Fregnir hafa borist af því að vígamenn Íslamska ríkisins séu nú í óða önn að jafna við jörðu á jarðýtum mörgþúsund ára gamlar rústir assýrísku borgarinnar Nimrud; síðasta útspil samtakanna í stríði þeirra við það sem þeir kalla skurðgoðadýrkun.

 

Nimrud eða Kalhu var stofnuð um 1200 fyrir Krist, hún var um langt skeið ein af helstu borgum Assýríumanna og höfuðborg heimsveldisins á stjórnartíð Ashurnasirpals II konungs.

 

Borgin var lögð í eyði þegar assýríska veldið féll á sjöttu öld fyrir Krist, og um miðja nítjándu öld, þegar Bretar hófu fornleifauppgröft við Nimrud, var ekkert eftir nema nokkrir hólar sem gefið gátu til kynna forna frægð svæðisins.

 

Það vakti heimsathygli þegar fornleifafræðingurinn frægi Henry Layard gróf þar upp tvær gríðarstórar styttur af vængjuðum nautum með mannsandlit, sem gætt höfðu einnar af höllum Ashurnasirpals II, og flutti til Bretlands með mikilli fyrirhöfn um 1849. Stytturnar eru í dag eitt af tilkomumestu forngripum á British Museum.

 

Hlið Nimrud á British Museum.

 

 

En það var af nógu að taka í Nimrud. Eftir seinna stríð, þegar Írak hafði fengið sjálfstæði, tók Max Mallowan, einn af fremstu sérfræðingum Breta í fornminjum austurlanda nær upp þráðinn við Nimrud í samstarfi við heimamenn.

 

Hjónin Mallowan og Christie.

Hjónin Mallowan og Christie.

Max Mallowan er í dag ef til vill nokkuð þekktari sem seinni eiginmaður glæpasagnadrottningarinnar Agöthu Christie. Christie var sjálf mikil áhugamanneskja um fornleifafræði, og þau Mallowan kynntust einmitt við fornleifauppgröft í írösku borginni Úr árið 1930.

 

Næstu árin og áratugi fylgdi Christie eiginmanni sínum í uppgrefti víðsvegar um austurlönd — þvers og kruss um Tyrkland, Sýrland, Jórdaníu og Írak.

 

Christie við uppgröft í Sýrlandi.

Christie við uppgröft í Sýrlandi.

Christie féll sjaldan verk úr hendi, hún hjálpaði til við uppgröftinn, lagaði og varðveitti muni sem komu upp úr krafsinu, tók þátt í eldamennsku fyrir starfsliðið, tók ljósmyndir og skrifaði þar að auki margar af ódauðlegum glæpasögum sínum þarna úti í eyðimörkinni.

 

Þar var ekkert sem gat truflað hana, skrifaði hún síðar, „enginn sími, ekkert leikhús, ópera, hús eða garðar“.

 

Og árið 1949 kom hún með til Nimrud. Malloway hafði umsjón með uppgrefrinum þar allt fram til ársins 1963, og var Christie yfirleitt með honum. Þau létu byggja lítinn kofa þar sem Christie gat setið við ritvélina — ævintýrasagan They Came to Baghdad og Poirot-bókin Hickory Dickory Dock voru báðar að miklu leyti skrifaðar í Nimrud.

 

Christie var hrifin af Írak og Írökum og naut þess að taka þátt í uppgreftrinum, jafnvel þegar hún sjálf var kominn á sjötugsaldur, hrjáð af gigt og gekk við staf. Nimrud og nágrenni lýsti hún svona:

 

„Fallegur staður … Tígrisfljótið er bara í mílu fjarlægð, og úr stóra hól borgarvirkisins gægjast stór assýrísk steinhöfuð. Annarstaðar er það risavaxinn vængur mikillar töfraskepnu. Þetta er stórfenglegur landshluti — friðsamlegur, rómantískur og samofinn sögunni.“

 

Christie og Mallowan ásamt Barböru Campbell Thompson þegar þau komu fyrst til Nimrud árið 1931.

Christie og Mallowan ásamt Barböru Campbell Thompson þegar þau komu fyrst til Nimrud árið 1931.

 

Meðal þess sem Mallowan og félagar hans fundu í jörðu við Nimrud var fjöldinn allur af lágmyndum, skjöldum og styttum úr fílabeini, sem konungbornir íbúar Nimrud til forna notuðu til að skreyta húsakynni sín. Þetta voru og eru einhverjir merkustu fílabeinsmunir sem fundist hafa í austurlöndum.

com9369a_l

 

En þeir voru margir afar illa farnir, höfðu legið í leðju í meira en tvöþúsund ár, og þar að auki flestir með miklar brunaskemmdir, síðan innrásarherir Medíumanna og Persa brenndu konungshallirnar Nimrud, þegar veldi Assýríumanna molnaði.

 

Það var Agatha Christie sem tók að sér það vandasama verkefni að hreinsa þessa ómetanlegu gripi. Hún beitti nokkuð óhefðbundnum aðferðum, en með furðu góðum árangri — eins og hún lýsir sjálf í sjálfsævisögu sinni:

 

„Ég hafði mín eigin uppáhalds verkfæri — naglabandapinna, fíngerða prjónanál, og krukku af andlitskremi, sem reyndist mér allra best til þess að lokka óhreinindin blíðlega úr sprungunum án þess að skemma viðkvæmt fílabeinið. Reyndar var svo mikil eftirspurn eftir kreminu mínu að eftir nokkrar vikur var ekkert eftir fyrir vesalings andlitið á mér!“

 

Hluti fílabeinsgripanna frá Nimrud.

Hluti fílabeinsgripanna frá Nimrud.

 

Fílabeinsgripunum var síðan skipt á milli Íraks og Bretlands. Bresku gripirnir urðu eign Breska fornleifafræðiskólans í Írak (síðar Breska Íraksfræðasetrið) og voru í áratugi í geymslu, að mestu ósnertir.

 

Árið 2011 efndi British Museum svo til söfnunar meðal bresks almennings til að kaupa fílabeinsgripina til sýningar. 750 þúsund pund — 155 milljónir íslenskra króna — söfnuðust, og fílabeinsgripirnir frá Nimrud urðu þannig líklegu næstdýrastu kaup safnsins frá upphafi (á eftir babýlónsku Næturdrottningunni, sem var keypt fyrir eina og hálfa milljón punda á 200 ára afmæli safnsins 2003).

 

Hluti þeirra er nú til sýnis á safninu. Enn fleiri eru á þjóðminjasafninu í Bagdad, sem opnaði á nýjan leik á dögunum, tólf árum eftir innrás Bandaríkjamanna í Írak, en eflaust var einhverjum stolið í óöldinni sem henni fylgdi.

 

Fornleifafræðingar telja að ekki hafi enn verið grafið upp næstum því allt sem leynist undir jörðinni í Nimrud. Við skulum því vona að borgin forna standi af sér þennan síðasta innrásarher.

 

Íraskir fornleifafræðingar að störfum í Nimrud árið 200

Íraskir fornleifafræðingar að störfum í Nimrud árið 2001.