Hátt uppi í Andesfjöllunum í Perú eru byggðir sárfátækra kotbænda af indíánaættum. Þetta er fólk sem býr á jaðri þjóðfélagsins, ekki bara landfræðilega heldur líka félagslega og efnahagslega.
Miklir þurrkar á undanförnum árum hafa gert bændum á þessum slóðum skráveifu. Hlýnun jarðar er alvarlegt vandamál fyrir fólkið í fjöllunum og því er mikilvægt fyrir það að reyna að láta rödd sína heyrast til að þrýsta á að stjórnvöld í Perú geri nauðsynlegar ráðstafanir.
En það er oft erfitt að smala fólki saman til að skiptast á skoðunum og hugmyndum. Það gildir sér í lagi um konurnar í fjallahéruðunum sem oft skortir vettvang til að hittast.
Í þessari mynd sem við sjáum hér að ofan – og sýnd var á fréttastöðinni Al Jazeera – er rætt við nokkrar hugrakkar konur af indíánakyni sem stofnuðu fótboltalið.
„Við urðum fyrstar til að skipuleggja einhverja starfsemi fyrir konurnar hér. Við vorum þær fyrstu sem fóru að spila fótbolta. Enginn hafði ímyndað sér að við gætum þetta. En konurnar komu allar til að spila og hafa ekki hætt síðan,“ segir Juana, ein af stofnendum fótboltaliðsins.
Fótboltinn gerði konunum loksins kleift að benda umheiminum á þarfir og neyð samfélagsins þeirra.
Eftir fótboltaleikina setjast konurnar á rökstóla og ræða um sameiginleg vandamál sín og hugsanlegar lausnir.
Eins og kemur fram í myndinni voru fjallahéruð þessi eitt sinn mikil matarkista og jörðin gat framfleytt stórum samfélögum indíána. En nú hafa þurrkarnir gjörbreytt aðstæðum. Juana og fjölskyldan hennar rækta maís og kartöflur en loftslagsbreytingarnar eyðileggja búskapinn.
Margir kotbændur í Andesfjöllunum lifa lágt undir fátækramörkum. Sextíu prósent þeirra búa við feikilegan skort og hafa ekki aðgang að vatni og heilbrigðisþjónustu.