Vídjó

Ísraelska sjónvarpsstöðin Channel 2 gramsaði í skjalasafni ísraelska hersins og fann þar þessa „fræðslumynd“ sem herinn lét framleiða árið 1951. Í myndinni segir frá ungliðum hersins sem hafa það hlutverk að taka á móti nýjum innflytjendum, hjálpa þeim að aðlagast samfélagi og menningu hins nýja ríkis og gera þá að tryggum hermönnum þess.

 

Ungliðarnir voru af evrópsku bergi brotnir líkt og langflestir fyrstu íbúa Ísraels. Innflytjendurnir nýju voru hinsvegar að koma frá Arabalöndunum. Eftir stofnun Ísraelsríkis 1948 fór af stað gríðarmikill fólksflótti arabískra Gyðinga, sem voru skyndilega ofsóttir eða reknir úr löndunum þar sem þeir höfðu búið öldum saman. Hundruðir þúsunda Gyðinga frá Írak, Marokkó, Jemen og fleiri löndum flæddu inn í Ísrael og íbúafjöldi landsins tvöfaldaðist á örfáum árum.

 

Tjaldbúðir fyrir flóttamenn og aðra innflytjendur í Ísrael, 1949

 

Myndin sýnir svart á hvítu rasismann sem beindist gegn hinum hörundsdekkri austurlensku Gyðingum í Ísrael. Viðfangsefni myndarinnar er Saadia, ungur drengur nýkominn frá Jemen. Þulurinn lýsir Saadia sem einhverskonar dýri. „Saadia lifir í vanþekkingu og óhreinindum, fjarri ljósinu.“

 

Tjaldbúðirnar þar sem Saadia og fjölskylda hans hefst við eru dimmar, skítugar og ógeðslegar. Þau borða með höndunum eins og skepnur og deila kvöldmatarborðinu með geitunum sínum. Börnin eru ómenntuð, stjórnlaus „villihjörð“, reykja eins og strompar og eru barin á hverju kvöldi. Svo skítug eru þau að ungliðarnir þurfa að klæðast gasgrímum sprauta þau hátt og lágt með einhverskonar hreinsiefni.

 

Ashkenazi-stúlkan Ruthie fær það hlutverk að fara inn í „myrkan heim“ innflytjendanna sem fulltrúi hins „uppljómaða heims“ og „færa Saadia ljósið“. Þema myndarinnar, sem þulurinn tönglast ítrekað á, er munurinn myrkri og ljósi — og myrkrið er austræn menning innflytjendanna, og ljósið hið siðmenntaða ríki sem hinir ljósleitu Ashkenazíar hafa skapað í Ísrael.