagslega í þessu geysistóra landi og stjórnar frá höfninni í Santos mörkuðum og viðskiptum um allan heim að meira eða minna leyti.
Af hinum tuttugu til þrjátíu milljón sekkjum, sem notaðir eru árlega í heiminum, koma þrettán milljónir af ökrunum í Brazilíu og er flutt út frá Santos. Í raun réttri eru þessar perlugráu baunir eiginlega mynt og gjaldeyrir landsins. Brazilía greiðir með kaffi allar þær vörur, er inn þarf að flytja — einkum olíu, en einnig vélar og annað tækni viðkomandi.
Þess vegna var verðlag kaffis hinn sanni mælikvarði á fjárhag Brazilíu í heila öld. Þegar kaffið hækkaði í verði, blómgaðist allt landið. En bæri svo til, að verðið lækkaði, brenndi stjórnin hinn óselda hluta framleiðslunnar eða fleygði í sjóinn.
Í heila öld hefur kaffið táknað hér gull og auðlegð, gróða og áhættu. Verzlunarjöfnuður alls landsins byggðist á verðgildi þessarar vöru og sveiflum þess. Sum ár var það ekki myntgengi landsins, sem ákvarðaði verðlagið á kaffinu, heldur verðið á kaffinu, sem ákvarðaði gengið.
Kaffið, þessi fjármálaburgeis Brazilíu, er upphaflega innflytjandi, eins og margir aðrir í þessu landi, sem nú eru ríkir. Hið eiginlega heimaland kaffisins er Arabía, Mokka-landið.
Og sagan segir, að dag nokkurn hafi fjárhirðar þar í landi tekið eftir því, að geitur þeirra fjörguðust stórlega, er þær höfðu kroppað baunirnar á runnum nokkrum. Þeir reyndu brátt baunirnar á sjálfum sér og komust að raun um, að þær höfðu sérstök áhrif á þá í þá átt að eyða þreytutilfinningu án þess að hafa nokkur skaðleg áhrif á heilsu þeirra.
Þess vegna kölluðu þeir löginn af þessum dýrmætu baunum „k’hawah“ (af „kaheja“, sem þýðir svefnvörn). Arabar fluttu Tyrkjum þennan örvandi kraftdrykk. Þegar Tyrkir sátu um Vínarborg, tóku Austurríkismenn heila kaffisekki herfangi, og hinn brúni drykkur komst í tízku um alla Evrópu — um stundarsakir eftir því sem sú góða madame de Sévigné gerði ranglega ráð fyrir, er hún sagði um Racine, sem henni hafði sinnast við: „Cela passera comme le café„.
En kaffið varð varanlegt (og það varð Racine líka), og það fluttist til frönsku nýlendnanna, til Guiana, þar sem plönturnar og fræsins var vandlega gætt sem verzlunarleyndarmáls.
Fyrir þúsund árum földu Kínverjar á sama hátt hráefnið í silki, kokoon, fyrir öllum útlendingum og lögðu dauðarefsingu við útflutningi þess — þar til tveim munkum tókst að smygla einu kokoon til Evrópu í holum pílagrímsstaf.
Sömuleiðis fékk landstjórinn í Cayenne ströng fyrirmæli um að leyfa ekki neinum útlendingi aðgang að ekrunum. En til allrar hamingju fyrir Brazilíu átti landstjóri þessi konu, sem á eða eftir veikleikastund gaf portúgalska liðsforingjanum Francesco de Melho Palheto nokkra runna og rætur árið 1727.
Þannig var hinum brúna innflytjanda smyglað inn í Brazilíu. Og eins og allir aðrir innflytjendur kunni hann brátt vel við sig í hinu nýja heimkynni. Í fyrstu settist hann að norðan til í landinu, á svæðinu meðfram Amasón og Maranhao í nábýli við frændur sína sykurinn og tóbakið. Því að án félagsskapar þessara frænda fær kaffið aldrei notið sín til fulls.
Kringum 1770 fer kaffið að færa sig suður á bóginn til héraðsins umhverfis Ríó de Janeiró. Umhverfis Tijuca-hæðirnar, þar sem skýjakljúfar keppa nú um landrýmið við sveitahallir, sölsar hann undir sig akrana og lætur þúsundir þræla annast um sig. Þó getur hann ekki enn fyllilega fellt sig við loftslagið.
Loks leggur hann undir sig allt héraðið Sao Paulo, og eftir þúsund ára flakk færir hann þaðan út heimsveldi sitt um allar jarðir. Að austurlenzkum hætti hneigist hann æ meir til harðstjórnar.
Frá konunglegu hásæti sínu í Sao Paulo kúgar hann undir sig allt atvinnulíf Brazilíu. Hinar glæsilegustu vöruskemmur eru reistar honum til dýrðar. Hann stjórnar skipum heimsins, segir fyrir um verðgildi peninga, knýr landið út í glæfralega spákaupmennsku og hættulegar kreppur, drekkir jafnvel sínum eigin börnum — þúsundum sekkja á þúsundir ofan — í sjónum, einungis af því, að heimurinn vill ekki greiða honum fullan skatt.
Ég taldi mér skylt að ganga á fund svo voldugs herra, og því fremur, að hann hefur svo oft létt undir með mér við vinnu mína og aukið óteljandi sinnum á ánægju mína í mannlegum félagsskap. Ef heimsækja skal þennan herra og konung nú á dögum í ríki hans, verður auðvitað að halda lengra inn í landið en hingað til.
Upphaflega, þegar Portúgalsmaðurinn frá Cayenne flutti kaffið vestur um haf — Heinrich Eduard Jacob hefur sagt skemmtilega frá þessu æfintýralega flakki um heiminn — voru ekrurnar í námunda við ströndina. Dalirnir umhverfis Santos og sumir fallegu skrautgarðarnir í Tijuca, skammt utan við Ríó de Janeiro, voru kaffiekrur í hundruð ára. Svertingjar báru sekkina á bakinu beint af ökrunum út í skipin.
En er jarðvegurinn hafði alið í áratugi og aldir milljarða og aftur milljarða af þessum töfrabaunum, tók hann að þreytast, baunirnar urðu smærri og töpuðu styrkleik og ilm.
Kaffirunnur lifir hér um bil áttatíu ár í sömu mold, um það bil nákvæmlega eina öldurmannsævi. Ekrurnar voru því færðar lengra og lengra inn í landið, því að Brazilíu hefur aldrei vantað ósnortna mold. Fyrst voru þær færðar frá Santos til Sao Paulo, þar sem hin frjósama rauða mold framleiðir fjórum sinnum meira en í Ríó, og síðan frá Sao Paulo til Campinas og þannig alltaf lengra og lengra inn í landið . . .
Jæja, við skulum halda af stað út á landsbyggðina, þangað sem kaffi konungur hefur aðsetur sitt nú á dögum. Við leggjum upp með næturlest frá Ríó í tuttugu klukkustunda ferð til Sao Paulo. Þaðan eigum við enn þriggja stunda ferð til Campinas, hinnar gömlu jesúítanýlendu.
Þá þurfum við aðeins að fá okkur bifreið og erum komin inn í mitt kaffilandið og loks að einum búgarðinum — facenda. Facenda eða hacienda — hvernig stendur á því, að maður kannast svo vel við þetta orð?
Hvernig stendur á því, að það hljómar svo undarlega rómantískt og kunnuglega og hvers vegna vekur það upp svo sterkar og löngu gleymdar minningar?
En allt í einu man maður, hvernig í því liggur. Ekkert festir eins rætur með manni og það, sem maður les með áfergju í æsku. Hversu skýr var myndin, sem ímyndunarafl bernskunnar brá upp af þessum facendas í Brazilíu og Argentínu: Þessum litlu bóndabæjum, umluktum hávöxnum og þéttum hitabeltisgróðri, þessum endalausu gresjum, öllu þessu annarlega landi, sem fóstraði hættur og ótrúlegustu æfintýri!
Hve mann hafði langað á þeim árum til að mega sjá og reyna þetta allt saman aðeins einu sinni! Og nú var maður kominn þangað!
En í stað þess að þeysa heim að bænum á f jörugum gæðingi er nú ekið í bifreið eftir blómstrandi trjágöngum heim á hlaðið. En allt er annars nákvæmlega eins og það var á myndunum í gömlu barnabókunum úr löngu liðinni bernsku: bóndabærinn, hið flata, einlyfta hús með breiðu, skuggsælu sólbyrgi á alla vegu og sett í hina geysivíðáttumiklu landareign miðja. Og þarna skammt frá því standa hús verkamannanna umhverfis lítið torg. Þá minnist maður þess allt í einu úr bókunum — og það eru, þegar að er gáð, ekki nema fimmtíu ár síðan — að það var hér, sem þrælarnir bjuggu, sátu á kvöldin á torginu og sungu þunglyndisleg ljóð sín.
Kannske man einhver gráhærði svertinginn, sem nú gengur hér um rólegur og ánægður á svip, ennþá eftir þeim dögum. En um leið og maður gengur inn í hið gestrisna hús, hleypur klukka heimsins þegar í stað fram til nútímans. Þó að gamla panelloftið sé óbreytt og fallegu, gömlu húsgögnin úr hinum dýra og harða jacaranda-viði, silfurskálarnar og heimilisölturin, allt sé ræktarsamlega varðveitt f rá dögum portúgölsku innflytjendanna, þá eru þessir bóndabæir ekki lengur einmanalegir og afskekktir staðir eins og fyrrum, er þangað komu aðeins stöku sinnum ferðalangar í svaðilförum.
Nú á dögum eru þetta vistleg, nýtízku sveitasetur með öllum þægindum — sundlaug, leikvöllum, útvarpi, grammófón og bókum (og meðal þeirra finn ég nokkrar eftir sjálfan mig — um það gleymdir þú, ungi maður, að láta þig dreyma!). í stað hættunnar, sem allsstaðar lá fyrrum í leyni, ríkir hér nú glaðværð og vingjarnleiki, því að öld tækninnar hefur gert hitabeltið jafnt sem hina eyðilegustu afkima heims byggilegt.
Sjálfar ekrurnar breiðast á alla vegu út frá bænum um skóglausar, öldóttar hæðir, og hver bær liggur eins og eyja í þessu víðáttumikla, græna hafi. En þessi grænka er í rauninni einkar tilbreytingalaus. Og því er ekki að neita, að kaffi- og sérstaklega teekrur — ég minnist þeirra frá Ceylon — eru ákaflega þreytandi.
Kaffirunnarnir, allir jafn háir og breiðir og með sama kalda, græna litnum, eru gróðursettir með nákvæmlega jöfnu millibili, svo að þeir minna helzt á hermannaröð í blaðgrænum búningum, sem stefnir út að sjóndeildarhringnum án gleði, litaskrauts og hljómfalls.
Augað verður brátt þreytt. á að horfa á þessar sléttleitu, grænu hæðir, og maður verður feginn að rekast á bananaekru, þar sem trén minna þó með hinum ólögulegu klösum sínum á tilbreytingu og sérkennileik, og eru ekki eins þreytandi sviplaus.
En gildi þessara runna er ekki fólgið í fegurð þeirra, heldur í því, sem þeir framleiða, og hver þeirra gefur að minnsta kosti af sér ein tvö þúsund ber á ári (það er aðeins ein uppskera á ári á þessum vel ræktuðu ekrum).
Og þar sem oft eru hundruð þúsund slíkir runnar á einni landareign, fær maður hugmynd um hinn undraverða leyndardóm þessarar djúpu, dökku moldar, sem getur fyllt slíka ótrúlega mergð til síðustu baunar með safa og sætleik. Sjálf tínslan er eins einföld og hugsast getur.
Á þessu sviði hefur vélin brugðist í því að leggja nokkuð af mörkum, sem komið gæti í staðinn fyrir mannshöndina. Berin eru tínd af runnunum með fingrum tínslumannanna alveg eins og fyrir hundrað árum. Og hinir tilbreytingalausu söngvar, sem fylgja þessari tilbreytingalausu vinnu, eru sennilega þeir sömu, sem svörtu þrælarnir sungu.
Og síðan er baununum hlaðið á hestvagna og bifreiðar, eins og þær væru sandur, og þeim ekið heim að bænum. Þar er kaffi konungi sýnd nokkur ófrávíkjanleg virðingarmerki, t. d. þau, að baunirnar eru þvegnar og síðan þurrkaðar í sterku sólskini. Að því búnu er hýðið loks losað utan af þeim með þar til gerðri vél, og hinum afhýddu, þvegnu baunum er nú hellt gegnum sáldir og pípur í poka.
Með þessu er verkið (eða virðist vera) á enda. Það er ekkert rómantísk iðja, ekkert ólíkt því að afhýða og þurrka matbaunir. Og það var aðeins eitt, sem ég undraðist við alla þessa starfsemi á ökrunum, í bænum og hreinsunarstöðinni, og það var það, að hvergi fannst þar nokkur vottur af kaffiilm. Ég hafði alltaf verið sannfærður um, að þegar maður gengi um akur með þúsund kaffírunnum, myndi maður finna ilminn af þessum hinum ilmríkasta allra drykkja, ljúfa angan, sem legði upp af öllum þessum ökrum, einhvern ilm, eins og reyndar leggur af öllum kornökrum og skógum.
En svo undarlega sem það kann að virðast er kaffibaunin algerlega anganlaus. Hún felur þrjóskulega allan ilm í innsta kjarna sínum. Öll hin leyndardómsfullu sölt, olíur og kryddefni, sem taka að ilma svo unaðslega strax og búið er að brenna baunina, láta ekkert á sér bæra fram að því.
Það má vaða upp í ökla í kaffibaunum í vöruskemmunum og finna þó ekki fremur kaffiilm en maður væri að vaða sand. Maður gæti gengið um einn af þessum búgörðum án þess að geta um það sagt, hvort öll þessi knippi eru heldur kaffi, baðmull eða kakaó. Fyrir þann, sem hafði látið sig dreyma um sæta, seiðandi angan, voru það nokkur vonbrigði að sjá, að allar þessar þúsundir af sekkjum, sem höfðu að geyma hinn dásamlega taugafjörgjafa, lágu þarna í hlöðum eins og sementspokar.
Öðru sinni varð ég undrandi, er ég kom aftur til Santos, hinnar miklu útflutningshafnar Brazilíu. Ég hafði buist við, að allri verkun baunanna væri lokið, er þær voru settar í pokana. En ég uppgötvaði, að í hinum stóru verzlunarhúsum er allt verkið unnið upp að nýju, því að ekki vilja allir í heiminum sama kaffið.
Alveg eins og sjá má í hinum miklu sláturhúsum í Argentínu, hvernig kjötið er flokkað á útflutningsstaðnum samkvæmt mismunandi smekk hinna ýmsu landa, feitt kjöt greint frá mögru, stórir nautaskrokkar frá smáum, þannig verður að taka hverja kaffibaun úr poka sínum aftur í Santos, þessum glóandi bakarofni við hafið.
Aftur er þeim hrúgað í hauga. Síðan sogast þær gegnum pípu, mynda stöðugan straum, sem rennur upp og niður gegnum rennur og sáldir, sem aðgreina stórar baunir og smáar. Við rennurnar standa konur og vinsa úr ónýtar baunir eða skemmdar með fimum, brúnum höndum.
Þannig eru hinir formlausu haugar aðgreindir eftir gæðum. Hver kaffitegund fær sínar umbúðir og sitt tegundarheiti. Sjálfvirkir mælar og vogir láta nákvæmlega 50 kg af hinni sömu kaffitegund í hvern poka, sem þegar hefur fengið númer sitt og nafn. Og meðan hinir fullu en opnu pokar eru færðir burt á bandi, taka aðrar vélar við og binda fyrir þá. Þá loks, eftir alla þessa haglegu og sjálfvirku aðgreiningu, er kaffið tilbúið að leggja af stað með skipunum, sem bíða eftir því, í hina löngu ferð sína til allra landa heims. En jafnvel þennan síðasta spöl frá vöruskemmunum til skips fer flutningurinn fram með óvenjulegum hætti.
Nú er gamla lagið lagt niður, að lyfta. sekk eftir sekk upp á bakið á sólbrenndum burðarmanni, sem ber hann síðan eftir landgöngupallinum upp á þilfarið. Og ekki eru heldur eins og í öðrum höfnum notaðir hegrar, sem lyfta vörunum í fallega boga frá vöruskemmunni út í skipið. Það er notuð eins konar stálbrú á teinum, sem rennt er upp að skipshliðinni og og stillt þannig, að hun sé jafnhá þilfarinu.
Á þessari brú er komið fyrir keðjupumpu, rennandi borða, sem flytur sekkina (á stórum þægilegri hátt en farþegana)beint innan úr vöruskemmunum á skipsfjöl.
Það er heillandi að horfa á þessa hljóðlausu, vélrænu skriðhreyfingu. Eins og kindahópur, sem rekinn er eftir mjórri götu, renna hvítir sekkirnir hér hver á eftir öðrum klukkustund eftir klukkustund, fyrst upp frá vöruskemm- unum og síðan ofan að skipinu — og þá fer maður að gera sér grein fyrir því, hvílíkt ógnar vörumagn eitt skip getur gleipt og siglt með í langferð. Og þegar maður sér skip eftir skip bíða hér á hverjum degi, fer mann að gruna, hvílík kynstur það eru, sem hið kaffidrekkandi mannkyn eyðir á hverri klukkustund.
Loks er hið óseðjanlega skip fullt. Eimpípa blæs, titrandi skriðborðinn nemur staðar, og tveir eða þrír sekkir halda áfram á kastinu og fylgja hægt á eftir hinum. Þá kveður við hinn skerandi eimpípublástur. Vélarnar fara drynjandi af stað, og maður mjakast hægt frá kaffiströndinni. Fáein hús glampa enn í sólskininu, fáeinir grannir pálmar hneigja höfuð sín. En með hverri mínútu fjarlægist hin glitrandi grænka hitabeltisins æ meir. Brátt eru hæðirnar ekki annað en dimmir, óljósir skuggar. Og andartaki síðar er jafnvel þessi hinzta kveðja frá ríki kaffisins horfin sýn.
Allt er um garð gengið, ekkert eftir nema minning!
En þegar ég er aftur kominn heim og sit yfir bolla af þessum ljúffenga drykk, sem fjörgar bezt allra okkar „mildu“ drykkja, minnir angandi ilmur hans mig aftur á allt, sem ég hef séð — hitabeltissólina, sem leggur hinn leyndardómsfulla eld í innsta kjarnann, hið hvíta ljós, sem lætur allt blómgast og gróa, hvern flóa, hvert tré í þessu framandi landi, sem knýr mann til draumlyndis, meðan maður er þar, og vekur manni heimþrá í fjarskanum — þrá eftir þeim heimi, þar sem náttúran er enn frjáls, máttug og óþrotleg sköpun.