Árið 1904 ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að Læknaskólinn fengi að nota lík fátæklinga í bænum til krufninga í kennslu. Samþykktin var svohljóðandi:
Að fátækranefndin skuli hafa heimild til að afhenda læknaskólanum til uppskurðar [krufningar] lík þeirra fátæklinga, sem við andlát þeirra að öllu leyti eru á fátækra framfæri, svo framarlega sem nánustu aðstandendur þeirra (eiginmaður eða eiginkona, foreldrar eða börn) eigi sjálf kosta útförina — gegn því, að læknaskólinn kosti hana. Jafnframt lætur bæjarstjórnin í ljósi, að hún treystir því, að fátækranefndin beiti svo heimild þessara, að eigi séu særðar réttmætar tilfinningar náinna aðstandenda hins framliðna.
Eitt skuli yfir alla ganga
Tímaritið Nýja Ísland fjallaði um málið í febrúar 1904 og fór hörðum orðum um ákvörðunina. Greinarhöfundur blaðsins skrifaði:
Það skal strax tekið fram, að ég hefi ekkert á móti, að lík manna séu skorin upp og það væri hjartans velkomið að mér látnum, þó því að eins, að almennilega væri frá öllu gengið. Það væri líka sök sér, ef gefin væri út lög um að læknar mættu taka hvern dauðan mann, sem þeir vildu, og skera upp, þá væri þó að minsta kosti öllum gert jafnt undir höfði. En að taka einn flokk manna fyrir og segja: Þessir hafa engan rétt á sér, það er óþolandi —það er meira, það er ósómi og vanvirðublettur á bæjarmönnum, ef þeir láta þetta viðgangast. Og hér er einmitt tekin sú stétt manna, sem eðlilegast er að hafi mesta andstygð á þessu. Og mér er spurn: líður nú fátæklingunum ekki nógu illa á banasænginni, þó þeir þurfi ekki að láta sig hrylla við að verða allir tættir í sundur þegar þeir eru dauðir?
Hann gagnrýnir líka að einungis líkamar þeirra sem minnst máttu væru notaðir í þágu vísindanna.
„Þegar fátæklingarnir einir eru teknir, þá eru að eins teknir hinir horuðu og þeir sem lifað hafa við sult og seiru; læknaefnin þyrftu sjálfsagt að kynna sér ístrubelgina líka, til að sjá, hver áhrif óhóf og ofát hefir á mannlegan líkama.“
Lækna skorti lík
Það er nauðsynlegur hluti læknisnáms að sjá allar hliðar mannslíkamans. Áður fyrr var því lenska að læknanemar kryfðu lík. Krufningum fór svo fækkandi með framförum í læknavísindum. Í dag hafa krufningar að mestu verið aflagðar í læknisnámi á Íslandi. Í staðinn eru einstakir varðveittir líkamspartar skoðaðir eða myndabækur og þrívíddarforrit notuð.
Fyrr á árum gat læknaskólum reynst mjög erfitt að finna lík, eins og gefur að skilja. Margir kærðu sig ekki um að vera „tættir í sundur“, eins og það var orðað í Nýja Íslandi. Víða um lönd varð því til svartur markaður þar sem líkræningjar (e. body snatchers) seldu læknum illa fengin lík.
Drykkjumaður seldi líkama sinn fyrir brennivín
Árið 1899 lést Þórður Malakoff, svokallaður „furðufugl“ og drykkjumaður í Reykjavík. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sagði söguna af honum í Flakki, þætti Lísu Pálsdóttur á Rás 1:
Hann var sérkennilegur og mikill drykkjumaður. Vandræði að fá lík til krufningar, fólk vildi ekki leyfa það varðandi ástvini sína. Læknar gerðu þá samning við Þórð um að þeir fengju að kryfja hann að honum látnum í staðinn fyrir brennivínsflösku. Einn daginn fréttist af Þórði dauðum í verslun einni í bænum. Læknar þustu niður eftir til að sækja hann, en þá var hann bara brennivínsdauður. Þá orti Björn M. Ólssen (síðar rektor Menntaskólans) þetta kvæði: Loff Malakoff. 1897 dó hann þó og var krufinn í líkhúsinu.
Læknar horfðu á fólk eins og hrægammar
Bók Björns Th. Björnssonar Minningarmörk í Hólavallagarði er stútfull af forvitnilegum sögum úr gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Til dæmis þessari ótrúlegu frásögn um leit nemenda og kennara í Læknaskólanum að kræsilegum líkum:
Þegar sæmilegt lík féll til, steðjaði doktor Hjaltalín þangað suðureftir með lærisveina sína og „tók að brýna busana“. Bæjarbúum stóð stuggur af þessari sundurlimun guðs burtsofnaðra, svo læknar urðu að gefa út yfirlýsingar á prenti um það, að slíkt væri alls ekki til gamans gert, heldur þjónaði það þeim sem enn skrimtu. Minna var til hins tekið, þótt þeir doktorinn kæmu ekki alltaf jafn fótvissir frá þeim starfa.
Þótt margir kveddu þetta jarðlíf í því árferði sem þá gekk yfir, lágu lík alls ekki á lausu til krufningar. Þeir sem einhvers máttu sín voru látnir standa uppi heima fram að jarðarför, og jafnvel um ræflana varð að spyrja leyfis, ættu þeir þá nokkurn að. Vandi læknislistarinnar var því sá, að herja sér út lík með einhverju móti.
Gerðust af því mörg atvik, kátleg fyrir eftirtímann, og er söngurinn um Þórð Malakoff andinn í þeim öllum.
Eitt sinn, svo er sagt á bókum, dó niðri í Grjótaþorpi gamall húsþræll Bakkusar. Ekkjan var að vonum hrædd um líkið og læsti það kyrfilega inni meðan hún skrapp út í bæ. En líkræningjarnir brutust inn á meðan, skutu karli út um glugga og voru komnir með hann upp á líkhússtíg þegar þeirri eftirlátnu hafði tekist að safna liði og ná eign sinni af þeim.
Í annað sinn, þótt það gerðist vel síðar, var ástandið svo bágborið að læknastúdentarnir gátu ekki lokið prófi í skurðaðgerðum sökum yfirþyrmandi líkaskorts. Gengu þeir þá saman um göturnar, horfandi á fólk, eins og hrægammar í vonum um bráð.
Loks frétta þeir af kerlingu sem snúið hafi upp tánum suður í Hafnarfirði, og var einum nú „falin framkvæmd í þessu máli. Fékk hann lánaðan hest og reið þegar um kvöldið suður í Hafnarfjörð, og hvert þeir nú, ekkjumaðurinn og hann, þinguðu um þetta lengur eða skemur, þá varð það úr að Jónas [en svo hét sendimaður] kom með kerlinguna og galt fyrir hana 100 krónur, þótt hún væri stórgölluð“, segir læknirinn að lokum í frásögn sinni.
Önnur lík, tilvonandi, keyptu þeir á fæti, svo sem Þórðar Árnasonar Malakoffs, þótt lengi þyrfti að bíða þar til þetta svolgrandi þrekmenni gæfi sig til. Það var ekki fyrr en 10. maí 1897 sem hann hætti að eiga sitt eigið lík og læknanemarnir gátu byrjað að taka úr honum slátrið.
Entist hann þeim hátt á aðra viku, en þá voru borin ölföng upp í Líkhús og haldnar ræður yfir pörtunum á sjö tungumálum. Við hverja skál „var einhverju af þessum heiðrúnardropum stökkt á hans jarðnesku leifar“, segir Ingólfur Gíslason læknir í minningum sínum. „Við Jónas Kristjánsson kistulögðum svo leifar Þórðar Malakoff og vonum að hann rísi upp heill á himnum, þótt hann væri nokkuð laus í böndunum, er við sáum hann síðast.“