Þessi grein fjallar um rústir einstakrar byggingar í skoskri sveit, Prestaskóla Péturs Postula (e. St. Peter’s Seminary). Út af fyrir sig eru rústirnar stórmerkilegar, og áhugaverðar einvörðungu frá sjónarhóli arkitektúrs, en þegar betur er að gáð leynast áhugaverðar staðreyndir á bak við sögu þeirra sem varpa ljósi á þróun trúarbragða í nútímanum og hlutverk borgarskipulags þegar kemur að velferð íbúa.
Prestaskólinn er ekki gamall en hefur grotnað niður undan náttúruöflunum í um hálfa öld. Byggingin var reist á sjöunda áratugnum og er meðal fárra bygginga á Bretlandseyjum sem reistar voru á eftirstríðsárum og njóta hæsta stig verndunar. Til þess að skilja hvernig fyrir byggingunni er svona komið þarf að spyrja margvíslegra spurninga um trúarbrögð og sögu.
Veraldarhyggja mætti vera meira í umræðunni
Á Vesturlöndum hefur dregið stöðugt úr umfangi og mikilvægi skipulagðra trúarbragða á undanförnum áratugum. Samkvæmt Hagstofunni hefur hlutfall Íslendinga í Þjóðkirkjunni fækkað á síðastliðnum tveimur áratugum úr 86,5% (1998) í 63%. Þetta gerist samhliða því að meðalaldur hækkar og innflytjendum fjölgar.
Svipaðu sögu er að segja frá Danmörku þar sem hlutfall Dana í dönsku þjóðkirkjunni hefur minnkað úr 85,8% (1998) og í 74,3% (2020) . Í Skotlandi er aðra sögu að segja. Á einum áratug hefur hlutfall þeirra sem segjast ekki tilheyra neinum trúarbrögðum fjölgað úr 40% í 56% á sama tíma og þeim sem segjast tilheyra Skosku þjóðkirkjunni hefur fækkað um 14%, úr 34% (2009) í 20% (2018).
Kaþólikkum á Íslandi hefur hins vegar hríðfjölgað, þeir hafa ríflega þrefaldast, úr því að vera rúmlega þrjú þúsund (1998) og í að vera rúmlega 14 þúsund (2020). Það er mögulega til komið vegna hás hlutfalls kaþólikka meðal pólskra innflytjenda.
Mikill meirihluti Íra eru og hafa verið kaþólikkar (yfir 78% árið 2016). Átakalínurnar sem skiptu Írlandi í tvennt voru í grófum dráttum þær að íbúar Ulster-héraðs Norður-Írlands voru flestir mótmælendatrúar og hlynntir ríkjasambandi við England/Bretland en íbúar annars staðar á Írlandi voru kaþólskir sjálfstæðissinnar.
Kaþólikkar i Skotlandi eru mestmegnis að uppruna til írskir innflytjendur úr verkamannastétt. Um 14% Skosku þjóðarinnar eru kaþólikkar.
Gerið svo vel að muna 5. nóvember
En hver var staða kaþólsku kirkjunnar í Skotlandi?
Þann 5. nóvember ár hvert fagna Bretar því að tekist hafi að hrinda samsæri nokkurra aðalsmanna um að ráða af dögum Jakob 6. Skotakonung og breska þingmenn í byrjun 17. aldar með því að sprengja í loft upp breska þinghúsið.
Í grein í Skírni frá 1928 útskýrir Guðbrandur Jónsson hvernig „æskulýðurinn [fer] um götur Lundúna með mynd af Guy Fawkes úr hálmi og druslum. Er hún síðan brennd og sungið um leið„:
Please to remember The fifth of November Gunpowder treason and plot. I see no reason, Why gunpowder treason Should ever be forgot. (Gerið svo vel að muna 5. nóvember og púðursvikin og samsærið. Ég sé enga ástæðu til að púðursvikin falli nokkurn tíma í gleymsku).
Guðbrandur heldur áfram: „Það er ekki skáldskapur í þessu, en hitt, að þessum hryllilega glæp er snúið upp í gáska og götuglens, er talandi vottur þeirrar hugarfarsbreytingar, er orðið hefir hjá öllum lýði, að latneska setningin »nulla salus extra ecclesia« — utan kirkjunnar engin sáluhjálp — hefir orðið að víkja fyrir íslenzka málshættinum »hver er sæll í sinni trú«„.
Hvað var það við þetta samsæri sem ekki mátti falla í gleymskunnar dá?
Fawkes var kaþólikki og Jakob mótmælendatrúar.
Bresku siðaskiptin á 17. öld lýstu sér í togstreitu á milli kaþólskra kirkjuyfirvalda í Róm og hópa mótmælendatrúar og náðu hápunkti í Dýrlegu byltingunni 1688. Fyrst um sinn snerust fagnaðarlætin 5. nóvember um sterka trúarlega sannfæringu, sáluhjálp einstaklinga. Mótmælendatrúar Lundúnabúar brenndu líkneski af kaþólska páfanum, æðsta yfirvaldi Rómarkirkju. Hvorki er vitað hvenær né hvers vegna tekið var upp á því að brenna líkneski af Guy Fawkes í stað páfans. Guy var þegar allt kemur til alls, ekki nema peð í samsærinu um að myrða Jakob 1. Fyrstu heimildir af því að brennd hafi verið líkneski af Guy eru frá lokum 18. aldar.
(Fyrir tilstilli Hollywood-bíómyndarinnar V for Vendetta (2005) hefur hlutverk Fawkes breyst, frá því að vera skúrkur og yfir í tákngerving andstöðu við kúgun yfirvalda.)
Syndsamleg hegðun séra MacMillans gagnvart giftri konu
Við höfum stuttlega farið yfir það hvernig dregur úr áhrifum skipulagðra trúarbragða og hvernig kaþólsk trú á sér umdeilda sögu í Bretlandi. En nú víkur sögunni til smábæjarins Cardross í Skotlandi sem er í um 45 mínútna akstursleið, norð-vestur frá Glasgow um miðja nítjándu öld.
Árið 1843 varð mikilvægur atburður í trúarlegri sögu Skotlands þegar skoska ríkiskirkjan klofnaði. Klofningur þessi snérist þó ekki um ágreining innan kirkjunnar, hann var til kominn vegna þess að frá 1711 máttu landeigendur lögum samkvæmt skipa presta í sóknir. Mörgum þótti slíkt vald efnafólks til afskipta innan kirkjunnar hneykslanlegt og mikil ögrun við sjálfan guð. Árið 1834 mótmæltu sóknarmeðlimir smábæjarins Auchterarder þessu óréttlæti með því að ganga fylktu liði úr kirkjunni. Klofningurinn 1843 varð þegar 450 prestar gengu úr ríkiskirkjunni og stofnuðu Fríkirkju Skotlands.
Árið 1859 var lögð fram kæra gegn John Macmillan, fríkirkjupresti Cardross, fyrir kirkjurétti í Dumbartonskíri, en kirkjuréttur er sérstakur dómstóll á vegum kirkjunnar. John var sakaður um að hafa verið drukkinn á almannafæri í tvígang og hafa auk þess haft uppi ósiðlegt háttalag við gifta konu á almannafæri undir áhrifum áfengis. Allt saman mjög hneykslanleg hegðun.
John var fundinn sekur að hluta til og sviptur hempunni, þ.e. hann var rekinn úr starfi sínu sem prestur. John unni ekki dóminum og áfrýjaði til æðra stigs kirkjuréttarins. Þegar áfrýjun Johns til kirkjuréttarins var hafnað áfrýjaði hann til almennra dómstóla. Hér var aftur kominn árekstur á milli hins veraldslega og hins andlega. Málið, sem varð þekkt sem Cardross-málið, vatt töluvert upp á sig. Ákvörðun Johns um að áfrýja til almenns dómstóls vakti mikla hneykslun. Með því mátti skilja að ríkisvaldið væri fríkirkjunni máttugra. Í predikun Séra Roberts Buchanan við Free College Church í Glasgow þann 18. nóvember 1860 sagði hann meðal annars eftirfarandi:
Sem fyrr, er trúarlegt frelsi kirkjunnar í húfi. Það frelsi felst í fullkominni undanþágu embættismanna hennar, í innri málefnum hennar og aga, frá hvers kyns fyrirmælum, eða afskiptum, frá öðrum en Jesús Kristi Drottni, eina Höfuð hennar og Konungur, sem talar til þeirra með Orðum Sínum, og leiðbeinir þeim með Anda Hans.
John átti ekki afturkvæmt í pontu fríkirkju Cardross. Málinu lyktaði með því að hinn almenni ríkisdómstóll og trúarlegur dómstóll kirkjunnar voru á öndverðum meiði.
Staðurinn Cardross hafði þar með áunnið sér hugrenningartengsl við veraldlega lesti, hroka og virðingarleysi gagnvart almáttugum og algóðum guð.
Glasgow eftirstríðsáranna
Tæpri öld síðar er sögusviðið Glasgow eftirstríðsáranna. Íbúafjöldi Glasgow hafði aukist jafnt og þétt fram að seinni heimsstyrjöld en töluverð félagsleg vandamál steðjuðu að.
Í Glasgow höfðu byggst upp fátækrahverfi í miðju borgarinnar eða slum, þar fóru saman þétt byggð lélegra húsa, fátækt, félagsleg vandamál á borð við ofbeldi og mikil áfengisdrykkja (ein þekktasta skoska skáldsagan No mean city gerist einmitt á millistríðsárunum í hinu alræmda Gorbals-hverfi). Helsta verkefni borgarstjórnarinnar var að móta borginni stefnu til framtíðar sem myndi leysa þessi vandamál.
Fyrsta skipulagsáætlun Glasgow var gefin út í mars 1945, nefnd Bruce-áætlunin og er kennd við helsta höfund hennar, verkfræðinginn Robert Bruce. Bruce sá fyrir yfirvofandi umbreytingu efnahagsins frá framleiðsluefnahag í þjónustuefnahag. Tillögur hans voru öfgakenndar, þær fólust í því að jafna við jörðu heilu hverfin, jafnvel sögufræg hús, og byggja ný hús og flytja íbúa í stórum stíl til nýrra úthverfa (hér má sjá bút úr BBC þátt þar sem fjallað er sérstaklega um áætlun Bruce).
Sem betur fer var ekki farið eftir hugmyndum Bruce í þaula en engu að síður var fólk flutt, ekki aðeins til úthverfa sem byggðust hratt upp heldur voru einnig heilu bæirnir byggðir. Meðal nýrra bæja Skotlands sem voru byggðir til þess að taka við íbúum Glasgow voru: Austur Kilbride (1947), Glenrothes (1948), Cumbernauld (1956), Livingston (1962) og Irvine (1964) (þessi stefna skipulagsmála hefur eftir á verið nefnd yfirflæðiskenningin).
Hér á eftir fylgir útdráttur úr heillandi frásögn eftir Angelu McRobbie, sem tilheyrði kaþólskri fjölskyldu, þar sem hún segir frá uppvaxtarárum sínum á sjöunda áratug síðustu aldar í Glasgow:
Foreldrar mínir voru meðvitaðir um fordóma nágranna sinna sem ekki voru kaþólskir og litu niður á þessar stóru og óstýrilátu fjölskyldur. Þetta var sambland af bæði stétt og trú. Við virtumst alltaf vera með fyrstu kaþólikkunum sem fluttu inn í mótmælendahverfi. Smám saman bættustu fleiri kaþólikkar í hverfið. Móðir mín veitti skólabúningunum fyrst athygli, og síðan sá hún þá í messu og upp frá því höfðu þeir áunnið sér að vera raunverulegir nágrannar okkar, ólíkt fólkinu sem bjó sitthvorum megin við okkur sem var alltaf einhvern veginn öðruvísi, þau voru fjarlæg, sama hversu kurteis og jafnvel vinaleg þau voru. Það var eins og við yrðum alltaf að sanna að við værum ekki eins og þau gætu ímyndað sér að við værum. Að hafa hávaða í húsinu og í garðinum, rífast og jafnvel bara að leika sér, þetta gæti gefið nágrönnunum tilefni til að kvarta einfaldlega vegna þess að þeim fannst nú þegar að við værum of mörg og ef við ættum vini og við hrópuðum öll og öskruðum og hlypum um, þá væri búið að trufla friðinn á rólegu og hljóðlátu götunum í Kelvindale. Þetta reitti föður minn til reiði sem sagði að það væri eðlilegt að börn léku sér og skemmtu sér og ættu vini. Hann og móðir mín litu á þessar fjölskyldur, sem aldrei þvoðu þvott á sunnudag, heldur héldu sig innandyra og lásu í Biblíunni og virtust hafa óaðfinnanleg, snyrtileg hús sem smáborgaralegar, húmorslausar og illgjarnar.
Einkennandi fyrir þetta tímabil og þennan stíl borgarskipulags í Glasgow eru hinar svokölluðu Rauðavegsblokkir sem voru reistar á sjötta áratugnum en hafa nú allar verið jafnaðar við jörðu.
Í dag er þessi stefna borgarskipulagsmála talin hafa verið mjög misráðin. Andlegar afleiðingar þess að búa í svo fjölmennum og háum byggingun eru taldar mannskemmandi. Þessi stefna er jafnvel talin hafa stuðlað að óútskýrðum lægri meðalaldri íbúa Glasgow, sem nefnd eru Glasgow-áhrifin, hvort sem borið er saman við aðrar borgir í Bretlandi eða Evrópu.
Á árunum 1951 og 1977 fækkaði í kirkjusóknum kaþólsku kirkjunnar í elsta hluta miðbæjar Glasgow úr 69.000 og í 13.000 (svipaða sögu er að segja frá miðbæjum annara skoskra borga en höfundur þekkir ekki orsakir þess). Kaþólikkar fluttust í ný hverfi og í nýja bæji.
Prestaskóli Péturs Postula byggður
Á sjötta áratugnum var hinsvegar góðæri hjá kaþólsku kirkjunni í Skotlandi. Kaþólska kirkjan réðist ekki aðeins í byggingu fjölda kirkja í þessum nýju úthverfum og bæjum sem verið var að byggja, heldur einnig í byggingu fjölda kaþólskra skóla. Í Skotlandi eru enn starfræktir kaþólskir (trúarlegir) skólar samhliða öðrum „óháðum“ (veraldlegum) skólum.
Til þess að manna kirkjurnar þurfti að mennta presta. Allt frá dögum Kirkjuþingsins í Trentó hafði tíðkast að mennta kaþólska presta í sérstökum skólum þar sem mikið var lagt upp úr einveru þeirra og einangrun frá veraldlegu samfélagi. Í anda þess móderníska byggingarstíls sem réði ríkjum og kenndur er við franska arkitektinn Le Corbusier var hafist handa við byggingu einstaks prestaskóla í útjaðri smábæjarins Cardross.
Bygging Prestaskólans tók fimm ár og var hann reistur á árunum 1961-1966. Þegar hann opnaði árið 1966 var það líklega á hápunkti bólunnar sem hafði gert kaþólsku kirkjunni í Skotlandi kleyft að byggja upp ríki innan ríkisins.
Stuttmyndin hér að neðan heitir Space and Light og er um tuttugu mínútur. Hún var gerð árið 1972 og sýnir daglegt líf í prestaskólanum á þeim tíma. Veitið einstöku smiðsverki og byggingarstíl hússins athygli. Það er einnig áhugavert að bera saman þessa ungu prestanema í byrjun áttunda áratugarins við viðskiptafræðinga og millistjórnendur Kaupþings banka árið 2007. Hvorir fyrir sig töldu sig þjóna ósýnilegu afli (hönd í tilfelli viðskiptafræðinganna) og að í þessu afli fælist æðri tilgangur. Sagan hefur hins vegar leitt í ljós að drifkrafturinn var aðeins áfergja, dramb og stærilæti.
Adam var ekki lengi í paradís. Á sama tíma og Prestaskóli Péturs Postula var í byggingu var haldið afdrifaríkt kirkjuþing í Vatíkaninu á árunum 1962-5. Slík kirkjuþing voru fátíð, þar á undan var slíkt síðast haldið einni öld fyrr. Annað Vatíkanþingið táknaði örvæntingarfulla naflaskoðun kaþólsku kirkjunnar andspænis frjálslyndum gildum samtímans. Tákn tímanna var frasi sem kenndur var við þessa þróun innan kirkjunnar.
Og hver voru tákn tímanna?
Mikil endurreisn og uppbygging hafði átt sér stað eftir nær algera eyðileggingu seinni heimsstyrjaldarinnar. Nú fóru konur út á vinnumarkaðinn. En ekki síður var það menningarleg bylting, hippatímabilið svokallaða, frjálsar ástir, eiturlyf, stúdentaóeirðirnar ’68 ….
Kaþólska kirkjan var í beinni andstöðu við þessi frjálslyndu gildi samtímans. Kaþólska kirkjan lagði mikla áherslu á aga. Kirkjan var skipulögð eftir skýru stigveldi, prestar voru tengingin á milli guðlegs máttar og almennings og miðluðu þar á milli í messum sem haldnar voru á latínu. Prestum bar að vera skírlífir og var kirkjan á móti getnaðarvörnum (hvað þá fósturrofum).
Prestaskóli Péturs Postula var því aðeins starfræktur sem slíkur í um fjórtan ár, frá 1966 og til 1980. Þó að aðstaðan byði upp á um hundrað nemendur voru þar þó ekki nema rúmlega fimmtíu þegar mest lét. Á þeim fjórtán árum sem prestaskólinn var starfræktur sem slíkur var sagt að byggingin hefði verið erfið í viðhaldi og töluvert um leka og hljóðeinangrun slæm. Þá var dýrt að kynda bygginguna.
Eftir að hætt var að nota bygginguna undir starfsemi Prestaskólans var reynt að finna byggingunni annað hlutverk. Á tímabili var þar meðferðarheimili fyrir eiturlyfjafíkla. Um miðjan níunda áratuginn brann skoska sveitasetrið sem prestaskólinn var byggður utan um. Á síðasta ári voru rústirnar loks gefnar Kilmahew-sjóðnum og vonandi að þeim verði fundið verðugt hlutverk.
Eftirfarandi ljósmyndir tók höfundur í október 2020:
Sjá einnig
- Áhrif Skotlands á sögu Íslands þar sem stuttlega er farið yfir lýðfræðilega þróun Skotlands.
- Brútalismi í hnotskurn: Sovét-húsið í Kalíningrad.
Heimildir
- St Peter’s, Cardross: Birth, Death and Renewal bók eftir dr. Diane Watters
- Life after death? Resurrecting a modern ruin umfjöllun BBC
- The Cardross case eftir Hunter, A. Mitchell
- The Catholic population of Scotland 1878-1977 by James Darragh
- The Social Class of Catholics in Scotland eftir Lindsay Paterson
- Púðursamsæri Guy Fawkes 1605 eftir Guðbrand Jónsson
- Christ and Caesar eftir Robert Buchanan
- Overspill Policy and the Glasgow Slum Clearance Project in the Twentieth Century: From One Nightmare to Another?