Buzludzha minnismerkið var reist af ríkisstjórn Búlgaríu árið 1981 í tilefni af hundrað ára afmæli kommúnistaflokksins þar í landi. Það stendur á samnefndum tindi 1441 metra fjalls í um 200 km fjarlægð frá Sofíu, höfuðborg landsins, skammt frá vígvelli þar sem búlgarskir uppreisnarmenn börðust við hersveitir Ottóman-veldisins á 17. öld.
Árið 1891 funduðu stofnendur sósíaldemókrataflokks Búlgaríu á Buludzha-tindi, en sá flokkur var fyrirrennari kommúnistaflokksins sem komst til valda í landinu eftir seinni heimsstyrjöld. Hundrað árum síðar reisti flokkurinn minnismerkið, sem var lengi vel opið almenningi. Eftir fall kommúnismans 1989 hefur búlgarska ríkið hins vegar hætt að halda því við og það stendur nú í niðurníðslu, hálfeyðilagt og þakið veggjakroti. Enn má þó sjá leifarnar af metnaði fyrri tíma, risavaxnar sósíalrealískar mósaíkmyndir af áróðursstefum og lærimeisturum kommúnismans.
Lemúrinn birtir hér nokkrar vel valdar myndir af minnismerkinu. Myndirnar tóku Stanislav Traykov og Mark Ahsmann: