Þýski kvikmyndaleikstjórinn Werner Herzog gerði árið 2000 stutta heimildarmynd um ættbálk í regnskógum Amasón sem uppgötvaðist árið 1981. Hún ber nafnið Tíu þúsund árum eldri. Myndin er tíu mínútna löng og var hluti kvikmyndinnar Tíu mínútum eldri sem var safn fimmtán stuttra mynda sem saman mynduðu eina heild. Allir kaflarnir fjölluðu um áhrif tímans í lífi manna.

 

Framlag Werners Herzog fjallaði um Uru Eus-fólkið hafði lifað á sínum bletti djúpt í frumskógum Amasón um aldir án þess að nútímasamfélag Brasilíu yrði þess vart. Það viðhélt því ævafornum venjum sínum og lifnaðarháttum, lifði á landinu og notaði svipaðar aðferðir og steinaldarmenn við veiðar og matargerð algjörlega óvitandi af því að nærri tvö hundruð milljónir manna byggju í nútímavædda „landinu“ þeirra. Í byrjun myndarinnar sjáum við myndir af því þegar fólkið birtist í fyrsta skipti.

 

Uppgötvun ættbálksins var söguleg, því það eru ekki margir þjóðflokkar eftir í heiminum sem umheimurinn veit ekki af.  Í dag hafa menn skráð og kortlagt líf og störf flestallra hópana í hinum gríðarstóru frumskógum Amasón. Skógarhögg hefur valdið mörgum íbúum frumskóganna miklum búsifjum. Brasilíustjórn heldur nú úti stofnunum sem sjá um að vernda þá hópa sem enn lifa í Amasón og hjálpa þeim við að aðlagast nútímaþjóðfélaginu. „Það eru engir óþekktir staðir til lengur og ekkert óþekkt fólk lengur til á þessari jörð,“ segir Herzog í upphafi myndarinnar.

 

Þegar menn fóru að nema land í frumskóginum, nálægt heimkynnum Uru Eus-fólksins, var óhjákvæmilegt að hulunni yrði loksins svipt af því. Eftir menn höfðu fyrst fengið veður af indíánunum voru kvikmyndagerðarmenn sendir ásamt útsendurum Indíánasamtaka Brasilíu sem fóru í könnunarleiðangur inn í frumskóginn til að hitta ættbálkinn óþekkta.

 

Leiðangursmenn finna yfirgefinn áningarstað í frumskóginum og skilja eftir gjafir til að merkis um góðan ásetning þeirra. Skyndilega komast þeir hins vegar að því að þeir eru umkringdir indíánunum sem munda vopn sín. En síðar ná aðkomumennirnir að ræða við indíánanna.

 

Stuttermabolir og derhúfur
En þessi fyrstu kynni ættbálksins af umheiminum var fyrsti kaflinn í skelfilegri sögu. Indíánarnir féllu úr smitsjúkdómum og gekk illa að aðlagast samfélaginu.

 

Tuttugu árum síðar ferðaðist Werner Herzog inn í frumskóginn í leit að fólkinu í fylgd kvikmyndagerðarmanns sem fór í fyrsta leiðangurinn.

 

Þeir finna höfðingja ættbálksins sem um árabil hefur þjáðst vegna berkla. Uru Eus fólkið hefur, líkt og Herzog lýsir, ferðast tíu þúsund ár fram í tímann, til hins svokallaða nútíma. Það klæðist stuttermabolum og derhúfum og hefur kynnst sjónvörpum, bílum og stórborgum.

 

Krakkarnir, afkomendurnir, skammast sín fyrir að vera komnir af „villimönnum“. Þeir vilja bara flytja til stórborgarinnar og verða að nútímaþegnum í Brasilíu.